Archive for the ‘Fjölmiðlar’ Category

Flensan geisar áfram

Nú er tala látinna vegna svínaflensunnar komin upp í 150 hér í Mexíkó og á eflaust eftir að hækka mikið. Reyndar eru endanlega staðfest dauðsföll vegna flensunnar mun færri eða einungis um 12, ef ég skil þetta rétt. Ég held þó að töluverðar líkur séu á því að fleiri hafa látist þrátt fyrir að handbærar sannanir fyrir því skorti enn. Samt sem áður er ég rólegri en í byrjun yfir þessu. Get talið upp þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi virðast mishættulegir stofnar af þessari veiru vera í umferð. Einungis hér í Mexíkó hefur hún valdið manntjóni. Fólk sem sýkst hefur af vægari afbrigðum virðist vera að jafna sig hér og tilfelli í öðrum löndum hafa verið vægari.

Rétt er þó að benda á að þau tilfelli sem komið hafa upp annars staðar eru enn fá og því höfum við ekki nægjanlega góða tölfræði yfir skaðsemi hennar. Jafnvel þótt að flensan sem verður af þessum vægari afbrigðum hafi lága dánartíðni, sem enn er ekki komið í ljós, þá gæti hún valdið alvarlegum faraldri. Ef dauðsföll verða talin í örfáum prósentum þá erum við að tala um tugmilljónir manna sem gætu týnt lífinu í mögulegum heimsfaraldri.

Í öðru lagi virðast tiltæk veirulyf virka vel og eftir allt fuglaflensufárið undanfarin ár eru til miklar birgðir af þeim í heiminum.

Í þriðja lagi eru viðbúnaður almennt góður, a.m.k. í ríkari hluta heimsins, við mögulegum flensufaraldri. Þótt að upptökin nú og staðsetning komi nokkuð á óvart þá hafa mörg lönd undirbúið sig vel við svona faraldri, viðbragðsáætlanir eru tiltækar o.s.frv.

Ég er því þolanlega bjartsýnn eins og stendur.

Mogginn hringdi í mig áðan og Smugan hefur krækt í bloggið. Ég vona að ég hafi komið þessu sæmilega til skila í símanum, er ekki vanur því að teljast svo merkilegur að fjölmiðlar vilja ræða við mig. Sagði eins og er að engin skelfing hefur enn gripið um sig í Mexíkóborg, fólk er varkárt og hefur áhyggjur en það er enginn glundroði á götunum. Þetta á eftir að koma illa við okkur efnahagslega, Anel fær mun færri kúnna á tannlæknastofuna. Við lifum það vonandi af.

Á næstu dögum fara línurnar vonandi að skýrast betur, hvað við er að eiga. Reyni að halda lesendum upplýstum um gang mála.

Tags: , , ,

Reynir Traustason – Ósnotur maður með hatt

Ef ég hef einhvern tímann verið í vafa um að DV sé frekar ómerkilegur pappír, sóun á trjám og prentsvertu, þá hvarf sá vafi í dag þegar ég sá þennan leiðara eftir Reyni Traustason. Þar eru trúleysingjar kallaðir siðblindingjar, rugludallar haldnir hættulegum órum og þeir vilja einnig nauðga lýðveldinu.

Margt fleira kemur þarna fram í þessum stutta leiðara, uppáhaldið mitt er að trúin sé það lím í samfélaginu sem skilur Íslendinga frá því að vera villimenn. Það er ekkert annað.

Ætli Reynir hafi rekið nefið í smyglvarninginn sinn?

Á siglingu með brjálæðingum

Hjá Jónasi.is rakst ég á þessa grein frá The Independent sem segir frá breskum blaðamanni sem fer í skemmtisiglingu með íhaldssömum Bandaríkjamönnum. Þessi grein er svo ótrúleg að manni gæti dottið í hug að hún sé uppspuni. Um borð í þessu skipi eru gróðurhúsaáhrifin ekki til, múslimar eru að taka yfir Evrópu, guði er þakkað fyrir Fox News, menn óska sér þess að hús Sameinuðu Þjóðanna í New York verði sprengt í loft upp, Pinochet er titlaður bjargvættur Chile og Íraksstríðinu er lýst sem „an amazing success“.

The panel nods, but it doesn’t want to stray from Iraq. Robert Bork, Ronald Reagan’s one-time nominee to the Supreme Court, mumbles from beneath low-hanging jowls: „The coverage of this war is unbelievable. Even Fox News is unbelievable. You’d think we’re the only ones dying. Enemy casualties aren’t covered. We’re doing an excellent job killing them.“

Þetta er líklega það fólk sem kaus Bush og sér enn ekki eftir því.

Blaðamaður?

Líklega er feitur tékki frá Mogganum á leiðinni til mín í pósti. Ásgeir H hlýtur að redda því eins og öðru. :þ

Þeir sem ekki skilja geta skoðað þetta.

Ég og Þorsteinn

Svona í framhaldi af síðustu færslu þá sé ég í dag að Þorsteinn Pálsson er sammála mér að mörgu leiti.

