Archive for the ‘Bloggið’ Category

Hlaupársdagur

Það er armur maður sem ekki bloggar á hlaupársdegi.

Tags:

iPad

Thetta er mitt fyrsta iPad blogg.

Tags:

Þreytti bloggarinn og leikskólinn

Nei, ekki þreyttur á blogginu heldur frekar svona almennt þreyttur. Hef nóg til að blogga um en þegar ég blogga þreyttur þá hef ég tekið eftir því að leiðindi bloggsins stefna í óendanlegt, sbr færsluna um Kína hér að neðan. Ég er eins og Björn Bjarna og Hannes Hólmsteinn samanlagðir í leiðindum í þessum gír. Stend við allt sem segir í Kínafærslunni en ég kom þessu ákaflega illa frá mér. Mun því einungis reyna að blogga óþreyttur héðan í frá.

Annars eru helstu tíðindi héðan að Ari og Emil eru komnir á leikskóla sem kallast Fransisco Zarco og er í næstu götu við okkur. Þetta er opinber skóli og því engin skólagjöld eða neitt slíkt. Kostnaðurinn mun vera 50 cent á dag (um 5 krónur) fyrir morgunverðinn og kaupa þarf skólabúninga, það kalla ég vel sloppið. Þarna munu þeir vera frá 9-2 alla virka daga þannig að það verður eilítið rólegra á heimilinu við þessar breytingar, vonandi.

Tags: ,

Nóvember nauð

Það lítur út fyrir að nóvember verði með afbrigðum vondur bloggmánuður.

Sjö ár samfleytt á blogginu

Um daginn var ég að kvarta og kveina yfir því að Blogger var búinn að fleygja gamla blogginu mínu. Þetta þótti mér afleitt þar sem ég var að vinna í því að flytja það hingað yfir til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Það vandamál leystist þó af sjálfu sér þar sem gamla bloggið dúkkaði aftur upp af sjálfdáðum skömmu síðar.

Rétt í þessu var ég svo að ljúka við að flytja síðustu færsluna yfir, sem verður þá fyrsta færslan í þessu ritsafni. Hún var skrifuð þann 10. ágúst 2002 og var svohljóðandi: „Eign er stuldur“. Líklega var maður róttækari í hugsun hér áður fyrr. Verð reyndar að viðurkenna að þetta mottó anarkistanna gekk ekki alveg upp fyrir manni þá frekar en nú. Var í raun meira til að prófa bloggkerfið heldur en pólitísk yfirlýsing.

Hvað um það. Gamla bloggsíðan var upphaflega hugsað sem hópblogg fjögurra ungra manna sem áttu það sameiginlegt að þeir voru að flytja frá Akranesi til Reykjavíkur til að búa saman í húsi einu á Óðinsgötunni. Sverrir var upphafsmaður þessa bloggs. Sjálfur var ég svo eftirá að ég vissi ekki hvað orðið blogg þýddi á þessum tíma.

Kommúnan á Óðinsgötunni var líklega einn skemmtilegasti íverustaður sem ég hef búið í. Sú sæla tók þó enda um vorið og hópurinn tvístraðist, þó ekki mjög. Ég fór í líffræðiferð til Tælands um vorið og sneri aftur til Reykjavíkur í júní 2003 og leigði þá hjá Stínu systur eftir það. Var þar allt þar til ég fór til Svíþjóðar í ágúst 2005 til að stunda meistaranám. Kynnist þar minni heittelskuðu eins og frægt er orðið. Flutti svo loks vestur um haf í desember 2006 og hef verið hér í Mexíkóborg meira og minna síðan.

Frá því að ég hóf áðurnefnd bloggskrif í ágúst 2002 hef ég alltaf haldið þessu við. Stundum skrifaði ég mikið, stundum lítið. Undanfarið hefur þessi síða ekki verið mjög virk sökum tímaskorts. En þó hef ég alltaf sett inn eina og eina færslu aðdáendum mínum til óblandinnar ánægju.

Reyndar fer ég að verða með langlífari bloggurum. Var ekki einn af þeim fyrstu en þó í fyrra fallinu með þetta blogg. Hef svo bloggað a.m.k. eitthvað í hverjum mánuði nú í sjö ár samfleytt. Man ekki eftir mörgum bloggurum sem hafa náð því. Margir byrjuðu á undan mér en eru nú hættir. Sumir hafa byrjað og hætt og byrjað svo aftur síðar o.s.frv.

