Yfirvofandi flutningar

Frá því ég fluttist til Mexíkóborgar um jólin 2006 þá höfum við búið á sama stað, frekar lítilli íbúð nálægt miðbæ borgarinnar. Fyrir allnokkru síðan varð þessi íbúð of lítil eftir því sem fjölskyldumeðlimum hefur fjölgað og nú er einfaldlega komið að því að flytja í stærra húsnæði.

Íbúðin hefur þegar verið seld, það tók um þrjár vikur enda er þetta eftirsótt svæði. Nú er bara beðið eftir að möppudýr vinni sína vinnu svo að hægt sé að afhenda íbúðina með tilheyrandi pappírum. Reyndar eigum við aðra íbúð í sömu byggingu sem var áður fyrr tannlæknastofan okkar áður en við fluttum okkur yfir í World Trade Center. Tengdamamma hefur búið þar undanfarin ár og ég held reyndar að við séum búin að finna kaupendur að þeirri íbúð einnig.

Núna stendur til að flytja okkur nær WTC og höfum við reyndar þegar fundið draumahúsið, allstórt einbýlishús með öllu tilheyrandi. Nú verður bara að koma í ljós hvort að við getum fjármagnað húskaupin. Þegar við verðum komin með húsnæðislán til að borga af er maður þá ekki loks kominn í fullorðinna manna tölu?

Lokað er fyrir andsvör.