Archive for the ‘Lífið’ Category

Engar áhyggjur

Kannski var síðasta færsla full dramatísk, ég var orðinn frekar áhyggjufullur þegar ég skrifaði eitthvað hér síðast. Við erum að mestu komin út úr öllum vandræðum og er bara bjart framundan.

Er dálítið leiðinlegt að hér skuli hafa orðið messufall því það sem ég met mest við bloggið eru minningarnar sem það geymir. Ég ætla að reyna að halda þessu við svo ég geti átt mína dagbók hér.

Núna er komið páskafrí hjá drengjunum. Líklega munum við fara á ströndina með vinafólki. Leiðin liggur til Acapulco sem er vinsæll áfangastaður fyrir þá sem búa í Mexíkóborg þar sem hægt er að keyra þangað á um fimm klukkustundum.

Líklega er hægt að finna enn betri sólarstrendur en þar sem fjarlægðir eru miklar í þessu landi þá látum við Acapulco duga að sinni.

Fundur

Fór á mikilvægan fund í gær. Leysti líklega úr þeirri stöðu sem var kominn upp í kaupum á seinna húsinu. Ég ætla ekki að kaupa húsnæði í bráð, þetta ætlar engan enda að taka. Líklega komið eitt og hálft ár síðan við byrjuðum á þessu basli en á endanum verður þetta gott, vona ég.

Tags: ,

Tvennir fjórtán

Febrúar er leiðinlega stuttur, útgjöldin eru hin sömu en tekjurnar dragast saman sem nemur þessum fáu dögum. Sem betur fer er aðeins einn á hverju ári.

Tags:

Svona var það 2013

Ég tilnefni árið 2013 sem næst erfiðasta ár ævi minnar. Ekkert slær út 2009, eða það vona ég. Þetta nýliðna ár var langt og strangt, jafnvel þótt að dagafjöldinn sé alltaf sá sami á þessum árum þá entist 2013 mun lengur. Allavega var það mín upplifun.

Auðvitað voru engin alvarleg vandamál á ferðinni. Þetta var mest vesen í kringum húsnæðismál. Lúxusvandamál heitir það víst, við keyptum okkur tvö flunkuný hús á árinu og því ekkert undarlegt að það hafi verið strembið.

Síðan við komum heim frá Íslandi haustið 2012 þá ákváðum við ekki mætti bíða lengur með að flytja í nýtt húsnæði. Við bjuggum í lítilli tveggja herbergja íbúð sem tengdamamma keypti sér við upphaf tíunda áratugsins þegar Anel var enn lítil gelgja. Tuttugu árum síðar var löngu orðið timabært að flytja í betra húsnæði.

Við áttum aðra íbúð í sömu blokk sem var mun minni og hafði áður verið tannlæknastofa Anelar. Henni var breytt í íbúð 2008 og þar bjó tengdamamma. Báðar íbúðirnar voru settar á sölu í lok nóvember 2012, ef ég man rétt, og sú stærri seldist á þremur vikum enda bjuggum við mjög miðsvæðis. Í byrjun febrúar 2013 þurftum við að flytja allt okkar hafurtask niður í minni íbúðina þar sem tengdó bjó og þar hýrðumst við öll sex í marga mánuði á 46 fermetra svæði. Er það ein helsta ástæða þess hversu langdregið og erfitt árið var.

Leitin að framtíðarhúsnæði hófst um sama leiti og við settum okkar íbúð á sölu. Fyrst vorum við ekki viss um hvort að betra væri að leigja fyrst og kaupa síðar. Því fór töluverður tími í að kanna leigumarkaðinn enda höfðum við lítið spáð í þessum málum áður. Alltaf var ljóst að við vildum vera í nágrenni World Trade Center þar sem við eigum okkar atvinnurekstur. Einnig vissum við ekki hvað ætti að gera í skólamálum drengjanna þannig að þetta voru óvissutímar. Óvissan er alltaf erfið.

Eftir að hafa skoðað endalaust af íbúðum til leigu fórum við að athuga meira með að kaupa húsnæði. Eftir nokkurt streð fundum við loks í lok febrúar skemmtileg hús sem byggð voru 13 saman á einni lóð. Hvert hús er ekki stórt að flatarmáli en á móti kemur að þau eru byggð á þremur hæðum auk þess sem þakgarður er á efstu hæðinni. Þetta er í göngufjarlægð frá vinnustaðnum og verðið var hreint ekki slæmt, en húsin voru ný og eru reyndar enn í frágangi.

Við slógum til og þá hófst nýr kafli þar sem við þurftum að fjármagna kaupin og borga um þriðjung fyrirfram en það hafðist allt með tímanum og við fengum húsið afhent þann 4. september og var það mikill gleðidagur. Einnig tókum við þá ákvörðun að kaupa annað hús af þessum 13 fyrir tengdamömmu. Reyndar var það líklega einum of en í apríl á þessu ári verðum við búin að fjármagna þau kaup, ef allt gengur upp. Ef ég verð enn ekki orðinn gjaldþrota í aprílbyrjun þá verð ég mjög hamingjusamur maður, því skal ég lofa.

Einnig þurftum við að finna skóla fyrir drengina en við fundum einn að lokum sem okkur leist vel á. Hann kallast Woodland School þar sem kennslan fer að mestu fram á ensku. Þetta er mjög skemmtilegur skóli og strákunum líður mjög vel þar, öllum þrem.

Skólinn er einnig í göngufjarlægð frá nýja kofanum sem kemur sér vel þar sem við höfum verið bíllaus allt síðasta ár en gamli bílskrjóðurinn var seldur í desember 2012. Ég bjóst reyndar ekki við því að vera bíllaus svo lengi en með þessi fasteignakaup þá hefur verið lítið svigrúm undanfarið fyrir lúxus eins og einkabíl. Vonandi breytist það á þessu ári en að vissu leiti er það ágætt að vera ekki að vandræðast með bíl því þeim fylgja mikil útgjöld og oft eitthvað vesen.

Einnig höfum við ekki getað fyllt húsið strax af öllum þeim húsgögnum sem líf nútímamannsins krefst en það kemur bara smán saman.

Húsnæðismálin voru semsagt þungamiðja ársins 2013 og tóku þau sinn toll af manni. Þetta horfir þó allt til betri vegar, flutningar afstaðnir og regla komin á hlutina á ný.

Af öðrum atburðum þá voru ríkistjórnarskiptin á gamla landinu ein helsta fréttin fyrir mér. Ég er enn svekktur yfir þessum kosningum og að fá gamla DB ríkisstjórn. Sýnir kannski hvernig skoðanir manns eru enn verulega á skjön við meðal-Íslendinginn.

Einnig var það mikil breyting fyrir okkur að Ían Magni fór á leikskóla í fyrsta sinn nú í haust og að auki er hann hættur á bleyju fyrir all nokkru. Sefur enn með hana en það verður ekki lengi. Við skiptum um bleyjur án þess að stoppa frá janúar 2007 fram á síðasta haust. Ekki á ég eftir að sakna þess, það er næsta víst.

Reksturinn hefur gengið mjög vel og við erum nú með níu manns í vinnu auk okkar. Við erum með nokkrar hugmyndir við viljum útfæra á nýju ári en best að segja sem minnst á þessu stigi hvernig það verður. Svo virðist sem að skóli drengjanna eigi eftir að hjálpa nokkuð til þar sem þegar eru farnir að streyma nýir kúnnar þaðan.

Í stuttu máli, gamla árið var erfitt en við náðum okkur markmiðum. Endirinn var mjög góður, en við vorum á sólarströnd yfir jól og áramót, gerist varla betra.

Ég er mjög bjartsýnn á nýja árið, hef ekki verið svona bjartur síðan…… ehemm 2008 gekk í garð en það geta varla orðið mörg efnahagshrun á einni mannsævi, er það nokkuð? Þetta verður ágætt, heimurinn er alltaf að batna og heldur því líklega áfram á nýja árinu. Vonandi komumst við til Íslands á þessu ári en það kemur í ljós með tímanum.

Lifið heil.

Tags: ,

Flutningar yfirstaðnir – yfirlit

Að flytja er ekki góð skemmtun og verður vonandi ekki endurtekið í bráð.

