Archive for the ‘Hugleiðing’ Category

Eggskortur

Ég sakna páskaeggja, örlítið.

Tags:

Reiðin brýst út

Mér líður stundum undarlega að sjá fréttir frá Íslandi. Ég hef ekkert verið á Íslandi síðan sumarið 2008 eða fyrir Hrunið. Það sem hefur gengið á síðan þá er eitthvað sem mín kynslóð hefur ekki haft neina reynslu af. Mótmælin í dag eru enn ein staðfestingin á því. Það hefði þurft að segja mér það tvisvar fyrir ekki svo löngu að forsetinn, forsætisráðherra og þingheimur ættu eftir að vera grýtt með eggjum við þingsetningu.

Sjálfur er ég fylgjandi alls kyns mótmælum en þetta er að leysast upp í vitleysu og ofbeldi sem á ekki eftir að hafa neitt jákvætt í för með sér.

Þegar íhaldið var við völd voru mótmælendur flokkaðir sem skríll og kommúnistar. Velti því fyrir mér hvernig þessir mótmælendur verða flokkaðir nú þegar íhaldið er í stjórnarandstöðu.

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Sjö ár samfleytt á blogginu

Um daginn var ég að kvarta og kveina yfir því að Blogger var búinn að fleygja gamla blogginu mínu. Þetta þótti mér afleitt þar sem ég var að vinna í því að flytja það hingað yfir til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Það vandamál leystist þó af sjálfu sér þar sem gamla bloggið dúkkaði aftur upp af sjálfdáðum skömmu síðar.

Rétt í þessu var ég svo að ljúka við að flytja síðustu færsluna yfir, sem verður þá fyrsta færslan í þessu ritsafni. Hún var skrifuð þann 10. ágúst 2002 og var svohljóðandi: „Eign er stuldur“. Líklega var maður róttækari í hugsun hér áður fyrr. Verð reyndar að viðurkenna að þetta mottó anarkistanna gekk ekki alveg upp fyrir manni þá frekar en nú. Var í raun meira til að prófa bloggkerfið heldur en pólitísk yfirlýsing.

Hvað um það. Gamla bloggsíðan var upphaflega hugsað sem hópblogg fjögurra ungra manna sem áttu það sameiginlegt að þeir voru að flytja frá Akranesi til Reykjavíkur til að búa saman í húsi einu á Óðinsgötunni. Sverrir var upphafsmaður þessa bloggs. Sjálfur var ég svo eftirá að ég vissi ekki hvað orðið blogg þýddi á þessum tíma.

Kommúnan á Óðinsgötunni var líklega einn skemmtilegasti íverustaður sem ég hef búið í. Sú sæla tók þó enda um vorið og hópurinn tvístraðist, þó ekki mjög. Ég fór í líffræðiferð til Tælands um vorið og sneri aftur til Reykjavíkur í júní 2003 og leigði þá hjá Stínu systur eftir það. Var þar allt þar til ég fór til Svíþjóðar í ágúst 2005 til að stunda meistaranám. Kynnist þar minni heittelskuðu eins og frægt er orðið. Flutti svo loks vestur um haf í desember 2006 og hef verið hér í Mexíkóborg meira og minna síðan.

Frá því að ég hóf áðurnefnd bloggskrif í ágúst 2002 hef ég alltaf haldið þessu við. Stundum skrifaði ég mikið, stundum lítið. Undanfarið hefur þessi síða ekki verið mjög virk sökum tímaskorts. En þó hef ég alltaf sett inn eina og eina færslu aðdáendum mínum til óblandinnar ánægju.

Reyndar fer ég að verða með langlífari bloggurum. Var ekki einn af þeim fyrstu en þó í fyrra fallinu með þetta blogg. Hef svo bloggað a.m.k. eitthvað í hverjum mánuði nú í sjö ár samfleytt. Man ekki eftir mörgum bloggurum sem hafa náð því. Margir byrjuðu á undan mér en eru nú hættir. Sumir hafa byrjað og hætt og byrjað svo aftur síðar o.s.frv.

Af þeim sem ég fylgist með reglulega er það líklega einungis Matti sem hefur verið í þessu lengur en ég og hefur ekki tapað taktinum. Björn Bjarna slær mér líklega einnig við og einhverjir fleiri, katrín.is man ég t.d.

Af öðrum afrekum þá hef aldrei brostið í grát á netinu yfir því hvað allir eru vondir við mig og/eða flutt mig yfir á læst blogg. Lokuð blogg eru frekar furðuleg fyrirbæri fyrir mér en það hefur víst hver sinn smekk. Ég hef líklega aldrei verið nógu vinsæll eða umdeildur til að fólk hafi nennt að rífast við mig eða haft í frammi dólgslæti á síðunni minni.

