Archive for september, 2011

Ían Magni

Ég var alveg viss um að ég hefði sett það niður hér að sá minnsti fékk nafnið Ían Magni en það virðist vera rugl í mér. Setti það inn á Facebook en það kerfi er alveg ómögulegt og til einskis nýtt þegar að ævisaga mín verður skráð. Tilkynni það semsagt hér formlega.

Ían þekkist hér í landi og Anel var búin að fá hugmyndina að þessu nafni áður en hann fæddist. Mér leist svona sæmilega á þetta nafn í fyrstu og nefndi að fyrst að bræður hans hétu íslenskum nöfnum ætti það sama að gilda fyrir hann. En svo kom í ljós við leit í mannanafnaskrá að Ían er gott og gilt íslenskt nafn samkvæmt dómi stjórnvalda og ég samþykkti það því. Núna finnst mér nafnið mjög gott, gengur vel upp á spænsku og íslensku.

Anel stakk einnig upp á seinna nafninu Magni en ég held að hún hafi munað það nafn síðan Magni Ásgeirs var upp á sitt besta í þáttunum Rockstar Supernova en þeir voru einmitt í gagni þegar við bjuggum á Íslandi sumarið 2006. Hvað um það þá finnst mér tvínefnið Ían Magni vera mjög gott, mjög karlmannlegt nafn. Anel leist einnig vel á nafnið Míó en það segir sig sjálft að karlar með slíkt nafn eiga aldrei eftir að verða mjög karlmannlegir.

Ían kemur frá Skotlandi og er sama nafnið og Jón eða Jóhannes á gelísku. Magni er ævafornt norrænt nafn en sonur Þórs hét Magni. Merkir hinn sterki eða öflugi en Ían merkir guðsgjöf sem kann að virka öfugsnúið fyrir mann eins og mig en jæja.

Íslendingabók segir að fyrsta skráða heimildin um nafnið Magni er frá byrjun 13. aldar en sá var félagi Kolbeins á Flugumýri segir í Sturlungu. Ían er hins vegar nýrra en elsti Íslendingurinn með það nafn fæddist 1999. Hagstofa Íslands heldur því fram að einungis séu 7 Íslendingar sem bera þetta nafn, 4 sem fyrra nafn en 3 sem seinna nafn. Magni er að sjálfsögðu mun algengara en 97 eru skráðir með það sem fyrra nafn en 87 hafa það að seinna nafni eins og Ían Magni. Vart þarf að taka það fram að enginn er skráður undir nafninu Ían Magni, hef enn ekki skráð drenginn og fengið fyrir hann kennitölu en það verður bætt úr því fljótlega.

Ég er afar ánægður með nafnið en það hefur reynst þrautin þyngri að finna nöfn á drengina sem ganga upp á spænsku og íslensku. Að gefa barni nafn er óhemju mikil ábyrgð en ég held að okkur hafi tekist vel upp með þá þrjá.

Emil kominn á leikskóla (loksins)

Í gær fór Emil loksins á leikskólann en einhver barningur var að finna kennara fyrir hans aldurshóp. Hann virðist vera hæstánægður með þetta allt saman. Ari byrjaði í lok ágúst og hefur það gott, hefur eignast marga vini.