Nú er orðið töluvert síðan að við hjónin fórum að velta fyrir okkur að flytja þar sem gamla húsnæðið var of lítið og gamalt. Eftir að við komum heim frá Íslandi síðastliðið haust fór undirbúningur á fullt, við byrjuðum að fleygja hlutum sem við notuðum ekki eða höfðum enga þörf fyrir. Magnið af rusli sem við losuðum okkur við var ekki lítið en Anel og móðir hennar bjuggu í gömlu íbúðinni frá 1992, sjálfur safna ég ekki miklu af óþarfa en eitthvað var það nú sem fékk að fjúka.

En það er ekki nóg að fleygja notuðum hlutum og við settum íbúðina á sölu um mánaðamótin nóv-des og þar sem við áttum tvær íbúðir í sömu byggingunni stefndum við fyrst að því að selja báðar. Sú fyrri, sem er stærri og þar sem við Anel bjuggum með Ara, Emil og Ían var fljót að fara. Held að það hafi liðið 10 dagar frá því að ég hengdi upp auglýsingu (mexíkanska leiðin við fasteignasölu) utan á blokkina þar til íbúð 9 var seld. Þetta var í kringum 10 desember, ef ég man rétt.

Síðan liðu jól og áramót, kaupandinn var eldri kona, ekkja sem vantaði íbúð miðsvæðis og hún borgaði hana fljótt með reiðufé og allir pappírar voru frágegnir í lok janúar. Við fórum úr þeirri íbúð 10. febrúar og fluttum okkur niður í þá minni, sem var reyndar gamla tannlæknastofan okkar. Rebeca tengdamamma bjó þar í nokkur ár og við einhvern veginn tróðum öllu okkar dóti og okkur sjálfum þar inn.

Fljótlega tókum við á leigu geymslu og fluttum eitthvað að húsgögnum þangað þar sem þetta var ekki alveg að ganga upp enda íbúðin ofhlaðin. Með því losnaði aðeins um og við gátum komið okkur fyrir en ekki vel þó.

Áður en þetta gerðist vorum við að sjálfsögðu farin að svipast um eftir íbúð, fyrst til leigu og það voru drjúgar stundirnar sem ég eyddi í að skanna leigumarkaðinn. Einnig vorum við líka að athuga með að kaupa en í raun höfðum við ekki mikinn tíma aflögu til að eyða í þessi mál, eins furðulega og það hljómar. Alltaf nóg að gera.

Síðan gerist það einn daginn að við förum að skoða íbúðir í nýrri blokk sem verið var að klára. Mér leist ekkert á þetta, langt frá því svæði sem við vildum flytja til og var tvístígandi þar óþolinmóður yfir þessari tímasóun. Þá nefndi fasteignasalinn að þau voru einnig að selja hús og íbúðir annars staðar í borginni og ég lét til fallast, treglega þó, að fara nú og líta á hvað væri í boði. Þá kom einfaldlega í ljós að þarna voru skemmtileg lítil hús til sölu sem voru á hagstæðu verði, flunkuný með öllum nútímaþægindum. Einnig vorum við í göngufjarlægð frá World Trade Center og mikið af góðum skólum í hverfinu.

Við hófum því ferlið við að kaupa eitt stykki hús fyrir okkur og það hafðist af að skrifa undir kaupsamning í lok mars. Síðan um vorið og sumarið borguðum við innborgunina og fengum húsnæðislán hjá bankanum. Eftir mikið japl, jaml og fuður fluttum við loks inn 4. september sem fer í okkar sögubækur sem einn besti dagur ævi okkar.

Í millitíðinni seldum við hina íbúðina í ágúst og bjuggum hjá frænku Anelar í um rúmar tvær vikur til að brúa bilið milli heimila.

Síðan þá höfum við verið að koma okkur fyrir og erum reyndar enn að týna síðustu hlutina saman. Vandamálið við flutninga eru ekki stór húsgögn. Sérstaklega hér í Mexíkó þar sem maður ræður einfaldlega einhvern til að redda því og síðan fara stóru hlutirnir einfaldlega á sinn stað, hvort sem við erum að tala um þvottavélar, rúm, sófa eða eitthvað því um líkt. Vandamálið eru smáir hlutir, pappírar og alls kyns lítið dót sem safnast upp með árunum og maður tímir kannski ekki að fleygja en þá þarf að geyma þetta einhvers staðar með tilheyrandi fyrirhöfn.

En svo virðist sem að þessu ferli sé að ljúka. Margt vantar enn á heimilið, við hjónin fleygðum rúminu okkar og höfum enn ekki fengið okkur annað. Við eigum engin stofuhúsgögn og gamla sjónvarpið fékk ekki að koma með í nýja húsið enda um hallærislegan gamlan túbuskjá að ræða. Við eigum enn ekki flatskjá og höfum verið sjónvarpslaus í um mánuð. Það er reyndar ágætt, ég sakna þess ekki mikið enn sem komið er enda engin tími til að góna á imbann undanfarin ár.

Hvað um það, smán saman setjum við saman nýtt og gott heimili. Við erum öll hæstánægð, ég held sérstaklega að strákarnir hafi verið orðnir leiðir á þessu hálfgerða heimilisleysi og rótleysi. Ég skrifa nánari lýsingar á kofanum bráðlega.

Tags:

Færsla 2001

Aldrei fór það svo að ég næði ekki að blogga 2000 sinnum. Hér er helst í fréttum að við höfum flutt okkur úr íbúðinni og byggingunni þar sem ég hef búið síðan ég fluttist til Mexíkó, Anel og tengdamamma hafa verið þar síðan 1992. Nú búum við hjá frænku Anelar á meðan við bíðum eftir því að fá afhent nýja húsið.

Drengirnir þrír byrjuðu allir í skólanum á mánudaginn, þetta er mikil breyting á okkar högum þar sem við höfum verið með a.m.k. einn stubb á heimilinu alla daga síðan Ari fæddist. Verðum vonandi afkastameiri við þessar breytingar.

Tags:

Biðstaða

Hér gerast góðir hlutir hægt. Líklega erum við að losa okkur við íbúðarkytruna okkar á morgun, þá seinni sem við seljum á þessu ári. Getum líklega hangið þar eitthvað enn meðan skrifræðið töltir sinn gang. Nýja húsið á víst að vera tilbúið á morgun en þá tekur við matsferli og vesin í kringum veðlán. En vonandi getum við flutt sem fyrst því við erum orðin frekar þreytt á núverandi stöðu.

Í öðrum fréttum þá stendur víst til að fara í óvænta ferð til Chiapas á morgun, sjáum til hvernig það fer.

Tags: ,

Árið hálfnað (hér um bil)

Árið 2013 er nokkurn veginn hálfnað og þegar er ljóst að þetta verður afbragðsgott ár en einnig erfitt. Við höfum í raun, síðan við komum úr sumarfríinu langa á síðasta ári, verið að vinna í okkar húsnæðismálum. Þar sem einhvern veginn allt tekur lengri tíma hér ytra þá höfum við búið nánast í ferðatösku síðan í febrúar og í þokkabót verið bíllaus síðan í desember. En það er farið að hylla undir lokin á þessu langa tímabili og fest hafa verið kaup á nýju einbýlishúsi sem er spölkorn frá okkar helsta vinnustað. Húsið er enn í frágangi en við vonumst til að fá afhent í ágúst.

Einnig höfum við fundið skóla fyrir strákana sem er þar skammt hjá og munu allir þrír fara þangað í ágúst þegar næsta skólaár byrjar, Ari í grunnskóla, Emil í leikskóla og Ían á dagheimili.

Í raun og veru verða þetta algjör kaflaskipti í okkar lífi og við hlökkum mikið til að flytja í nýja húsið. Nú er bara að þrauka í einhverjar vikur í viðbót og sjá til hvernig þetta endar allt saman.

Þangað til næst, ekkert stress og bless.

Tags: ,

Besti mánuðurinn

Alltaf er nú best þegar maí gengur í garð. Óumdeilanlega besti mánuðurinn af þeim 12 sem við höfum.

Páskafrí

Við ætlum okkur í páskafrí og ferðinni er heitið til Ixtapa, ferðamannastaðar á vesturströnd Mexíkó þar sem hægt er að busla í Kyrrahafinu og láta streitu ofurborgarinnar líða úr sér. Ég hef ekkert komist burt úr borginni síðan við komum frá Boston í september síðastliðnum þannig að þetta verður kærkomið frí.