Archive for the ‘Ferðalög’ Category

MH370

Um mig fer hrollur, er það virkilega mögulegt að ræna heilli Boing 777 og fljúga með hana út í veður og vind? Enginn tekur eftir neinu fyrr en mörgum klukkustundum síðar. Í raun finnst manni þetta óhugnalegra en að þotan hafi einfaldlega hrapað. Þetta er þegar orðið eitt magnaðasta hvarf flugvélar sem sögur fara af og enn er ekki vitað hvað gerðist. Hvernig fer þetta?

Tags:

Biðstaða

Hér gerast góðir hlutir hægt. Líklega erum við að losa okkur við íbúðarkytruna okkar á morgun, þá seinni sem við seljum á þessu ári. Getum líklega hangið þar eitthvað enn meðan skrifræðið töltir sinn gang. Nýja húsið á víst að vera tilbúið á morgun en þá tekur við matsferli og vesin í kringum veðlán. En vonandi getum við flutt sem fyrst því við erum orðin frekar þreytt á núverandi stöðu.

Í öðrum fréttum þá stendur víst til að fara í óvænta ferð til Chiapas á morgun, sjáum til hvernig það fer.

Tags: ,

Fríið búið

Við erum komin aftur til Mexíkóborgar, þetta var nú gott frí.

Vegabréf

Ég og strákarnir urðum okkur úti um íslensk vegabréf og fengum þau send í pósti heim í sveit. Þetta er allur munur og nú verður ekkert vesen í kringum vegabréf eða vegabréfsáritanir allavega næstu fimm árin. Ungir menn eins og Ían fá einungis vegabréf til eins árs í senn í Mexíkó og íslensk vegabréf eru að auki ódýrari sýnist mér.

Þar sem við verðum (vonandi) mikið á ferðinni til Íslands liggur beinast við að notast við Bandaríkin sem stoppistöð en þar er betra að hafa Visa Waiver vegabréf á borð við þau íslensku. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið fyrir Mexíkana að fá útgefna vegabréfsáritun til hinna miklu Bandaríkja Norður-Ameríku. Ég veit mörg dæmi þess að fólki hafi verið hafnað um áritun án haldbærrar ástæðu. Ákaflega sérstakt hjá þessu tiltekna ríki að geta meinað fólki inngöngu án þess að það hafi í rauninni gert nokkuð af sér.

Ég notaði gamla vegabréfið í fjórum heimsálfum, ég á ekki von á því að það nýja verði jafn víðförult en þó er aldrei að vita.

Okkur langar að fara næst til Kúbu og verður það vonandi fljótlega þar sem við þurfum einungis að borga flugið. Kúbverskt vinafólk ætlar að hýsa okkur en við kynntumst pari þaðan þegar þau voru í ófrjósemismeðferð í Mexíkóborg sem kúbverska ríkið borgaði undir þau (!). Meðferðin heppnaðist með miklum ágætum og þeim fæddist stúlka sem fékk nafnið Anel eftir minni ektafrú og því er nauðsynlegt að heimsækja litlu Anel á Kúbu. Fer ekki hver að verða síðastur að sjá Kúbu undir kommúnistastjórn?

Tags: ,

Á heimleið

Hér eru að verða mikil tíðindi. Eftir tæp fjögur ár fjarri heimahögum hefur verið sett upp mikil ferðaáætlun og munum við lenda á Fróni í júní.

Þetta hefst 2. júní þegar að Ane fer til Boston en hún á bókaðan kúrs í tannígræðslum þar dagana 4-8. júní. Ég fer með Ara, Emil og Ían ásamt Becky tengdamömmu þann 8. júní til Boston og svo verður farið til Íslands þann 10. júní sem mun vera sunnudagur.

Ég var síðast á Íslandi í ágúst 2008. Þá átti ég eitt barn og ekkert hrun hafði orðið á gamla landinu. Sjálfstæðisflokkurinn réð landi og borg og íslensku bankarnir virtust standa vel. Vægast sagt hefur ýmislegt breyst síðan þá. Synirnir orðnir þrír og Ísland búið að ganga í gegnum algjört hrun fjármálakerfisins, búsáhaldabyltingu og hefur svo haft hreina vinstri stjórn í rúm þrjú ár. Ég missti semsagt að einhverjum viðburðaríkustu árum sem ég man eftir. Hér áður fyrr gerðist aldrei neitt á Íslandi, allavega ekki í samanburði við hrunið. Er að sumu leiti svekkjandi að hafa ekki upplifað þetta en einnig hefur það haft óneitanlega nokkra kosti að hafa staðið fyrir utan á meðan að þessu stóð.

Annars verður það skemmtilegt að sjá fjölskyldu og vini á nýjan leik sem og að sjá hvernig Ísland hefur breyst síðan sumarið 2008. Ég vona að þessi dvöl verði til þess að strákarnir læri meiri íslensku en ég hef alltaf rembst til að kenna þeim eitthvað en þeir hafa ekki hingað til haft mikinn áhuga á bablinu í pabba.