Af þeim sem ég fylgist með reglulega er það líklega einungis Matti sem hefur verið í þessu lengur en ég og hefur ekki tapað taktinum. Björn Bjarna slær mér líklega einnig við og einhverjir fleiri, katrín.is man ég t.d.

Af öðrum afrekum þá hef aldrei brostið í grát á netinu yfir því hvað allir eru vondir við mig og/eða flutt mig yfir á læst blogg. Lokuð blogg eru frekar furðuleg fyrirbæri fyrir mér en það hefur víst hver sinn smekk. Ég hef líklega aldrei verið nógu vinsæll eða umdeildur til að fólk hafi nennt að rífast við mig eða haft í frammi dólgslæti á síðunni minni.

Það stappar dálítið nærri geðveiki að hafa flutt allt gamla bloggið mitt handvirkt, færslu fyrir færslu, hingað yfir. En minningarnar eru dýrmætar, sérstaklega þegar þær verði eldri. Ég er ekki mjög minnisgóður sjálfur og því er ómetanlegt að hafa þetta blogg sem hefur skráð flest allt markvert og ómarkvert sem á daga mína hefur drifið. Megnið af því sem ég hef skrifað er bölvað þrugl, sérstaklega frá fyrstu árunum en það skiptir litlu. Ég hef gaman af þessu.

Geri ráð fyrir því að halda áfram að blogga út í hið óendanlega. Þetta er of skemmtilegt og nauðsynlegt að halda utan um það sem gerist í lífinu. Verður helsta heimildin þegar ævisaga mín verður rituð og gefin út.

Stærsti gallinn er líklega sá að þetta blogg hefur líklega útilokað mig frá þáttöku í pólitík. Ef ég færi að skipta mér eitthvað af hlutunum verða gömul ummæli um hitt og þetta, gríðarlega ómálefnaleg, dregin upp og ég stimplaður sem vitleysingur í fjölmiðlum. Enda fer ég ekkert að neita því að ég er einn slíkur.

VIÐBÓT. Bent hefur verið á það í andsvörum að Óli Gneisti hefur bloggað samfleytt frá febrúar 2002. Er líka með Stefán Pálsson á Blogggáttinni sem er eldri í hettunni en ég. Guðrún Helga fær svo líka viðurkenningu fyrir að hafa haldið út jafn lengi og ég en hún byrjaði 11 dögum á eftir mér.

Tags: ,

Gamla Blogspot-bloggið horfið

Frá 2002 til 2004 bloggaði ég á Blogger á gömlu Kommúnusíðunni þar. Þarna hófst minn bloggferill og mér þótti alltaf pínulítið vænt um þessa síðu enda verða minningar verðmætari eftir því sem þær eldast. Ég varð því nokkuð svekktur í gær þegar ég vildi kíkja á hana en hún var þá horfin með öllu af blogspot.com. Reyndar eru mörg „dauð“ blogg horfin með öllu sem þó voru þarna fyrir skemmstu.

Líklega er einhver hreingerning í gangi hjá Blogger.com. Mér finnst þetta þó nokkuð slappt að fleygja bara gömlum síðum sisvona. Endurspeglar reyndar eitt helsta vandamál veraldarvefsins, engin trygging er fyrir því hvort að vefsíður hangi uppi. Þær geta horfið einn góðan veðurdag með ýmsum upplýsingum sem gott væri að halda til haga.

Ég gerði mér þó grein fyrir þessu vandamáli fyrir allnokkru síðan. Hvað ef gamla blogginu yrði kippt úr umferð? Hvað verður þá um allan þann texta sem ég ritaði á þessum tíma?

Fyrir um einu og hálfu ári síðan var ég að spukulera í þessu, þegar lítið var um að vera í vinnunni, og ég ákvað að flytja einfaldlega gamla bloggið hingað yfir. Reyndar var það hægara sagt en gert því ég hafði ekki aðgang að stjórnkerfinu á Blogger því ég hafði gleymt lykilorðinu fyrir löngu síðan. Ef ég bað um lykilorðið í pósti þá fékk ég það sent á hi.is netfangið mitt sem ég tapaði fyrir um þremur árum. Það var því enginn séns að flytja þetta yfir öðruvísi en handvirkt, ein færsla í einu.

