Archive for the ‘Bækur’ Category

Q & A eða Viltu vinna milljarð? eða Slumdog Millionaire

Ég fékk bókina „Viltu vinna milljarð?“ sem gjöf frá systkinum mínum að heiman fyrir jólin 2007. Á sínum tíma kom mér það töluvert á óvart að fá indverska skáldsögu, fyrsta verk höfundarins Vikas Swarup, sem ég þekkti ekkert til. Bókin var og er hinsvegar stórskemmtileg og mjög vel heppnuð. Sögð er ævisaga munaðarleysingja í gegnum sjónvarpsþáttinn „Viltu vinna milljarð?“ þar sem hver spurning tengist ákveðnum atburðum í lífi hans.

Á sínum tíma hugsaði ég með sjálfum mér á meðan lestrinum stóð að þetta væri úrvals efniviður í kvikmynd. Þar sem ég fylgist lítið með kvikmyndum þessa dagana kom það því mér í algjörlega í opna skjöldu þegar ræma með ofangreindum söguþræði eftir Danny Boyle vann Golden Globe verðlaunin. Ég hafði ekki hugmynd um að þegar væri búið að festa bókina á filmu og ákvað þegar að nú yrði farið í bíó. Við hjónin höfðum ekki stundað slíkt athæfi síðan í september þegar norræn kvikmyndahátíð var í gangi hér í borg.

Höfðum það loks af á föstudaginn að berja meistaraverkið augum eftir að Slumdog Millionaire hafði unnið flest verðlaun sem hægt er að vinna á þessu ári.

Nánast alltaf þegar mynd er gerð eftir bók þá finnst manni stundum hitt og þetta vanta. Eins er með þessa mynd en hún er þó það áhrifamikil að það sleppur í þetta skiptið. Hún var kannski ekki eins frábær og ég átti von á enda búið að hæpa hana gífurlega upp en þetta var bara nokkuð gott.

Við hjónin skemmtum okkur betur heldur en yfir síðustu mynd sem við sáum í bíó, dönsk mynd um barnaníðing sem níddist á öllum börnunum sínum. „Listin að gráta í kór“ hét hún víst. Alltaf gaman að sjá norrænar myndir, það vantar ekki.

Mér finnst nú að gera eigi sjónvarpsþætti eftir „Viltu vinna milljarð?“ þar sem það eru svo margar góðar sögur ónýttar úr bókinni. Einnig var plottið þykkra og safaríkara þar sem spyrilinn var líka margflæktur inn í líf munaðarleysingjans. Svo vann hann líka milljarð í bókinni, ekki einhverjar skitnar tuttugu milljónir. Hvað var með það?

Tags: , ,

Endurútgáfa Tíu Lítilla Negrastráka eðlilegt framhald klámvæðingarinnar?

Það er hreint út sagt dásamlegt á stundum að lesa fréttir af því hvað ber helst til tíðinda á Íslandi. Frónverjar ættu að hafa það í huga hvílík forréttindi það eru að geta haft áhyggjur af því hvort að tveggja ára börn séu í bílstól í umferðinni, sótt minningarathöfn um látna hunda og hvort að barnabækur innihaldi misvísandi siðferðisboðskap. Flestar aðrar þjóðir gæfu mikið fyrir að hafa þessi vandamál.

Mín skoðun á Tíu Litlum Negrastrákum er sú að hér er um eðlilegt framhald klámvæðingarinnar að ræða sem nú tröllríður hinum siðlausa vestræna heimi. Skoðum eftirfarandi vísu.

Fimm litlir negrastrákar héldu að þeir væru stórir einn þeirra fékk á hann en þá voru eftir fjórir.

Ekki gæti ég lesið þetta kvæði fyrir hann Ara minn án þess að hlæja mikið. Kannski er það bara minn innri dóni.

En þegar þetta er sett í eðlilegt samhengi við íslenska alþýðuljóðlist þá er ekki svo fjarstæðukennt að lesa eitthvað klúrt út úr þessari vísu. Íhugum eftirfarandi orð Megasar í laginu „Borðið þér orma frú Norma?“.

Ramses annar hann var alltaf að heiman eiginkonan fékk varla að sjá hann en hann eignaðist á flakkinu áttatíu börn hann fékk allverulega, sem maður segir, á hann það er oft þannig þegar maður á annað borð er kominn af stað

Semsagt, Tíu Litlir Negrastrákar eru því rasískar bókmenntir með klámfengnum undirtón. Ég legg hér með til að kvæðinu verði breytt í Tíu Lítil Grjón svo að kynjasjónarmiðin séu virt og til að hægt sé að gera lítið úr öðrum þjóðfélagshópum en negrum, okkur hinum og börnunum okkar til ánægju og yndisauka.

