Sagan af því þegar sá minnsti fæddist

Bloggskortur virðist ætla að vera hér ráðandi þrátt fyrir vonir um að úr myndi rætast þetta árið. Ástæðan er ekki andleysi heldur tímaleysi og misjafn netaðgangur.

Nú þegar færi gefst ætla ég setja hér niður söguna af því þegar þriðji sonurinn fæddist þann 17. janúar síðastliðinn. Sú fæðing er einn eftirminnilegasti dagur ævi minnar þar sem þeim stutta lá svo sannarlega á að sjá heiminn.

Allt byrjaði þetta síðla kvölds á tannlæknastofu okkar hjóna hér í World Trade Center. Þar sem þetta fyrirtæki okkar hefur stækkað síðustu misserin vorum við Anel að fara yfir nokkrar tölur, aðallega til að vita hvað við skulduðum okkar sérfræðingum. Þeir koma tvisvar eða þrisvar í viku til að annast fyrir okkur sérhæfðar skurðaðgerðir, tannréttingar og aðrar slíkar meðferðir.

Klukkan var orðin ansi margt þegar við lukum þessu en við vildum klára þetta áður en haldið væri til Cuautla þar sem fæðingin átti að eiga sér stað. Cuautla er lítil borg í Morelos ríki ekki langt frá Mexíkóborg. Þar býr móðirsystir Aneler ásamt sínum manni en hann er kvensjúkdómalæknir. Ari og Emil fæddust þar í hans umsjá þar sem um keisaraskurð var að ræða í báðum tilfellum. Við höfum farið á einkaspítala þar vegna þess að opinber sjúkrahús hér eru nokkurn veginn á mörkunum að vera boðleg.

En hvað um það. Þegar allar tölur voru komnar á hreint fórum við að tygja okkur til heimfarar. Anel stóð upp til að ganga frá einhverjum áhöldum og þá vildi ekki betur til en svo að legvatnið fór veg allrar veraldar beint á gólfið á okkar fínu tannlæknastofu. Hríðirnar hófust einnig nánast samstundis. Líklega hefur vantað um hálftíma uppá miðnætti þegar þetta átti sér stað.

Nú voru hin títtnefndu góð ráð svo sannarlega dýr. Eftir hálf örvæntingarfull símtöl við okkar ágæta lækni ákváðum við að fara einfaldlega beint til Cuautla. Ekki nokkur tími var til að fara heim til að taka með sér töskur eða farangur. World Trade Center er sunnarlega í Mexíkóborg og Morelos ríki liggur fyrir sunnan borgina þannig að þetta lá ekki svo illa við. Þó var það erfiðasta bílferð sem ég hef farið með Anel æpandi af kvölum við hlið mér, akandi eins hratt og okkar ágæti Renault Clio komst en til að komast þangað þarf að keyra yfir fjallgarð sem skilur Mexíkódalinn frá Morelos.

Vegurinn er þó reyndar góður og ég var á um 150 km/klst mest alla leiðina. Clio er enginn sportbíll en þetta hafðist á um klukkutíma. Venjulega tekur hátt í tvo tíma að keyra þetta en það var á þessum tíma engin umferð.

Læknirinn okkar, Rodolfo, beið eftir okkur á spítalanum og Anel var drifin beint á skurðarborðið. Þar fæddist svo þriðji sonurinn og var hann við bestu heilsu og hefur verið það síðan. Þetta var þó nokkuð óheppilegt, sérstaklega fyrir Anel, þar sem skammt var liðið frá hinum aðgerðunum og því var slæmt að hún skyldi fá hríðir. Tók það því mun lengri tíma fyrir hana að jafna sig og hún er reyndar ekki fullkomnlega komin yfir þessa aðgerð enn. Þetta hefur þó gengið framar vonum og hún er nánast orðin góð á ný.

Sá stutti hefur braggast vel og er nú kominn í 6,6 kíló tveggja mánaða gamall en hann nærist eingöngu á móðurmjólkinni. Fór fljótt að brosa framan í heiminn og sefur mun værar en bræður hans gerðu. Fór strax í annarri viku að sofa allar nætur og rumskar ekki frá 11 á næturnar til 6 eða 7 á morgnanna. Hann er því hið þægilegasta kríli.

Drengurinn hefur þegar fengið sitt nafn og það verður tilkynnt fljótlega. Vegna fyrri reynslu með Emil sem skipti tvisvar um nafn áður en það rétta fékkst vil ég ekki segja til um nafnið fyrr en drengurinn verður skrásettur löglega hér í landi en það er heljar mikill ferill því hér í landi er skrifræðið allt um ráðandi í þessu sem og öðru. Geri ég því ráð fyrir að næsta blogg fjalli um nafn drengsins og hvernig það er tilkomið.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.