Flutningar yfirstaðnir – yfirlit

Að flytja er ekki góð skemmtun og verður vonandi ekki endurtekið í bráð.

Nú er orðið töluvert síðan að við hjónin fórum að velta fyrir okkur að flytja þar sem gamla húsnæðið var of lítið og gamalt. Eftir að við komum heim frá Íslandi síðastliðið haust fór undirbúningur á fullt, við byrjuðum að fleygja hlutum sem við notuðum ekki eða höfðum enga þörf fyrir. Magnið af rusli sem við losuðum okkur við var ekki lítið en Anel og móðir hennar bjuggu í gömlu íbúðinni frá 1992, sjálfur safna ég ekki miklu af óþarfa en eitthvað var það nú sem fékk að fjúka.

En það er ekki nóg að fleygja notuðum hlutum og við settum íbúðina á sölu um mánaðamótin nóv-des og þar sem við áttum tvær íbúðir í sömu byggingunni stefndum við fyrst að því að selja báðar. Sú fyrri, sem er stærri og þar sem við Anel bjuggum með Ara, Emil og Ían var fljót að fara. Held að það hafi liðið 10 dagar frá því að ég hengdi upp auglýsingu (mexíkanska leiðin við fasteignasölu) utan á blokkina þar til íbúð 9 var seld. Þetta var í kringum 10 desember, ef ég man rétt.

Síðan liðu jól og áramót, kaupandinn var eldri kona, ekkja sem vantaði íbúð miðsvæðis og hún borgaði hana fljótt með reiðufé og allir pappírar voru frágegnir í lok janúar. Við fórum úr þeirri íbúð 10. febrúar og fluttum okkur niður í þá minni, sem var reyndar gamla tannlæknastofan okkar. Rebeca tengdamamma bjó þar í nokkur ár og við einhvern veginn tróðum öllu okkar dóti og okkur sjálfum þar inn.

Fljótlega tókum við á leigu geymslu og fluttum eitthvað að húsgögnum þangað þar sem þetta var ekki alveg að ganga upp enda íbúðin ofhlaðin. Með því losnaði aðeins um og við gátum komið okkur fyrir en ekki vel þó.

Áður en þetta gerðist vorum við að sjálfsögðu farin að svipast um eftir íbúð, fyrst til leigu og það voru drjúgar stundirnar sem ég eyddi í að skanna leigumarkaðinn. Einnig vorum við líka að athuga með að kaupa en í raun höfðum við ekki mikinn tíma aflögu til að eyða í þessi mál, eins furðulega og það hljómar. Alltaf nóg að gera.

Síðan gerist það einn daginn að við förum að skoða íbúðir í nýrri blokk sem verið var að klára. Mér leist ekkert á þetta, langt frá því svæði sem við vildum flytja til og var tvístígandi þar óþolinmóður yfir þessari tímasóun. Þá nefndi fasteignasalinn að þau voru einnig að selja hús og íbúðir annars staðar í borginni og ég lét til fallast, treglega þó, að fara nú og líta á hvað væri í boði. Þá kom einfaldlega í ljós að þarna voru skemmtileg lítil hús til sölu sem voru á hagstæðu verði, flunkuný með öllum nútímaþægindum. Einnig vorum við í göngufjarlægð frá World Trade Center og mikið af góðum skólum í hverfinu.

Við hófum því ferlið við að kaupa eitt stykki hús fyrir okkur og það hafðist af að skrifa undir kaupsamning í lok mars. Síðan um vorið og sumarið borguðum við innborgunina og fengum húsnæðislán hjá bankanum. Eftir mikið japl, jaml og fuður fluttum við loks inn 4. september sem fer í okkar sögubækur sem einn besti dagur ævi okkar.

Í millitíðinni seldum við hina íbúðina í ágúst og bjuggum hjá frænku Anelar í um rúmar tvær vikur til að brúa bilið milli heimila.

Síðan þá höfum við verið að koma okkur fyrir og erum reyndar enn að týna síðustu hlutina saman. Vandamálið við flutninga eru ekki stór húsgögn. Sérstaklega hér í Mexíkó þar sem maður ræður einfaldlega einhvern til að redda því og síðan fara stóru hlutirnir einfaldlega á sinn stað, hvort sem við erum að tala um þvottavélar, rúm, sófa eða eitthvað því um líkt. Vandamálið eru smáir hlutir, pappírar og alls kyns lítið dót sem safnast upp með árunum og maður tímir kannski ekki að fleygja en þá þarf að geyma þetta einhvers staðar með tilheyrandi fyrirhöfn.

En svo virðist sem að þessu ferli sé að ljúka. Margt vantar enn á heimilið, við hjónin fleygðum rúminu okkar og höfum enn ekki fengið okkur annað. Við eigum engin stofuhúsgögn og gamla sjónvarpið fékk ekki að koma með í nýja húsið enda um hallærislegan gamlan túbuskjá að ræða. Við eigum enn ekki flatskjá og höfum verið sjónvarpslaus í um mánuð. Það er reyndar ágætt, ég sakna þess ekki mikið enn sem komið er enda engin tími til að góna á imbann undanfarin ár.

Hvað um það, smán saman setjum við saman nýtt og gott heimili. Við erum öll hæstánægð, ég held sérstaklega að strákarnir hafi verið orðnir leiðir á þessu hálfgerða heimilisleysi og rótleysi. Ég skrifa nánari lýsingar á kofanum bráðlega.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.