Skammt er nú til þess að Kárahnjúkavirkjun verði að fullu lokið. Löngu er búið að semja til langs tíma um sölu á raforku þaðan fyrir ákveðið verð. Ríkisvaldið hefur hins vegar ekki enn náð samningum við þá sem eiga hluta vatnsréttindanna. Ólíklegt er að einkafyrirtæki hefði hafið framkvæmdir án samninga um vatnsréttindi. Fullvíst er að einkafyrirtæki hefði ekki gengið frá langtíma orkusölusamningi án vitundar um verð vatnsréttindanna. Þennan vanda leysir ríkið með sjálfvirku eignarnámi sér til handa. Það er aðstaða sem engir aðrir njóta í samningum á frjálsum markaði. Úrskurðarnefnd á síðan að meta vatnsréttindin eftir að orkuframleiðslan er hafin og löngu eftir að verð á framleiðslunni hefur verið samningsbundið áratugi fram í tímann. Við slíkar nauðungaraðstæður er lítil von til þess að eðlilegt markaðsverð finnist.

Litningur 16 loksins fundinn

Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um raunvísindi er oft spaugilega vitlaus en þó er aðallega sorglegt að sjá hvernig farið er með þessi fræði. Ég tek sérstaklega eftir þessu þegar fjallað er um lífvísindi, skiljanlega. Rúv.is á setningu dagsins hvað þetta varðar þegar hann rembist við að skýra niðurstöður krabbameinsrannsóknar sem DeCode gerði.

Einn erfðavísir hefði fundist í báðum rannsóknunum, litningur sextán. #

Ég held að allir í þessum bransa gleðjist yfir því að litningur sextán sé loksins kominn í leitirnar eftir langa leit.

Blaður um fræga fólkið

Skelfilega leiðist mér þetta blaður um Madonnu og krakkann hennar. Ég segi fyrir mig að konan á hrós skilið fyrir að bjarga einu barni frá því að alast upp í fátækt og vesaldómi í Malaví. Nú er ég svo veraldarvanur að ég hef verið í Afríku og ég get vottað það að enginn ætti að þurfa að búa við þær aðstæður sem fólk þarf að sætta sig við þarna. Fólk sem vælir um að ekki hafi verið farið að einhverjum lagabókstaf er alveg úti að aka. Ef taka ætti öll lög bókstaflega þá væri bannað að ferma krypplinga í kirkjum landsins. Kannski er það ennþá bannað, hver veit?

Ísland í heimsfréttunum

Oft horfi ég á BBC News þegar ég ryð í mig hádegismatnum hérna á stúdentaheimilinu. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt Ísland nefnt á þessari stöð áður en ég horfi nokkuð reglulega á einn og einn fréttatíma. Nú bar svo við í gær að Ísland var í fyrirsögn.

Það var ekki útaf stærstu stíflu Evrópu, njósnastarfemi í Kalda stríðinu eða fyrirhuguðum þingkosningum í vor. Nei, Íslendingar hefja atvinnuhvalveiðar á ný, var fyrirsögnin.

Þetta sem sumir segja um ímynd landsins út á við er nefnilega ekki út í loftið. Fæstir vita nokkuð um Ísland hérna úti, ég er iðulega spurður að því hvaða tungumál er talað þarna, jafnvel af fólki frá nálægum löndum eins og Þýskalandi. En margir vita að Íslendingar veiða hvali og eru því mótfallnir.

Þó að ég hafi persónulega ekkert á móti því að nokkrir hvalir séu skotnir og étnir þá er spurning um hvort að verið sé að taka minni hagsmuni fram yfir meiri.

Morgunblaðið, verndaður vinnustaður?

Bullið sem fær að vaða uppi í íslenskum fjölmiðlum er afskaplega þreytandi og dregur úr trúverðugleika þeirra. T.d. dálkurinn Tækni og Vísindi í Netmogganum virðist stundum vera undir stjórn grunnskólakrakka sem fá að dunda sér á skrifstofunni hans pabba eftir að skóla lýkur. Núna í dag birtist fréttin „Mannkynið deyr út árið 2.252.006“ og þar segir:

Vísindamenn hafa reiknað út hvaða dag mannkynið mun deyja út, en það mun gerast þann 31. október árið 2.252.006, eftir rétt rúmlega 2 milljónir og 250 þúsund ár. Þetta fullyrðir hópur evrópskra jarð- og steingergervingafræðinga eftir að hafa rannsakað mikinn fjölda steingervinga sem fundust í miðhluta Spánar. Niðurstöðurnar eru þær að meðalspendýr er til í um 2,5 milljónir ára, en nútímamaðurinn hefur verið til í um 250 þúsund ár nú þegar.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta eigi að vera einhvers konar grín, allavega vona ég að þetta eigi að vera grín því þetta er svo mikil þvæla að mér varð illt við að lesa þetta. Hver er eiginlega tilgangurinn með því að birta þetta í vísindadálki mbl.is? Svona „vísindi“ eiga í besta falli heima á Baggalút nema þetta er eiginlega ekki nógu fyndið til þess.

Fyrsti kvenkyns geimferðalangurinn

Afhverju kallar Netmogginn þessa konu fyrsta kvenkyns geimferðalanginn?? Fjölmargar konur hafa farið út í geiminn, farið í geimgöngu, stjórnað geimskutlum eins og sjá má á þessum lista. Hvað var svona sérstakt við þessa ferð?