Á heimleið

Hér eru að verða mikil tíðindi. Eftir tæp fjögur ár fjarri heimahögum hefur verið sett upp mikil ferðaáætlun og munum við lenda á Fróni í júní.

Þetta hefst 2. júní þegar að Ane fer til Boston en hún á bókaðan kúrs í tannígræðslum þar dagana 4-8. júní. Ég fer með Ara, Emil og Ían ásamt Becky tengdamömmu þann 8. júní til Boston og svo verður farið til Íslands þann 10. júní sem mun vera sunnudagur.

Ég var síðast á Íslandi í ágúst 2008. Þá átti ég eitt barn og ekkert hrun hafði orðið á gamla landinu. Sjálfstæðisflokkurinn réð landi og borg og íslensku bankarnir virtust standa vel. Vægast sagt hefur ýmislegt breyst síðan þá. Synirnir orðnir þrír og Ísland búið að ganga í gegnum algjört hrun fjármálakerfisins, búsáhaldabyltingu og hefur svo haft hreina vinstri stjórn í rúm þrjú ár. Ég missti semsagt að einhverjum viðburðaríkustu árum sem ég man eftir. Hér áður fyrr gerðist aldrei neitt á Íslandi, allavega ekki í samanburði við hrunið. Er að sumu leiti svekkjandi að hafa ekki upplifað þetta en einnig hefur það haft óneitanlega nokkra kosti að hafa staðið fyrir utan á meðan að þessu stóð.

Annars verður það skemmtilegt að sjá fjölskyldu og vini á nýjan leik sem og að sjá hvernig Ísland hefur breyst síðan sumarið 2008. Ég vona að þessi dvöl verði til þess að strákarnir læri meiri íslensku en ég hef alltaf rembst til að kenna þeim eitthvað en þeir hafa ekki hingað til haft mikinn áhuga á bablinu í pabba.

Langtímamarkmiðið hjá okkur er að flytja til Íslands alfarið einn góðan veðurdag. Ég lít á þessa för sem skref í þeirri áætlun, ef maður býr á einum stað í þrjá mánuði á ári þá er hægt að segja að sá búi á tveimur stöðum, ekki rétt? Við stefnum að því að vera á Íslandi í þrjá mánuði ár hvert þangað til við flytjum alfarið. Þetta verður einnig prófraun á bisnessinn okkar góða, hvort að við getum fjarstýrt honum frá annarri heimsálfu og hvort að einhver ágóði verður af rekstrinum fyrir okkur til að lifa af sumarið.

Ef reynslan verður góð þá má búast við því að við getum flutt heim skjótt fyrir fullt og allt en sjáum til hvernig þetta fer allt saman.

Þetta verður gott sumar, engin hætta á öðru.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.