Archive for the ‘Kvikmyndir’ Category

Emil í bleyjuauglýsingu/Ari í kvikmynd

Ferðin til Tabasco verður víst að bíða um sinn þar sem Emil litli fékk sína fyrstu vinnu í dag. Hann verður einn af þremur börnum í bleyjuauglýsingu fyrir Huggies og munu tökur fara fram á miðvikudaginn og fimmtudaginn. Ég vona að þessi auglýsing endi á Youtube svo ég geti smellt henni hérna inn.

Minnir mig einnig á það að ég hef enn ekki sett neitt á bloggið um fyrsta hlutverk Ara en hann lék í kvikmynd fyrr á þessu ári sem verður frumsýnd í nóvember. Mun sú mynd bera titilinn Marcelino pan y vino og er endurgerð af frægri spænskri mynd sem kom út 1955.

Aðalsöguhetja myndarinnar er drengurinn Marcelino sem er munaðarlaus og elst upp í munkaklaustri. Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að hann verður vitni af kraftaverki þegar hann býður kristlíkneski brauð að snæða og við það lifnar líkneskið við, fær sér brauðbita og kynnir drenginn svo fyrir móður sinni. Þessi mynd er víst afar vinsæl í spænskumælandi löndum.

Ari fer með hlutverk Marcelino þegar hann er um tveggja ára. Minnir að fjögur börn fari með hlutverk Marcelinos en aðalhlutverkið er í höndum fimm ára drengs. Ari mun birtast í tveimur eða þremur senum í upphafi myndarinnar en önnur tvö börn leika Marcelino þegar hann er enn yngri.

Minnir að tökurnar hafi farið fram í apríl en ég komst ekki sjálfur þar sem ég þurfti að vinna eins og þægur launaþræll. Anel fór með drengjunum og það var víst spes upplifun, Ari fékk m.a. sitt eigið hjólhýsi meðan á tökum stóð. Að sjálfsögðu var allt uppihald frítt en tökur fóru fram í þorpi einu um tveggja tíma akstur frá Mexíkóborg skammt frá Toluca í Estado de México.

Við bíðum spennt eftir frumsýningardeginum, verður áhugavert að sjá Ara á hvíta tjaldinu og líklega verður hans getið á imdb.com. Vona að strákarnir verði frægir og ríkir einn daginn þannig að ég geti tekið því rólega í ellinni.

Tags: , ,

Star Trek

Ég biðst fyrirfram velvirðingar á öllum þeim nördaskap sem kemur fram í þessu bloggi. Fátt kallar sterkar fram nördið sem býr innra með manni en Star Trek.

Semsagt, í júní þegar ég var þjakaður af netskorti fórum við Anel í bíó að sjá nýjasta innleggið í Star Trek sagnabálkinn sem hét því hógværa nafni Star Trek. Ég vissi ekki alveg á hverju ég ætti von en þessi ræma kom manni á óvart, jafnvel óþægilega á óvart. Þeir sem hafa ekki séð myndina enn ættu ekki að lesa meira.

Hér er semsagt farið aftur í upprunann, til upphafsára Kirks og Spocks þegar þeir voru ungir nemar í Stjörnuflotaskólanum. Allt fer í hönk þegar óhemju úrillur og vondur Rómúli dettur inn óboðinn úr framtíðinni og kennir herra Spock um að hafa eytt Rómúlus í þeirri sömu tíð. Hann lætur umsvifalaust til skarar skríða og eyðir Vúlkan ásamt flestum íbúunum í hefndarskyni. Stjörnuflotinn getur ekkert gert þar sem vondi Rómúlinn er með svaka framtíðarvopn sem þeir hafa ekki roð í.

Þetta hefur svosem gerst áður í Star Trek heiminum. Í First Contact svindluðu Borg sér aftur í fortíðina og breyttu framtíðinni sér í hag en Picard og hans fólk náðu að redda því fyrir rest. Ég átti von á því að eitthvað svipað gæti gerst hér en það merkilega við þessa mynd er að tímalínan er aldrei leiðrétt. Í lokin, eins og Spock segir sjálfur svo smekklega, þá eru Vúlkanar orðin tegund í útrýmingarhættu. Öll framtíð Stjörnusambandsins er í uppnámi þar sem Vúlkanar voru ein aðalþjóðin í þessu öllu saman en verða það líklega ekki í þessum heimi.

