Kína

Sé í fréttum að kommarnir í Kína eru að halda upp á 90 ára afmæli Flokksins. Á þessu ári náðu Kínverjar líka víst öðru sætinu af grönnum sínum Japönum hvað stærð hagkerfa þeirra varðar þannig að allt er að gerast þar eystra.

Margir lofa dugnað Kínverja og mikinn vöxt undanfarna áratugi. Ég segi þó fyrir mig að ég kann illa við það að Kínverjar séu að ná auknum áhrifum og völdum meðan stjórnmálaástandið er jafn bágborið þar eystra og raun ber vitni. Kína er ógeðfellt alræðisríki þar sem spilling er mikil og virðing fyrir mannréttindum er lítil sem engin. Engin þjóð er öðrum fremri í að sálga eigin þegnum með dauðarefsingum. Venjulegt fólk lifir í ótta við stjórnvöld og engin gagnrýni er leyfð á sæluríki alræðisherranna.

Hvernig fer þegar svona þjóð verður valdameiri með hverju árinu sem líður? Fara þeir að hafa aukin afskipti af stjórnarfari annarra landa? Verður kommúnismi að þeirra hætti einnig útflutningsvara til t.d. Afríku, þar sem Kínverjar eru óðum að hasla sér völl?

Mér finnst það yfirleitt ekki gæfulegt að sjá fólk renna hýru auga til Kína, sérstaklega stjórnmálamenn. Stundum sér maður á Íslandi því haldið fram að betra sé að standa utan ESB því þá er betra að eiga viðskipti við aðrar þjóðir eins og Kína. Nær væri að draga úr samskiptum við þetta land frekar en að auka þau á kostnað Evrópu.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.