Væntanlegur fjölskyldumeðlimur

Allt fer að verða klárt fyrir fæðingu þriðja sonarins. Búið er að þvo agnarlítil föt og taka fram hitt og þetta. Sem fyrr er þetta hálf óraunverulegt á þessari stundu en manni verður líklega kippt inn í veruleikann eftir um eina viku en áætlaður fæðingardagur er 20. janúar. Gæti kannski orðið aðeins fyrr, kemur í ljós.

Nafnið er enn til umræðu hjá okkur hjónum og ekki er búist við endanlegri niðurstöðu fyrr en með vorinu. Ari og Emil hafa verið undirbúnir andlega fyrir að deila athyglinni með þriðja aðila. Sjálfur segir Ari að hann ætli sér að hjálpa til með því að halda á þeim litla og með því að hreinsa á honum rassinn þegar á þarf að halda. Sjáum til hvort að hann standi við þetta. Emil segist ætla að gefa honum knús og koss sem verður líklega auðveldara að standa við.

Sem fyrr mun drengurinn fæðast í borginni Cuautla í Morelos ríki þar sem Anel á frænda einn góðan sem mun sjá um aðgerðina en þetta verður keisaraskurður. Vona að allt gangi að óskum eins og með Ara og Emil en þeir eru sérlega vel heppnuð börn (að eigin mati). Forvitnir geta litið hér við eftir um eina viku til að fylgjast með framvindu mála.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.