Kannski er ég ofurlítið bilaður að nenna að standa í því en þegar ég hafði lausan tíma, sem var ekki oft undanfarin misseri, þá færði ég yfir færslu og færslu. Svona gekk það undanfarið eitt og hálft ár en stundum liðu mánuðir á milli þess sem ég gaf mér tíma í þetta. Ég átti einungis eftir að taka hluta september og ágúst 2002 þegar ógæfan dundi yfir. Ætlaði mér reyndar að klára þetta nú í gær og var því ekki kátur með uppátækið hjá Blogger.

Waybackmachine geymir ekki afrit af fyrstu færslunum fyrir utan eina viku í september sem mig vantar í safnið. Ég býst ekki við að það sé nein önnur leið fær til að nálgast þetta efni? Ef netverjar luma á lausnum þá væri vel þegið að heyra í þeim.

Tags:

Tækifærisblogg

Mér hálfleiðast pólítíkusar sem byrja að blogga af miklum móð kortéri fyrir kosningar og hætta því síðan að þeim liðnum. Gott dæmi er þessi hérna.

Finnst þetta vera nánast óheiðarlegt en kemur kannski ekki á óvart þegar að stjórnmálamenn eiga í hlut.

Annars virðist kosningabaráttan í ár fara fram á Facebook. Sé að félagar mínir þar þyrpast í hina ýmsu hópa og stuðningsmannalista þar.

Tags: , ,

WordPress-væðing Kommúnunnar

Hér hafa nú orðið mestu breytingar í sögu Kommúnunnar en við erum að flytja okkur frá Movable Type yfir í WordPress. Svo drastísk eru þessi umskipti að Sverrir hefur meir að segja hafið bloggskrif á ný, öllum að óvörum.

Næstu dagana verður þessi síða líklega dálítið í hönk en með tíð og tíma hlýtur að komast sæmilegt skikk á hlutina.

Þessar breytingar leggjast vel í mig. Margar af gömlu síðunum lúkkuðu mjög 2006 og þörf var á endurnýjun. Við fyrstu sýn virðist sem að kerfið sé einnig notendavænna en MT er.

Ég ætla að nýta tækifærið við þessi tímamót og hefja notkun á svonefndum efnisorðum en ég hef séð það á ýmsum síðum að þau eru góð til að halda utan um vitleysuna sem vellur upp úr manni.

Ætli það sé ekki hægt að segja að hér séu hafnir nýir tímar á traustum grunni?

Tags: ,

Nýtt lúkk

Síðan mín hefur litið svona út núna nákvæmlega í tvö ár og tvo daga. Mig er farið að langa til að breyta til og gera þetta meira mexíkanskt. Þessi mynd hér í hausnum er einum of kuldaleg og er í litlu samræmi við núverandi umhverfi mitt. En þar sem ég kemst sjaldan á netið þessa dagana þá verður líklega ekki bætt úr þessu fyrr en seint og um síðir.

Bloggið í rénum?

Einu sinni blogguðu nánast öll sem ég þekkti, sum meira en önnur. Þetta var trendið, öll þurftu að eiga blogg vildu þau teljast fólk með fólki. Nú er þessi tíska að mestu fyrir bí, að minnsta kosti hvað minn vinahóp snertir. Mjög margir virkir bloggarar virðast hafa yfirgefið bloggheima. Ég nenni ekki að telja þá alla upp, þeir eru einfaldlega of margir.

Á meðan þessi þróun hefur átt sér stað hafa öðruvísi blogg skotið upp kollinum, einhvers konar atvinnublogg. Líklega eru þar fremstir nú um stundir Silfur-Egill og Bingi sem nota bloggið sem einhvers konar viðbót við sjónvarpsþætti þeirra, ég spái því að fleiri svona blogg eigi eftir að skjóta upp kollinum líkt og hefur gerst erlendis.

Mér finnst þó skemmtilegra að lesa blogg fólks sem ég þekki heldur en atvinnumanna og álitsgjafa. Ég veit lítið hvað gengur á í lífi margra og önnur samskipti eins og MSN eru mér erfið á þessu tímabelti sem ég er staddur á. Einhvern veginn veit ég þó að þessir tímar þegar allir voru að blogga eiga ekki eftir að koma aftur, æðið er liðið hjá.

Ég gleðst þó ætíð yfir því að sjá einhver lífsmörk á gömlum bloggum sbr. þetta eða þetta og vona að lifni yfir aðeins fleiri bloggsíðum svo maður hafi eitthvað til að skoða á síðkvöldum hér í Mexíkó.