Veit ekki alveg hvað manni á að finnast um þetta því í raun þýðir þetta að allt Star Trek dótið sem framleitt hefur verið, fyrir utan þá Enterprise leiðindin, á aldrei eftir að gerast. Allavega þá í breyttri mynd.

Hvað um það, myndin sjálf er nokkuð góð. Tæknibrellur og allt það í öðrum klassa en maður á að venjast í Star Trek. Held að þetta hljóti að vera mesta hasarmyndin í flokknum en kemur þó einnig réttu stemningunni til skila. Var nánast hjartnæmt að sjá Leonard Nimoy snúa aftur sem gamli Spock 18 árum eftir að hann sást síðast í Star Trek mynd. Var ekki alveg viss um valið á leikara fyrir nýja Spock, sá alltaf illmennið Sylar fyrir mér úr Heroes en þrátt fyrir það slapp þetta vel fyrir horn.

Þrátt fyrir allt þá er þetta líklega ein besta myndin í þessum flokki, ef ekki sú besta. Verður áhugavert að sjá hvernig unnið verður úr þessu í framhaldinu.

Ég er nánast fullviss þó um að gamla uppistands myndin Delirious með Eddie Murphy hafi verið innblástur fyrir eitt atriðið í þessari mynd. Þegar Kirk fækkar fötum með stúlku einni sem er græn að lit þá gat ég ekki annað en hlegið því eftirfarandi atriði úr Delirious lifir alltaf góðu lífi í minningunni.

Tags: , , , , ,

Afmælið

Ég átti afmæli í gær. Anel bakaði pizzu af því tilefni í fyrsta sinn og einnig eplaköku með vanillusósu. Svo fórum við hjónin í bíó, það er sjaldgæfur munaður fyrir okkur nú á dögum.

Var reyndar ekkert sérstakt í bíó þegar ég renndi yfir úrvalið, er af einhverjum ástæðum lítið spenntur fyrir Wolverine þótt mér hafi fundið X-men myndirnar ágætar. Enduðum á því að fara á Una pasión secreta eða The Reader með Kate Winslet í óskarsverðlaunahlutverki. Var ágætis mynd og nokkuð fersk nálgun á vondu nasistana.

Annars átti að frumsýna Star Trek á afmælisdaginn minn en því var frestað vegna þess að H1N1 var með stæla. Hún hefði verið valin annars.

-—-

Tók annars einhver eftir því hvort að ég birtist í Mogganum? Ég sá ekkert á mbl.is. Líklega var mér sleppt þar sem ég var of rólegur í viðtalinu og spar á stóru orðin. Slíkt selur illa.

Tags: , , ,

Q & A eða Viltu vinna milljarð? eða Slumdog Millionaire

Ég fékk bókina „Viltu vinna milljarð?“ sem gjöf frá systkinum mínum að heiman fyrir jólin 2007. Á sínum tíma kom mér það töluvert á óvart að fá indverska skáldsögu, fyrsta verk höfundarins Vikas Swarup, sem ég þekkti ekkert til. Bókin var og er hinsvegar stórskemmtileg og mjög vel heppnuð. Sögð er ævisaga munaðarleysingja í gegnum sjónvarpsþáttinn „Viltu vinna milljarð?“ þar sem hver spurning tengist ákveðnum atburðum í lífi hans.

Á sínum tíma hugsaði ég með sjálfum mér á meðan lestrinum stóð að þetta væri úrvals efniviður í kvikmynd. Þar sem ég fylgist lítið með kvikmyndum þessa dagana kom það því mér í algjörlega í opna skjöldu þegar ræma með ofangreindum söguþræði eftir Danny Boyle vann Golden Globe verðlaunin. Ég hafði ekki hugmynd um að þegar væri búið að festa bókina á filmu og ákvað þegar að nú yrði farið í bíó. Við hjónin höfðum ekki stundað slíkt athæfi síðan í september þegar norræn kvikmyndahátíð var í gangi hér í borg.

Höfðum það loks af á föstudaginn að berja meistaraverkið augum eftir að Slumdog Millionaire hafði unnið flest verðlaun sem hægt er að vinna á þessu ári.

Nánast alltaf þegar mynd er gerð eftir bók þá finnst manni stundum hitt og þetta vanta. Eins er með þessa mynd en hún er þó það áhrifamikil að það sleppur í þetta skiptið. Hún var kannski ekki eins frábær og ég átti von á enda búið að hæpa hana gífurlega upp en þetta var bara nokkuð gott.

Við hjónin skemmtum okkur betur heldur en yfir síðustu mynd sem við sáum í bíó, dönsk mynd um barnaníðing sem níddist á öllum börnunum sínum. „Listin að gráta í kór“ hét hún víst. Alltaf gaman að sjá norrænar myndir, það vantar ekki.

Mér finnst nú að gera eigi sjónvarpsþætti eftir „Viltu vinna milljarð?“ þar sem það eru svo margar góðar sögur ónýttar úr bókinni. Einnig var plottið þykkra og safaríkara þar sem spyrilinn var líka margflæktur inn í líf munaðarleysingjans. Svo vann hann líka milljarð í bókinni, ekki einhverjar skitnar tuttugu milljónir. Hvað var með það?

Tags: , ,

Bíóblogg

Í gær gerðumst við hjónin menningarleg og fórum á norræna kvikmyndahátíð. Þarna voru mættir sendiherrar Finnlands, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Hér vantar sárlega íslenskan sendiherra og ég vil nota tækifærið til að bjóða mig fram í starfið.

Eftir ræðu frá norska sendiherranum hófst undurfurðuleg stuttmynd sem ég held að hafi verið norsk og svo var opnunarmyndin sýnd, Den Brysomme Mannen frá Noregi. Reyndar hefst myndin á hálendinu á Íslandi þar sem rúta frá Sæmundi spilar stórt hlutverk. Frá íslensku hálendi keyrir aðalsögupersónan til Noregs þar sem undarlegir atburðir gerast.

Verð að viðurkenna að það var hressandi að sjá eitthvað annað en hollívúdd mynd þar sem maður veit nánast hvað á eftir að gerast eftir fyrstu mínúturnar. En þessi mynd var heldur súr fyrir minn smekk en nokkuð góð engu að síður.

- – - – -

Betri en sú síðasta sem við fórum á, Journey to the Center of the Earth. Að vísu var gaman að sjá dálítið af Íslandi í þrívídd en myndin er svo léleg að ég hef sjaldan séð annað eins í bíó. Sem betur fer kostar miðinn hér einungis um 300 krónur, vorkenni þeim sem eyða þrefaldri þessari upphæð á Klakanum.

Hvað var með þessa stúlku; Hannah Ásgeirsson? Gat Anita ekki sagt leikstjóranum frá íslenskri nafnahefð? Og hvað var með þetta hús sem hún bjó í? Ég hef aldrei séð svona mikið hreysi á Íslandi og er þó úr sveit. Og hvar var frikkin Snæfellsjökull? Afhverju var verið að taka upp á Íslandi ef jöklinum var svo algjörlega sleppt? Meira bullið.

- – - – -

Þar áður fórum við í bíó á Íslandi og sáum eina þá skemmtilegustu mynd sem ég hef séð lengi, The Dark Knight. Mikið var ég ánægður með þá mynd og langar í raun til að sjá hana aftur. Eftir að hafa séð nýju Batman myndirnar verða þær gömlu svo hallærislegar að þær lenda á bekk með gömlu sjónvarpsþáttunum. Sérstaklega ruslið sem Joel Schumacher gerði, það voru svo sannarlega vondar vondar bíómyndir.

Heath Ledger fær örugglega óskar fyrir þetta, sjaldan sem ég hef séð leikara fara svona algjörlega á kostum. Jókerinn verður eitt mesta illmenni kvikmyndasögunnar í hans túlkun. Reyndar eru allir leikararnir góðir í þessari mynd. Fregnir herma svo að Mörgæsin og Gátumaðurinn eiga eftir að mæta til leiks í þeirri næstu. Ég vona innilega að sagan á bakvið Mörgæsina verði eitthvað endurskoðuð frá Batman Returns, gengur eiginlega ekki að hafa mann sem er alinn upp af mörgæsahóp í þessum nýju myndum.

