Archive for the ‘Kommúnan’ Category

Í loftið aftur

Var netsambandslaus um hríð og gleymdi því að borga fyrir kommúnulénið. Hefur nú verið endurvakið og hangir því uppi næsta árið að minnsta kosti. Boða hér með kommúnumeðlimi á spjallið til að ræða framtíðina, hverjir vilja halda áfram o.s.frv.

Tags:

WordPress-væðing Kommúnunnar

Hér hafa nú orðið mestu breytingar í sögu Kommúnunnar en við erum að flytja okkur frá Movable Type yfir í WordPress. Svo drastísk eru þessi umskipti að Sverrir hefur meir að segja hafið bloggskrif á ný, öllum að óvörum.

Næstu dagana verður þessi síða líklega dálítið í hönk en með tíð og tíma hlýtur að komast sæmilegt skikk á hlutina.

Þessar breytingar leggjast vel í mig. Margar af gömlu síðunum lúkkuðu mjög 2006 og þörf var á endurnýjun. Við fyrstu sýn virðist sem að kerfið sé einnig notendavænna en MT er.

Ég ætla að nýta tækifærið við þessi tímamót og hefja notkun á svonefndum efnisorðum en ég hef séð það á ýmsum síðum að þau eru góð til að halda utan um vitleysuna sem vellur upp úr manni.

Ætli það sé ekki hægt að segja að hér séu hafnir nýir tímar á traustum grunni?

Tags: ,

Fallið mikla 2008

Ég náði inn á topp 100 árið 2007 hjá BloggGáttinni, á árslistanum 2008 er ég hvergi sjáanlegur. Ástæðan er líklega stopult blogg á nýliðnu ári vegna barneigna og annarra anna. Reyndar er árangur kommúnuliða slakur í ár. Fjórir náðu inn á topp 100 2007 en núna er það einungis Hildur sem heldur haus.

Ársins 2008 verður í mínum huga aðallega tengt því þegar Axel Sær kom í heiminn. (Já, hann heitir ekki Bessi lengur, menningarlegar aðstæður o.s.frv). Fleira skemmtilegt henti, fjölskylda mín frá Íslandi kom hingað til lands í sumar og svo ferðuðumst við öll saman til Íslands með stoppi í New York.

En þess fyrir utan þá var síðasta ár frekar slappt, efnahagur okkar hjóna sem og Íslands er búinn að vera bágborinn. Er eitthvað á uppleið hjá okkur en fósturjörðin virðist heillum horfin þessa dagana. Við gerum ráð fyrir því að 2009 verði gott ár hjá okkur og vonandi rætist úr fyrir Fróni einnig. Hef þó litla trú á því síðarnefnda.

Margir setja sér markmið um áramót en ég hef alltaf haft litla trú á slíku. Vona bara að þetta verði gott ár og ég ætla mér að leggja mitt af mörkum til að svo verði. Hvað annað er hægt að gera?

Orðsending til kommúnufélaga

Félagar í Kommúnunni eru vinsamlegast beðnir um að fara á spjallið til að taka þar þátt í grafalvarlegum umræðum um framtíð þessa vefsvæðis.

Til hamingju Steinunn!

Ég má til með að senda hinum nýkjörna formanni UVG hamingjuóskir og lýsa jafnframt ánægju minni með að embættið skuli haldast innan Kommúnunnar.

Fjölgun

Erla er kominn yfir á Kommúnuna, sjá hér. Hún er að sjálfsögðu boðin velkomin.

Eitthvað hefur verið vælt yfir kommentakerfinu okkar en því var víst lokað vegna yfirgengilegs kommentaspams. Mér skilst að það hafi verið opnað aftur og tæknimaðurinn okkar er að skoða varanlega lausn á þessu máli.

Vinsældir kommúnuista 2007, Hildur Edda á toppnum

BloggGáttin hefur gefið út árslista yfir vinsælustu bloggin á síðasta ári. Fimm kommúnublogg náðu inn á topp 100 listann og þar varð Hildur Edda efst í 19. sæti. Segja má að hún hafi yfirburðastöðu á þessum lista samanborið við aðra kommúnuista því næsti maður fyrir neðan er Gambrinn sem kemur 44 sætum neðar í 63. sæti. Í 72. sæti kemur svo Steinunn og ég náði víst 81. sætinu, húrra fyrir því. Kári náði svo 95. sætinu en aðrir komast ekki á blað að þessu sinni.

Auðvitað er þó vitleysa að horfa í vinsældirnar þegar blogg er annars vegar enda eru sönn blogg drifin áfram af hugsjónum en ekki einhverju kapphlaupi um vinsældir. [ég var að hugsa um að setja hér inn broskall til að fólk átti sig á því að þetta er djók en mér finnst það of moggabloggslegt þannig að ég sleppi því] Ég á eftir að blogga áfram þótt teljarinn fari niður í núllið, þetta er mest mér til gamans.

Ég kýs að túlka þennan lista þannig að fyrst við eigum fimm af hundrað vinsælustu bloggunum þá eigum við 5% af íslenska bloggmarkaðinum. [sjá hornklofa fyrir ofan] Við ættum að geta hækkað þetta hlutfall á þessu ári.

Félagar!

Ágætu kommúnufélagar. Hunskist til að hreinsa spamið í kommentakerfi ykkar. Þetta á sérstaklega við um Jakob. Kerfið þolir illa svona mikið af rusli.

Aumingjablogg bönnuð

Ég sé að BloggGáttin hefur hent Jakobi, Frey og Kommúnunni út af blogglistanum. Líklega er það vegna þess að þessar síður hafa ekki verið uppfærðar langalengi og þykja því ekki boðlegar á svona fínu kerfi. Þetta ætti að vera hvatning til Jakobs og Freys að blogga auk þess að hvetja Kommúnumeðlimi til að setja einhverja ódauðlega snilld á Kommúnuna svo að hún megi vera með á BloggGáttinni.

Framþróun Kommúnunnar

Gæluverkefni kommúnumeðlima, sjálf Kommúnan hefur verið á tilraunastiginu talsvert lengi. Núna hefur ný útgáfa litið dagsins ljós og hófleg en skipuleg markmið hafa verið sett fram um hvernig greinaskrifum verði háttað þarna í náinni framtíð. Sjálfur setti ég inn lítið greinarkorn í dag samkvæmt þeirri fimm ára áætlun sem nú liggur fyrir. Sjáum svo til hvernig þetta þróast.