Það stappar dálítið nærri geðveiki að hafa flutt allt gamla bloggið mitt handvirkt, færslu fyrir færslu, hingað yfir. En minningarnar eru dýrmætar, sérstaklega þegar þær verði eldri. Ég er ekki mjög minnisgóður sjálfur og því er ómetanlegt að hafa þetta blogg sem hefur skráð flest allt markvert og ómarkvert sem á daga mína hefur drifið. Megnið af því sem ég hef skrifað er bölvað þrugl, sérstaklega frá fyrstu árunum en það skiptir litlu. Ég hef gaman af þessu.

Geri ráð fyrir því að halda áfram að blogga út í hið óendanlega. Þetta er of skemmtilegt og nauðsynlegt að halda utan um það sem gerist í lífinu. Verður helsta heimildin þegar ævisaga mín verður rituð og gefin út.

Stærsti gallinn er líklega sá að þetta blogg hefur líklega útilokað mig frá þáttöku í pólitík. Ef ég færi að skipta mér eitthvað af hlutunum verða gömul ummæli um hitt og þetta, gríðarlega ómálefnaleg, dregin upp og ég stimplaður sem vitleysingur í fjölmiðlum. Enda fer ég ekkert að neita því að ég er einn slíkur.

VIÐBÓT. Bent hefur verið á það í andsvörum að Óli Gneisti hefur bloggað samfleytt frá febrúar 2002. Er líka með Stefán Pálsson á Blogggáttinni sem er eldri í hettunni en ég. Guðrún Helga fær svo líka viðurkenningu fyrir að hafa haldið út jafn lengi og ég en hún byrjaði 11 dögum á eftir mér.

Tags: ,

Sérkennileg mannanöfn sem föðurnöfn

Þegar leit stóð yfir af nöfnum á drengina (þá sérstaklega þeim seinni) hófust miklar pælingar um mannanöfn almennt. Þar sem ég er í hnattvæddu hjónabandi þurftu nöfnin að vera vel valin og þar af leiðandi bera drengirnir mjög alþjóðleg nöfn, Ari og Emil. Að minnsta kosti eru þau alþjóðleg frá mínu vestræna sjónarhorni. Þau eru auðveld í framburði, stutt, þjál og innihalda ekki skrítna stafi.

Anel tók þann pólinn í hæðina frá upphafi að nöfnin skyldu vera íslensk þannig að við sluppum við að fara í gegnum spænsk og mexíkósk mannanöfn. Sjálfur var ég alltaf hrifinn af nafni síðasta konungs Aztekanna, Cuauhtémoc, en það stóð ekki til boða.

Við lásum okkur því í gegnum hina opinberu mannanafnaskrá og það verður að segjast sem er að sum nöfnin þar eru ekki hljómfögur. Hins vegar þegar að fólk sem ber sérstök mannanöfn eignast sjálft börn þá kemur nafn þeirra oft mjög vel út sem föðurnafn.

Sem dæmi þá eru nöfn á borð við Tyrfingur, Dufgus, Hreggviður eða Styrkár ekki sérstök nöfn að mínu mati. Hins vegar kemur það mjög vel út að vera Hreggviðsson, Dufgusson eða Styrkársdóttir. (Líklega hefði það einnig orðið flott að vera Cuauhtémocsson.)

Lexían í dag er því sú að ef þið viljið að barnabörnin beri flott föðurnöfn þá skulið þið nefna börnin sérkennilegum nöfnum. Þetta gildir aðallega varðandi eldforn norræn nöfn. Nýju nöfnin koma verr út. Það er hreinlega ekkert töff við það t.d. að vera Bambason eða Míódóttir.

Tags:

Flókinn heimur

Enn og aftur sannast fáfræði mín í peningamálum. Ég skil hreinlega ekki alveg þessa atburðarrás með Icesave draslið. Einhverjir gúbbar, sem héldu að þeir gætu rekið banka, byrjuðu að bjóða fólki í útlandinu að leggja inn peninga hjá þeim á svaka vöxtum. Síðan eyddu þeir öllum peningunum sem þeir fengu í vitleysu. Landsbankinn fer á hausinn og ríkið tók yfir leifarnar og stendur uppi með 640 milljarða (!) skuld frá áðurnefndum gúbbum við breska (fyrrverandi) sparifjáreigendur.

Ríkið þarf semsagt, samkvæmt drögum að samkomulagi, að standa í því næstu 15 árin að borga Bretum peninga sem nokkrir fávitar sviku þá um. Vegna þess að fávitarnir fæddust á Íslandi, illu heilli, þá eru samborgarar þeirra skyldugir til að borga skuldir þeirra. Það toppar þetta svo alveg að títtnefndir fávitar séu flestir með eignir sínar í einhverjum skattaskjólum í útlandinu svo að þeir þurfi ekki að borga skatta á Íslandi eins og einhverjir bjánar. Skattarnir fara jú núna í að borga skuldir þeirra, ekki séns að þeir taki þátt í svoleiðis rugli.

