Archive for júlí, 2011

Munkaklaustur á fjöllum

Við skruppum í dag í bíltúr yfir í þjóðgarð sem kallast Desierto de los Leones eða Ljónaeyðimörkin. Þetta er þó engin eyðimörk heldur skógur í nokkurri hæð, finna má þar allnokkuð af grenitrjám því þar efra er svalt í veðri. Með í för voru móðursystir Anelar, Lulu ásamt Wendy dóttur hennar og Eduardo pabba Wendyar.

Þarna stendur gamalt munkaklaustur sem Karmelítar stofnuðu í kringum aldamótin 1600 og eyðimerkurnafnið kemur víst frá þeim en þeim fannst þetta vera svo friðsæll staður, langt frá erli og syndum hversdagsins að þeir kölluðu þennan skóg eyðimörk. Á spænsku er kannski aðeins meira vit í þessari nafngift en þetta er samt sérstakt. En við hverju er svo sem að búast af hópi karla sem taka sig saman um að loka sig af til æviloka svo þeir geti beðið og lesið Biblíuna daglega?

Við Anel höfum reyndar farið þetta áður en ég man ekki nákvæmlega hvenær, líklega haustið 2009. Það var reyndar ágætt að komast út þessari ofvöxnu borg og fá sér örlítið af fersku lofti.

Á bakaleiðinni rigndi svo mikið að rétt sást út þrátt fyrir að rúðuþurrkurnar væru settar í botn, alltaf gaman þegar regntímabilið kemst á skrið.

Kína

Sé í fréttum að kommarnir í Kína eru að halda upp á 90 ára afmæli Flokksins. Á þessu ári náðu Kínverjar líka víst öðru sætinu af grönnum sínum Japönum hvað stærð hagkerfa þeirra varðar þannig að allt er að gerast þar eystra.

Margir lofa dugnað Kínverja og mikinn vöxt undanfarna áratugi. Ég segi þó fyrir mig að ég kann illa við það að Kínverjar séu að ná auknum áhrifum og völdum meðan stjórnmálaástandið er jafn bágborið þar eystra og raun ber vitni. Kína er ógeðfellt alræðisríki þar sem spilling er mikil og virðing fyrir mannréttindum er lítil sem engin. Engin þjóð er öðrum fremri í að sálga eigin þegnum með dauðarefsingum. Venjulegt fólk lifir í ótta við stjórnvöld og engin gagnrýni er leyfð á sæluríki alræðisherranna.

Hvernig fer þegar svona þjóð verður valdameiri með hverju árinu sem líður? Fara þeir að hafa aukin afskipti af stjórnarfari annarra landa? Verður kommúnismi að þeirra hætti einnig útflutningsvara til t.d. Afríku, þar sem Kínverjar eru óðum að hasla sér völl?

Mér finnst það yfirleitt ekki gæfulegt að sjá fólk renna hýru auga til Kína, sérstaklega stjórnmálamenn. Stundum sér maður á Íslandi því haldið fram að betra sé að standa utan ESB því þá er betra að eiga viðskipti við aðrar þjóðir eins og Kína. Nær væri að draga úr samskiptum við þetta land frekar en að auka þau á kostnað Evrópu.

Tags: