Nýr bisness

Við Anel höfum lengi rætt um að koma á laggirnar nýju fyrirtæki en hingað til hefur ekkert orðið úr neinu. Lengi stóð til að opna veitingastað, á árinu 2009 en það varð aldrei neitt úr því vegna lánsskorts. Sjálfur er ég með eitt verkefni í gangi en veit ekki hvenær það kemst af hugmyndastiginu, vonandi einhvern daginn.

Núna erum við þó loksins komin í framkvæmdagírinn en hugmyndin er ekkert sérstaklega frumleg. Við erum að vinna við nýja tannlæknastofu sem staðsett er í verslunarmiðstöðinni Plaza Central hér í Mexíkóborg. Þetta fór af stað í sumarlok og við getum vonandi opnað í annarri viku desember. Þetta verður svo minn vinnustaður þar sem ég mun vera alráður og gína yfir öllu.

Því hef ég undanfarnar vikur eða mánuði verið á ferðinni í byggingarvöruverslunum og keypt efni hér og þar. Nokkuð hátt er til lofts í þessu rými sem við nældum okkur í og því var afráðið að smella annari hæð fyrir skrifstofu o.fl. Því hef ég fjárfest í um tonni af stáli sem notað var í burðargrind, flísar á gólfin, MDF plötur fyrir gólfið á hæðinni, óheyrilegu magni af vírum og köplum og rörum og ég veit ekki hvað.

Staðan þessa stundina er að búið er að setja upp burðargrindina og rafsjóða allt klabbið saman svo það haldi mér uppi. Flísarnar eru komnar á neðri hæðina og búið er að festa MDF plöturnar og vinna töluvert í pípulagningum og raflögnum. Síðar verður farið í að setja upp milliveggi með gifsplötum, málað og þetta verður þá nánast tilbúið til innréttingar.

Til stendur að hafa þarna þrjá tannlæknastóla og að setja einnig upp vinnustofu fyrir hina ýmsu tannsmíði, falskar tennur o.fl. Mér líst nokkuð vel á staðsetninguna og vona að þetta verði öflugur bisness þegar fram í sækir, veitir ekkert af á þessum síðustu og verstu tímum.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.