Lenín og Samfylkingin

Ég er þessa dagana að lesa bókina Ten Days That Shook the World eftir John Reed. Þetta er lýsing hans á rússnesku byltingunni 1917 en Reed starfaði sem blaðamaður í Pétursborg á þessum tíma. Hingað til lofar bókin góðu, ég er loksins að ná einhverjum botni í atburðarásina þarna eystra en pólitíkin á þessum árum var býsna flókin í Rússlandi. Ég hef í raun aldrei skilið nákvæmlega hvað gekk þarna á og hverjir voru bolsévíkar og mensévíkar, hvað voru sovétin nákvæmlega o.s.frv.

Fyrr í sumar las ég Rights of Man eftir Thomas Paine, sem fjallar um byltingarnar í Bandaríkjunum og Frakklandi á 18. öld, þannig að nú er ég orðinn byltingarsinnaðri en fyrr.

Þrátt fyrir að ég fylgi ekki hugmyndafræði Leníns og félaga fannst mér ein tilvitnunin í hann í upphafi bókarinnar vera viðeigandi í ljósi nýmyndaðrar ríkisstjórnar heima á Íslandi. Hér er hann að ræða tilhneigingu hófsamra sósíalista til að mynda bandalög við borgaraleg öfl.

The capitalists…seeing that the position of the Government was untenable, resorted to a method which since 1848 has been for decades practised by the capitalists in order to befog, divide, and finally overpower the working class. This method is the so-called „Coalition Ministry“, composed of bourgeois and of renegades from the Socialist camp. In those countries where political freedom and democracy have existed side by side with the revolutionary movement of the workers – for example, in England and France – the capitalists make use of this subterfuge, and very successfully too. The „Socialist“ leaders, upon entering the Ministries, invariably prove mere figure-heads, puppets, simply a shield for the capitalists, a tool with which to defraud the workers.

(Problems of the Revolution)

Samfylkingin kom mér til hugar við þessa lesningu.

Ný-Upplýsing

Það er einn stór kostur við að taka neðanjarðarlest í skólann, það er ótrúlega þægilegt að lesa á leiðinni. Ég held að ég nái sjaldan jafn góðri einbeitningu og í el metro. Vegna dugnaðar við lesturinn þá var allt mitt lesefni á þrotum um helgina og því var haldið í bókabúð til að versla meira. Úrvalið þar var örugglega ágætt en þar sem ég les ekki spænsku þá minnkaði það til muna.

Afgreiðslumaðurinn vísaði mér kurteislega á ensku deildina þar sem ég gat keypt mest allan Shakespeare og einnig var þar mikið af bókum eftir Isabel Allende. Hvorugt skáldið varð þó fyrir valinu að sinni, ég keypti þó nokkrar bækur og ein þeirra var Rights of Man eftir Thomas Paine sem nú fylgir mér daglega í skólann.

Upplýsingin er merkilegt tímabil í mínum huga, ef ekki það merkilegasta af öllum. Stíllinn í verkum frá þessum tíma er mér að skapi. Mönnum var á þessum tímum umhugað um hvað væri satt og rétt, ekki hvað fólki hefði verið innrætt að væri satt.

Fyrir löngu síðan þegar ég sat áfangann Íslenska 323 í FVA þá sagði kennarinn okkur frá þeirri tilgátu sinni að Ný-Upplýsing væri að bresta á í kjölfar netvæðingarinnar og yfirgengilegs flæði á upplýsingum. Úr rústum póst-módernismans risi Upplýsingin aftur, mér til mikillar ánægju.

Ég er enn að bíða eftir endurkomunni, hartnær tíu árum síðar.

The Demon-Hunted World

Á Leifsstöð í ágúst, þegar ég beið eftir vélinni til Kaupmannahafnar, þá byrjaði ég að lesa bókina The Demon-Hunted World eftir Carl Sagan. Nú í gær náði ég loksins að klára hana. Ekki það að hún hafi verið leiðinleg heldur hef ég verið einstaklega upptekinn undanfarna mánuði.

Bókin er mjög góð, verð ég að segja. Hún er skrifuð í fyrstu persónu af Sagan og eru hans vangaveltur um heiminn, efahyggju og verðmæti vísindanna fyrir okkur öll. Þá er hann ekki að meina niðurstöður og afrek vísindanna beint, heldur aðferðafræði þeirra til að skilja heiminn.

Ein tilvitnun úr bókinni finnst mér vera viðeigandi á okkar dögum en bókin kom fyrst út 1996, skömmu fyrir andlát Sagans.