Sagan á bak við Gátumanninn verður þó einföld í nútíma samfélagi. Ég sting upp á að hann verði maður sem tekur þátt í raunveruleikasjónvarpi þar sem leysa á ýmsar þrautir, klikkar á lokaþrautinni og vinnur ekki milljón dollara. Verður eftir það með mikla þráhyggju fyrir gátum og byrjar á endanum að drepa framleiðendur þessara þátta. Áhorfendur eiga eftir að halda stíft með honum, jafnvel meir en Blaka sjálfum. Hver vill ekki fækka framleiðendum reality tv?

Narnía II

Þegar ég sá fyrstu myndina um Narníu í desember 2005 var ég að drepa tímann í snjókomunni og frostinu í Gautaborg. Ég beið þar eftir fluginu mínu sem endaði að lokum í Afríku en ég sé núna að ég minntist ekki á þessa bíóferð þá enda margt annað búið að gerast í millitíðinni í Svartálfu sem var áhugaverðara en nýjasta hollívúdd túlkunin á bókmenntum. Reyndar minnir mig að ég hafi ekki verið sérstaklega ánægður með fyrstu myndina, var frekar stirðbusaleg og óáhugaverð ef mig minnir rétt.

Þrátt fyrir þessa fyrri reynslu fórum við Anel að sjá Kaspían prins sem er nr. 2 í röðinni í Narníusögunum. Kannski var það betri félagsskapur í þetta skiptið, en ég fór í fyrsta og eina skiptið á ævinni einn í bíó á fyrstu myndina, en þessi mynd féll í betri jarðveg hjá mér en sú fyrri.

Þessar sögur eru í raun mjög absúrd. Krökkunum er kippt aftur til Narníu og þau finna þar rústirnar af staðnum sem þau bjuggu 1300 árum fyrr þegar þau voru fullorðin kóngar og drottningar en eru samt nú börn á nýjan leik. Kannski merki um styrk sagnanna að manni finnst þetta ekki svo fáránlegt þegar horft er á þetta. Hvað um það, mynd nr. 2 er mun betri en sú fyrri. Sagan flæðir betur og er áhugaverðari að mér finnst.

Eitt sem mér fannst athyglisvert. Í myndinni finna þau taflmann úr gulli, sem eitt þeirra átti áður, í þeim hallarrústum þar sem þau áttu áður dvalarstað. Þetta minnti mig óneitanlega á lok Völuspáar þegar ástandinu eftir Ragnarök er lýst.

Þar munu eftir
undursamlegar
gullnar töflur
í grasi finnast,
þær er í árdaga
áttar höfðu.

Velti því fyrir mér hvort að um einhverja bókmenntavísun var að ræða hjá C. S. Lewis eða hvort að um tilviljun sé að ræða.

Afmæli og Járnkallinn

Ég þakka þeim sem sendu mér afmæliskveðjur í gær. Við Anel eyddum kvöldinu á ítölskum veitingastað þar sem þjónarnir koma með köku og syngja afmælissönginn á ítölsku fyrir afmælisbörnin. Í þetta skiptið gleymdu þeir mér þó og Anel kenndi mér um það því ég var of fljótur að biðja um reikninginn. Gengur betur næst.

Eftir það fórum við að sjá Járnkallinn í bíó. Sú mynd fjallar um ríkan vopnaframleiðanda sem fellur óvænt í hendur hryðjuverkamanna í Afganistan þegar hann er í bisnessferð þar í landi. Til að sleppa úr þeirri prísund smíðar hann sér hátæknibrynju úr ýmsu tilfallandi og það gengur eftir að hann sleppur, en hefur beðið töluverðan sálrænan skaða af þessari reynslu því eftir þetta hættir hann að framleiða vopn. Frekar einbeitir hann sér að þróa frekar þessa hátæknibrynju sínu til að berjast gegn því sem hann framleiddi áður.

