Archive for the ‘Íþróttir’ Category

Aftur falla mínir menn út

Horfði á seinni leikinn í dag þegar Portúgal lét í minni pokann fyrir Spánverjum. Hef alltaf taugar til Portúgals því ég þekki nokkra Portúgali og finnst þeir skemmtilegri en þeir Spánverjar sem ég hef kynnst. Horfði á úrslitaleik EM 2004 á efri hæð Sólons sem var þétt setin Portúgölum. Einhverjir brustu í grát þegar að Grikkir unnu, nefni engin nöfn.

Var því nokkuð svekktur að sjá Portúgal falla út 1-0, fannst þeir eiga betra skilið. Megi Paragúvæ rassskella fyrrverandi nýlenduherrana í næsta leik.

Tags:

Tengdur á ný

Loksins tókst að finna nýtt hleðslutæki fyrir Makka konunnar og ég er því kominn í samband við umheiminn á ný. Reikna má því með margföldum afköstum hér á blogginu þar sem ég er mættur með íslenskt lyklaborð sem ég hef sárlega saknað undanfarið.

Annars er ekki mjög margt í fréttum héðan frá Mexíkóborg. Gerðist svo frægur á sunnudaginn að horfa á heilan fótboltaleik sem gerist ekki oft. Horfði á mína menn Mexíkana bíða lægri hlut fyrir Argentínumönnum sem var að sjálfsögðu óverðskuldað og skrifast tapið á blinda dómara og línuverði sem gáfu Argentínu fyrsta markið þrátt fyrir óskammfeilna rangstöðu. Held samt að héðan í frá verði ég að halda með Argentínu, það er bara svo skemmtilegt að sjá sjálfan Maradona mættan aftur til leiks.

Hér hefur að sjálfsögðu verið vel heitt í maí og júní þar sem hitamælirinn fer hátt upp í fjörtíu gráðurnar á daginn. Yfirleitt slær það á hitann þegar regntímbilið hefst í júní en það hefur ekki komist almennilega af stað ennþá en það ætti að hafa hafist nú um miðjan mánuðinn.

Ari og Emil stækka og þroskast með hverri vikunni. Emil er farinn að tengja saman orð og að sjálfsögðu byrjaði hann á því að segja „nei pabbi“ eða „nei mamí“ eða „nei Ari“. Greinilegt að hann er ættaður af Snæfellsnesinu. Röddin í þeim stutta er einnig nokkuð sérstök miðað við pjakk sem er um eins og hálfs árs. Anel heldur að hann verði með mikla bassarödd þegar hann stækkar því hún er þegar orðin nokkuð karlmannleg. Svo er ég enn að gera það upp við mig hvort að Ari sé græneygður eða bláeygður, verð að viðurkenna að ég er alls ekki viss ennþá.

En hvað er að frétta af ykkur?

Tags: , , , ,

Tvö gull, eitt brons

Mexíkó nældi sér í tvenn gullverðlaun og eitt brons á Ólympíuleikunum. Bæði gullin komu fyrir afbragðs sparktakta í taekwondo en Mexíkó mun vera eitt fremsta landið í þeirri bardagalist. Bronsið fékkst svo fyrir dýfingar af 10 m palli.

Ég gleðst að sjálfsögðu yfir silfurverðlaunum Íslendinga í handbolta eins og aðrir. Megi þau verða fleiri í framtíðinni í öllum greinum auk hinna málmanna líka.

Skákin rægð

Þeir sem tala illa um skák opinberlega, eins og Doktorinn og Silfur-Egill, gera það af sömu ástæðu og ég tala iðulega illa um fótbolta. Geta ekkert í’essu.

Bréfskák

Á heimasíðu Félags íslenskra bréfskákmanna er að finna svohljóðandi skilgreiningu á bréfskák:

Bréfskák er það form skákar sem tefld er með þeim hætti að leikirnir eru sendir með pósti (póstkorti, bréfi, vefpósti eða vefþjóni). #

Á Facebook er hægt að tefla þannig að líklega flokkast það sem bréfskák. Ég hef þegar skorað á Gneistann í eina skák, hún hófst í gær og leiknir hafa verið þrír leikir. Með þessu áframhaldi endist skákin okkur fram í apríl en hvað liggur svosem á.

Skákmenn eru venjulega taldir hinir rólegustu menn (Fisher var undanteking), hvað er þá hægt að segja um þá sem tefla bréfskák? Ég man eftir því að hafa séð í sjónvarpinu einhvern tímann fyrir löngu mynd um þannig skákmann sem fékk sent í póstinum bréf með næsta leik andstæðingsins. Þá skundaði hann að skákborðinu, lék og velti svo fyrir sér stöðunni. Mér fannst þetta vera mjög siðfágað sport þá og finnst reyndar enn.

Hvað um það, ég vil biðja Óla um að leika. Ég hef eytt síðustu þremur klukkustundum fyrir framan tölvuskjáinn í veikri von um að eitthvað fari nú að gerast. Er ekki að höndla þessa spennu…..

Töff skíðaíþróttir

Einn Þjóðverjinn hélt því fram í gær yfir Ólympíuleikaglápinu að curling væri komið frá Norðurlöndunum. Ég trúði honum ekki enda ómögulegt að Norðurlandabúar gætu fundið upp svona kjánalega íþrótt. Wikipedia heldur því fram að curling sé komið frá Skotlandi, ég ætla að halda mig við þá söguskýringu. Allar töff íþróttirnar, eins og skíðaskotfimi og skíðastökk eru hins vegar norrænar.

Gaurinn frá Indónesíu er alveg gáttaður yfir því hvað það er til mikið af vetraríþróttum. Merkilegt hvernig hægt er að nota frosið vatn í margt skemmtilegt.

Leikurinn

Getur ekki einhver vel tengdur maður reddað mér tveimur miðum á Svíþjóð-Ísland leikinn? Það væri mjög vel þegið.

Boltinn á Sólon

Ég fór og horfði á úrslitaleik EM á Sólon, var boðið þangað af Renato hinum portúgalska. Að sjálfsögðu tókst mér að mæta 10 mín of seint og fékk ekkert sæti því efri hæðin var pökkuð af fólki, aðallega Portúgölum.

Read the rest of this entry »

Fótboltinn

Ég hef lært margt nytsamlegt á því að fylgjast með EM í fótbolta undanfarna daga. T.d. er nóg að skora eitt mark til þess að vinna leik. Mikilvægt er að skora úr föstum leikatriðum. Gott er að byrja byrjunina vel. Vítaspyrnur eru góð marktækifæri og aukaspyrnur nálægt markinu eru hættulegar. Þegar staðan er 0-0 hefur hvorugt liðið skorað. Menn sem eru 31 árs eru á grafarbakkanum. Oft vilja liðin skora mark til þess að vinna leikina. Svo eru leikir ekki búnir fyrr en þeir eru búnir.

Íþróttafréttamenn láta mörg gullkorn fljúga, verst að maður gleymir vitleysunni sem vellur upp úr þeim jafnóðum.

1-1

Þarna tapaði ég rauðvínsflösku…..