Langtímamarkmiðið hjá okkur er að flytja til Íslands alfarið einn góðan veðurdag. Ég lít á þessa för sem skref í þeirri áætlun, ef maður býr á einum stað í þrjá mánuði á ári þá er hægt að segja að sá búi á tveimur stöðum, ekki rétt? Við stefnum að því að vera á Íslandi í þrjá mánuði ár hvert þangað til við flytjum alfarið. Þetta verður einnig prófraun á bisnessinn okkar góða, hvort að við getum fjarstýrt honum frá annarri heimsálfu og hvort að einhver ágóði verður af rekstrinum fyrir okkur til að lifa af sumarið.

Ef reynslan verður góð þá má búast við því að við getum flutt heim skjótt fyrir fullt og allt en sjáum til hvernig þetta fer allt saman.

Þetta verður gott sumar, engin hætta á öðru.

Tags:

Ísland sett á ís

Verður víst ekkert úr fyrirhuguðu jólafríi á Íslandi þessi jólin. Það fær víst að bíða betri tíma.

Tags:

Leitin mikla

Er þessa stundina að skoða flug til Íslands. Það er flóknara nú en nokkru sinni þar sem í fyrsta lagi er ég alltof seinn í þessu og í öðru lagi þá megum við ekki snerta bandaríska grund á leið okkar. Emil litli er ekki með vegabréfsáritun og bandarísk yfirvöld leyfa slíku fólki ekki einu sinni að millilenda hjá sér. Að kría slíka áritun út úr kerfinu getur tekið nokkra mánuði og því ekki mögulegt í bili.

Hann fær vonandi bráðlega íslenskt vegabréf eins og bróðir sinn svo svona vandamál verða ekki að angra okkur framar.

Við stefndum að því að fara í gegnum Kanada í staðinn en uppgötvaði það þá að Icelandair flýgur einungis beint til Toronto og Halifax yfir sumarið. Einnig hafa Kanadamenn tekið upp þann ósið að rukka fólk frá minna ríkum löndum um vegabréfsáritanir síðan í júlí á þessu ári. Þeir afgreiða víst slíkar umsóknir á örfáum dögum en þetta er samt frekar þreytandi.

Því er eina færa leiðin að fara í gegnum Evrópu en það er ekki hlaupið að því að finna eitthvað á viðráðanlegu verði fyrir þá leið. Sýnist í augnablikinu að helst sé séns að finna eitthvað í gegnum London eða París. Sem betur fer er efnahagurinn hjá okkur hjónum kominn á blússandi siglingu aftur eftir kreppuárið mikla 2009 og við getum kannski leyft okkur að splæsa í flug til Íslands. Ætla þó ekki að lofa mér í nein áramótapartý strax, þetta er allt í skoðun.

Tags: , , ,

Heimferð?

Nú fer að styttast í að við hjónin þurfum að ákveða hvort við kíkjum á klakann um jólin eður ei. Væri óneitalega gaman að fá alvöru jól og áramót en hvorugt hef ég séð síðan 2004. Þetta ræðst víst allt af efnahaginum sem er reyndar á uppleið eftir erfið misseri.

Það er nokkuð áhugavert fyrir mig að sjá Ísland eftir hrun en við vorum síðast á landinu í ágúst á síðasta ári. Rétt áður en allt fór á hliðina. Ég er því í nokkuð góðri aðstöðu til að sjá hvað hefur breyst við hrakfarirnar.

En þetta kemur víst allt í ljós, ef við komum ekki um þessi jól þá verður það bara síðar. Heimskreppan er víst enn í fullum gangi og því ekki fyrir hvern sem er að fljúga á milli heimsálfna.

Tags: ,

Fríið II

Eftir gistinguna hjá Horacio var víst kominn miðvikudagur. Var þá ákveðið að fara upp í fjöllin til að skoða friðlýst svæði sem kallast Porvenir og heimsækja dóttir Orlandos, Cendy, sem býr þar skammt hjá með manni og lítilli dóttur. Aftur var farið upp í pallbílinn og brunað upp í Sierra Madre fjallgarðinn. Strákarnir fengu þó að vera í einkabíl hjá Amöndu frænku sinni ásamt Anel.

Þetta ferðalag tók töluvert á bílana sem voru báðir drekkhlaðnir fólki og allt var uppí mót, á góðum vegum þó. Byrjaði að sjóða á bíl Amöndu og dekkin á pallbílnum fóru víst illa út úr þessari ferð. En þetta hafðist allt fyrir rest. Var orðið dimmt þegar við náðum heim til Cendy og við gistum um nóttina á hóteli þar sem hús frænkunnar var yfirfullt af fólki.

Þar um nóttina tel ég að ég hafi verið bitinn af einhverju kvikindi, líklega könguló, í ökklann því eftir þetta byrjaði hann að bólgna upp og var orðinn stokkbólginn nokkrum dögum síðar. Sýklalyf og bólgueyðandi náðu þó að redda því, alltaf má búast við einhverju svona í hitabeltinu þar sem lífríkið er gróskumikið.

Skoðuðum okkur um í Porvenir daginn eftir. Við vorum komin í það mikla hæð að þarna var mikið af barrtrjám og frekar svalt í veðri, miðað við að vorum syðst í Mexíkó. Síðan var haldið aftur heim til Orlandos, hópurinn tvístraðist eitthvað á leiðinni þar sem sumir fóru til Tapachula aftur en við fórum til Triunfo. Þar um kvöldið át ég tacos á einhverjum stað sem gerði mér ekkert sérstaklega gott. En maður kvartar ekki yfir smá magakveisu á svona stöðum.

Á föstudeginum fórum við til Tapachula aftur og ákváðum þar að fara norður til höfuðborgar Chiapas sem kallast Tuxtla og skoða þar einnig bæinn San Cristóbal sem er frægur ferðamannastaður. Segi nánar frá því síðar.

Tags: , , , , ,

Fríið I

Fórum til Chiapas í rútu á sunnudagskvöldi og náðum þangað á mánudagsmorgni. Chiapas er syðsti hluti Mexíkó og að auki fórum við mjög sunnarlega þar til stærstu borgar þess ríkis, Tabachula. Einungis eru um 25 mín. akstur til Gvatemala þaðan. Þar eiga heima ættingjar Anelar en við fórum í útskriftarveislu Williams, eins frænda hennar sem er nýútskrifaður lögfræðingur.

Við héldum að veislan ætti að vera á þriðjudeginum en hún átti víst að vera strax þá um kvöldið. Því fór mánudagurinn í að undirbúa herlegheitin, blása upp blöðrur og þess háttar. Líklega var hátt í 40 stiga hiti þarna syðra en maður kippir sér lítið upp við slíkt í þessu landi.

Veislan fór vel fram, lambakjöt á boðstólum og mikið dansað. Þó gátum við ekki verið þarna lengi frameftir þar sem að drengirnir voru þreyttir eftir rútuferðina og sofnuðu fljótt. Við fórum því heim til Elizabet frænku, systir tengdamömmu og móðir Williams, til að sofa en það gekk ekki áfallalaust þar sem Emil ákvað að vera með tanntökuverki og græt eitthvað frameftir nóttu. Það er líka frekar óþægilegt að sofa í svona hita þar sem húsin hér eru yfirleitt ekki loftkæld.

Daginn eftir var ákveðið að fara heim til Orlando frænda, bróðir tengdamömmu, sem býr í þorpinu Triunfo um þriggja tíma akstur frá Tapachula. Fjölskylda tengdamömmu er þaðan og þar ólst hún upp. Þetta þorp er svo lítið að ég finn það hvorki á Wikipedia né Goggle Maps en hef þó ekki leitað af mér allan grun. Vandamálið með Mexíkó er að margir staðir heita nákvæmlega það sama og því stundum erfitt að leita að ákveðnum stöðum.

Öll fjölskyldan fór til Triunfo, þar af flestir á pallinum á pallbíl Orlandos að hætti dreifara. Ég sólbrann á leiðinni á pallinum frekar illa og hef enn ekki beðið þess bætur þegar þetta er skrifað. Skömmu eftir komuna þangað skelltum við okkur í sund í á einni sem rennur þarna niður hæðarnar. Triunfo er staðsett á miklum hæðum við rætur Sierra Madre fjallgarðsins og þar er geysifallegt um að litast. Allt er iðjagrænt, skógar og hæðir allt í kringum ásamt ám og lækjum sem liðast um eftir landslaginu. Við syntum í stórum hyl í á sem lá nokkuð hátt uppi í hæðunum og lítill foss steypist þar ofan í, mesta sportið var að komast á bak við hann og dýfa sér ofan í hylinn. Strákunum fannst þó vatnið heldur kalt en mér fannst það gott eftir sólbrunann.

Nokkuð skondið var að rölta um með Anel í þessum bæ því þetta er smábær og allir þekktu fjölskyldu hennar þar sem hún var eitt sinn sú ríkasta í bænum. Fullt af fólki sem kom að tala við okkur. Hittum líka á nokkra fjarskyldari ættingja sem búa þarna sem voru afar glaðir að hitta Anel og bláeygðu syni hennar. Fórum og heimsóttum elsta bróðir tengdamömmu þar um kvöldið sem heitir Horacio og hann bauð okkur gistingu sem við þáðum með þökkum þar sem heimili Orlando var yfirfullt af gestum.

Meira síðar.

Tags: , ,