Vegabréf

Ég og strákarnir urðum okkur úti um íslensk vegabréf og fengum þau send í pósti heim í sveit. Þetta er allur munur og nú verður ekkert vesen í kringum vegabréf eða vegabréfsáritanir allavega næstu fimm árin. Ungir menn eins og Ían fá einungis vegabréf til eins árs í senn í Mexíkó og íslensk vegabréf eru að auki ódýrari sýnist mér.

Þar sem við verðum (vonandi) mikið á ferðinni til Íslands liggur beinast við að notast við Bandaríkin sem stoppistöð en þar er betra að hafa Visa Waiver vegabréf á borð við þau íslensku. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið fyrir Mexíkana að fá útgefna vegabréfsáritun til hinna miklu Bandaríkja Norður-Ameríku. Ég veit mörg dæmi þess að fólki hafi verið hafnað um áritun án haldbærrar ástæðu. Ákaflega sérstakt hjá þessu tiltekna ríki að geta meinað fólki inngöngu án þess að það hafi í rauninni gert nokkuð af sér.

Ég notaði gamla vegabréfið í fjórum heimsálfum, ég á ekki von á því að það nýja verði jafn víðförult en þó er aldrei að vita.

Okkur langar að fara næst til Kúbu og verður það vonandi fljótlega þar sem við þurfum einungis að borga flugið. Kúbverskt vinafólk ætlar að hýsa okkur en við kynntumst pari þaðan þegar þau voru í ófrjósemismeðferð í Mexíkóborg sem kúbverska ríkið borgaði undir þau (!). Meðferðin heppnaðist með miklum ágætum og þeim fæddist stúlka sem fékk nafnið Anel eftir minni ektafrú og því er nauðsynlegt að heimsækja litlu Anel á Kúbu. Fer ekki hver að verða síðastur að sjá Kúbu undir kommúnistastjórn?

Tags: ,

Lokað er fyrir andsvör.