Járnkallinn er alveg ágæt ofurhetjumynd og mun vitrænni en þær flestar eru. Ádeilan á stríðsrekstur og vopnaframleiðslu er mjög beitt þótt ekki sé verið að predika beint. Robert Downey yngri fer létt með Tony Stark eða Járnkallinn enda leikari af náttúrunnar náð. Sköllóttur og skeggjaður Jeff Bridges fer svo á kostum sem hinn svikuli Obadiah Stane, sá fær örugglega fleiri vondukalla hlutverk eftir þetta.

Svona var nú það.

Horton, Cholula og heil. Homobono

Í gær keyrðum við yfir til Puebla til bæjarins Cholula sem á sér merkilega sögu. Fyrir nýlendutímann var þetta mikill helgistaður og þarna stóðu 365 pýramídar á sínum tíma. Enginn þeirra er eftirstandandi í dag fyrir utan þann stærsta sem var líklega byggður til heiðurs guðsins Quetzalcoatl. Þegar Spánverjarnir komu hingað til Mexíkó á 16. öld létu þeir brjóta niður alla pýramídana og settu sér það markmið að kirkja skyldi rísa fyrir hvern pýramída sem var eyðilagður.

Sá stærsti stendur ekki í upphaflegri mynd heldur er hann hulinn að mestu með jarðvegi. Ekki er ljóst hvort að Spánverjarnir hafi mokað yfir þennan pýramída sjálfir því líklega var það of stór biti að brjóta hann niður. Ein sagan segir að fólkið hér hafi gert það áður en þeir spænsku ráku augun í pýramídann til að bjarga honum. Ekki veit ég hvort er satt en þessi pýramídi er að mestu hulinn í dag og lítur í raun út eins og stór hóll. Spánverjarnir settu þar eina kirkju á toppinn ásamt fjöldamörgum öðrum í kring. Þeir náðu þó ekki upphaflega markmiðinu að byggja 365 kirkjur á staðnum en margar eru þær, líklega nálægt 100.

Þessi pýramídi er sá stærsti í heimi að rúmmáli, nánast þriðjungi stærri en sá stóri í Egyptalandi sem mun þó vera hærri. Mér fannst mjög áhugavert að sjá þennan bæ og pýramídann, ég minntist einmitt á þetta nýverið á Vantrú en hafði ekki komið þangað áður.

Í kirkjunni á toppi fannst mér merkilegast að rekast á dýrling klæðskera og fatahönnuða, heil. Homobono. Líkneski hans var með málband um hálsinn og hann hélt á skærum. Við fætur hans stóðu saumavél og straujárn. Staðfastir dýrkendur hans höfðu svo fórnað til hans tveimur málböndum sem lágu fyrir framan hann. Margt er skrítið í útlöndum.

-—-

Í kvöld fórum við í bíó með Ara í fyrsta sinn. Sáum teiknimyndina Horton Hears a Who! Ágætis mynd en ég náði ekki alveg öllu því sem fram fór þar sem herlegheitin voru á spænsku. Ari virtist ekkert sérstaklega áhugasamur um myndina en því meiri áhuga hafði hann á poppinu og fólkinu sem sat fyrir aftan okkur. Ég held að ég hafi verið 12 ára þegar ég fór fyrst í bíó og sá þá Bodyguard sællar minningar með bekknum mínum í Laugargerðisskóla. Ari er 14 mánaða, svona breytast tímarnir líklega.

Skandinavíulöndin

Kaninn ætlar sér að endurgera Mýrina, það verður örugglega mun lakari mynd en hjá Baltasar. Annars vakti meiri athygli mína í fréttinni hjá Vísi um málið að Mýrin hefur verið „seld til allra Skandinavíulandanna“.

Er ekki betra að tala bara um Norðurlöndin?

Gyllti áttavitinn

Fór að sjá kvikmyndina Gyllta Áttavitann með konunni fyrir nokkrum dögum. Svo sem ágæt mynd þótt að Harry Potter heilkennið sé dálítið áberandi, þ.e. verið er að segja frá of mörgu á of stuttum tíma. Sverrir hefur örugglega gaman að þessari mynd, ekki oft sem að góður hluti kvikmyndar gerist á Svalbarða.