Held að það sé rétt sem einhver sagði að best hefði verið í ljósi aðstæðna að láta bankaræflana fara á hausinn síðastliðið haust og láta lánadrottna þeirra um að bítast um leifarnar. Varla hefði það getað orðið verra?

Tags: ,

Hvað ef?

Hvað ef? spurningar geta verið áhugaverðar. Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um mig ef ég hefði aldrei hitt konuna mína elskulega í Svíþjóð. Líkleg atburðarás er einhvern veginn svona:

  • Í stað þess að gera lokaverkefni mitt í Mexíkó árið 2007 hefði ég líklega gert það á Íslandi.
  • Mögulega hefði mér tekist að ramba á einhverja atvinnu í faginu það sama ár.
  • Fullur af eldmóð og bjartsýni á íslenska efnahagsundrið hefði ég eflaust fest kaup á íbúð á fyrri hluta árs 2008. Maður varð jú að kaupa sér íbúð, annars tapaði maður peningum því þær eru alltaf að hækka í verði.
  • Aldrei að vita nema einn bíll á gríðarhagstæðu myntkörfuláni hefði dottið inn líka. Ég meina það, lán án verðbóta. Hversu ljúft er það?
  • Almennt séð hefði ég eflaust borðað of mikið af góðum og óhollum mat og væri líklega um 15 kílóum þyngri en ég er í dag.

Svo hefði hrunið komið. (Ég geri ekki ráð fyrir því að flutningur minn til Mexíkó hafi valdið þeim fiðrildaáhrifum að íslenska hagkerfið riðaði til falls.) Nýja íbúðin mín í 101 hefði fljótt orðið verðminni en lánið sem ég tók fyrir henni og há verðbólga sá um að ýkja muninn verulega upp. Myntkörfulánið hefði breyst í martröð og líklega hefði ég misst vinnuna eins og svo margir félagar mínir á mínum aldri.

Kannski hefði þetta endað með því að ég hefði hrökklast aftur í foreldrahús og orðið sauðfjárbóndi vestur á Snæfellsnesi. Í rauninni væri hægt að gera margt verra, segi það ekki. Líf í sveit hefur marga kosti.

Einhvern veginn sé ég mig þannig fyrir mér í þessari hliðstæðu tímalínu. Feitur, hálf-atvinnulaus, blankur, búandi heima hjá mömmu og pabba og síðast en ekki síst; alveg örugglega einhleypur og barnlaus.

Ég á aldrei eftir að sjá eftir því að hafa flutt til Mexíkó. Það er nokkuð ljóst. Þrátt fyrir að lífið hér hafi reynst mér erfiðara fjárhagslega en ég bjóst við þá er ég hamingjusamur hér úti með konunni og sonunum tveim.

Þetta þýðir þó ekki að við ætlum okkur að vera hér í Ameríku til eilífðarnóns. Vorum t.d. um daginn að athuga hvað erlendir tannlæknar þurfa að gera á Íslandi til að fá starfsréttindi þar og það virðist ekki vera mikið mál. Við gerum enn ráð fyrir því að snúa aftur einn góðan veðurdag þegar versta hrunið verður um garð gengið. A.m.k. að flytja til Norðurlandanna til að byrja með.

[Mér líst annars ekki á þessa þróun í blogginu, orðið alltof persónulegt undanfarið. Reikna með að skrifa eingöngu um umhverfismál og pólitík fram á haustið.]

Tags:

Tímanna tákn

Sest hefur á Alþingi piltur sem er yngri en ég, tveimur árum nánar tiltekið. Ég er nokkuð viss um að það hafi ekki gerst áður. Líklega er Ásmundur einnig fyrsti þingmaðurinn fæddur á níunda áratugnum.

Mér finnst ég þó ekki gamall enn, ef ég væri á þingi þá yrði ég næstyngstur. Skemmtilegt einnig að yngsti þingmaðurinn fæðist fjórum árum eftir að forsætisráðherra var fyrst kosinn á þing.

Tags:

Þeir greiddu í píku…

Aldrei gæti ég notast við slíka hárgreiðslu bara út af nafninu. Kannski höfðu karlar meira sjálfstraust í gamla daga.

Verðtrygging

Ég hef aldrei skilið þetta með verðtryggingu lána. Margir heima halda því fram að þetta fyrirkomulag sé frábært og það má alls ekki leggja það niður. En ef það er svona frábært hvers vegna er það þá ekki notuð um víða veröld? Hversu mörg ríki notast við verðtryggingu nú til dags?

Tags: