Brakandi ferskt ár

Hér er víst komið nýtt ár 2011. Ekkert sérstaklega fallegt ártal en bind samt miklar vonir við þetta ár. Ég vona að allir sem muna eftir mér hafi haft það gott um jól og áramót. Hérna voru jólin frekar í daufari kantinum þetta árið en maður kvartar ekkert yfir því.

Ákveðin tímamót verða hjá okkur um þessa dagana. Von er á þriðja drengnum í þessum mánuði og allt gengur það vel hjá Anel. Höfum þegar ákveðið að gefa ekkert upp um nafngiftir fyrr en drengurinn verður skráður hér opinberlega en líklega er amk fyrra nafnið þegar fundið, sjaldgæft nafn sem þekkist vart á Íslandi en er þó skráð hjá Mannanafnanefnd.

Rekstur tannlæknastofunnar gengur sífellt betur og konan hefur bætt við sig diplómu í tannígræðslum. Þessar tannígræðslur eru sænskar að uppruna og ganga undir nafninu Nobel. Þetta mun vera nýjasta nýtt í tannlækningum, í stað þess að fá falskar eru nýjar tennur skrúfaðar upp í kúnnana og eru jafnvel betri en þær upprunalegu.

Auk Anelar vinna nú sex manns hjá okkur þar af tvær í fullu starfi við aðstoð og markaðssetningu. Hinir fjórir eru tannlæknar sem koma ýmist á vissum dögum eða part úr degi. Þetta fer því að verða alvöru bisness og markmiðið er að opna nýja tannlæknastofu á þessu ári.

Við höfum einnig verið að vinna í öðrum verkefnum, ekkert þó komið enn sem kalla má áþreifanlegt en það breytist vonandi í þessum mánuði þar sem pantanir voru gerðar fyrir nokkrum vikum. Vil eiginlega ekki gaspra meira um þessi verkefni þangað til við verðum komin með eitthvað í hendurnar.

Vona að þetta verði betra bloggár en síðastliðin ár en það kemur í ljós með tímanum.

Gleðilegt nýtt ár öll!

Tags: ,

3 andsvör við “Brakandi ferskt ár”

  1. Eygló

    Til hamingju með væntanlegan dreng :-) Geri ráð fyrir að nafnið sé Gneisti ;-)

  2. Lalli

    Hehe, takk fyrir það en ég get upplýst það að Gneisti er ekki nafnið. Höfum þó ekki enn komist að niðurstöðu um millinafnið þannig að ekki er hægt að útiloka neitt

  3. Erla Guðrún

    Gleðilegt nýtt ár