„In our time, with total fabrication of realistic stills, motion pictures, and videotapes technologically within reach, with television in every home, and with critical thinking in decline, restructuring societal memories even without much attention from the secret police seems possible. What I’m imagining here is not that each of us has a budget of memories implanted in special therapeutic sessions by state-appointed psychiatrists, but rather that small numbers of people will have so much control over news stories. history books, and deeply affecting images as to work major changes in collective attitudes. We saw a pale echo of what is now possible in 1990-1991, when Saddam Hussein, the autocrat of Iraq, made a sudden transition in the American consciousness from an obscure near-ally – granted commodities, high technology, weaponry, and even satellite intelligence data – to a slavering monster menacing the world. I am not myself an admirer of Mr. Hussein, but it was striking how quickly he could be brought from someone almost no American had heard of into the incarnation of evil. These days the apparatus for generating indignation is busy elsewhere. How confident are we that the power to drive and determine public opinion will always reside in responsible hands?“

Nokkrum árum síðar sáum við það svo gerast aftur það sem Sagan minnist á. Eftir 11. september 2001 voru Írakar skyndilega orðin mikil ógn við heimsfriðinn, áttu endalausar birgðir af gjöreyðingarvopnum og hötuðust við hinn vestræna heim. Saddam varð að fjarlægja, annars áttum við öll eftir að farast fyrir hans hendi.

Þessa vitleysu fengu bandarísk stjórnvöld og fjölmiðlarnir svo fólkið til að trúa á. Hvað hefur síðan komið í ljós? Írakar áttu engin gjöreyðingarvopn, tengdust ekki hryðjuverkunum 11. september og voru ekkert á stríðsbuxunum enda aðframkomnir vegna langs viðskiptabanns. Segir sitt um hversu mikil áhrif fjórða valdið hefur.

Bókaútsala

Þessa dagana er mikil bókaútsala í Bóksölu stúdenta en allar útsölubækur eru á 70% afslætti. Ég stóðst ekki freistinguna og keypti eftirfarandi bækur.

Watson and DNA, Making a scientific revolution. Höf. Victor K. McElheny. Bók um James Watson og byltinguna í sameindalíffræði sem hann á stóran þátt í.

The Island of dr. Moreau. Höf. H. G. Wells. Hin fræga skáldsaga Wells í kiljuformi sem kostaði 160 krónur. Ég gat varla annað en keypt hana.

The diversity of living organisms. Ritstj. R. S. K. Barnes. Handhæg bók um flokkun og fjölbreytileika allra núlifandi fylkinga lífvera. Gott að hafa hana við hendina í framtíðinni.

Instant notes in animal biology. Höf. Richard D. Jurd. Bók sem mig minnir að lagt hafi verið til að kaupa í Dýrafræði A. Sá hana liggja þarna á 70% afslætti þannig að ég bætti henni í safnið. Virðist reyndar vera mjög sniðug bók sem ég vildi að ég hefði keypt mun fyrr.

Evolution of the vertebrates, A history of the backboned animals through time. Höf. Colbert & Morales. Þessi var svo stór og þung að ég varð að kaupa hana líka. Fer vel í hillu ef ég endist ekki til að lesa hana og svo er ágætt að hafa hana við hendina síðar meir.

Það er gaman að lesa góðar bækur þannig að nú á ég nóg að lesa í bili. Ef einhver heldur að ég sé einhvers konar nörd þá er það hinn mesti misskilingur.

Gullgerðarlist

Búinn að vera veirusýktur heima í tvo daga og mér finnst eins og það hafi verið tvær vikur. Tíminn lúsast áfram þegar maður er í sjálfskipuðu stofufangelsi í Bústaðahverfinu.

Darwin dagur

Mér skilst að í dag sé dagur Charles Darwins en hann fæddist á þessum degi árið 1809. Ég hef einmitt verið undanfarið að brjótast í gegnum „Uppruna Tegundanna“ sem hefur ekki gengið nógu vel upp á síðkastið. Góð bók engu að síður en ég mæli ekki með henni við neinn nema þá sem mikinn áhuga hafa á náttúrufræðum.

Óvinafagnaður

Síðasta skáldsaga sem ég las var Óvinafagnaður eftir Einar Kárason. Las ég hana í flugvélum og hótelum á meðan Tælandsför minni stóð. Þetta var stutt, lipur og skemmtileg skáldsaga og hafði ég gaman af henni. Nú er það nýjasta nýtt að Friðrik Þór ætlar að gera kvikmynd eftir þessari bók. Ekki nóg með það heldur verður þetta dýrasta mynd sem gerð hefur verið á Norðurlöndunum frá upphafi, kostar um 1500 millur. Ég er reyndar dálítið hissa því að þessi bók hentar ekki sérstaklega vel til þess að gera mynd eftir. En ég hef svosem fulla trú á að Friðrik takist þetta……..