Archive for janúar, 2011

Ari fjögurra ára

Nú er hann Ari Snær orðinn fjögurra ára. Fæddur 11. janúar 2007. Hátíðarhöld voru í lágmarki að þessu sinni þar sem móðir hans er ansi hreint ólétt og nóg að gera við að undirbúa tannlæknastofuna fyrir væntanlegt brotthvarf hennar í nokkurn tíma. Þó var splæst í tertu með myndum af Spiderman en hann er einhverra hluta vegna í miklu uppáhaldi hjá Ara.

Verður að viðurkennast að enn hefur ekki verið keypt afmælisgjöf en það verður vonandi gert í dag. Þá þarf að gefa Emil eitthvað einnig svo að hann verði ekki miður sín yfir því að bróðir hans fái pakka en hann enga.

Mínar fyrstu minningar eru frá því að ég var fjögurra ára og einnig lærði ég að lesa á þessum aldri. Er því eins gott að vanda sig nú við uppeldið þar sem drengurinn gæti átt eftir að muna allt héðan í frá. Vantar nú ekki mikið upp á að hann verði læs, allavega á spænsku en ég læt það duga að sinni.

Ég er ekki einn af þeim sem býsnast yfir því hvað tíminn líði hratt við svona tímamót. Mér finnst vera ógnarlangt síðan Ari fæddist, kannski er líf mitt leiðinlegra en annarra og því líður tíminn hægar? Nei, ég held reyndar að þetta sé eitthvað persónulegt hvernig fólk skynjar tímann.

Mér finnst það reyndar skrítin tilhugsun að eftir fjögur ár í viðbót mun ég enn sitja uppi með kríli á þessum aldri. Þetta barnauppeldi tekur víst seint enda!

Tags: , ,

Væntanlegur fjölskyldumeðlimur

Allt fer að verða klárt fyrir fæðingu þriðja sonarins. Búið er að þvo agnarlítil föt og taka fram hitt og þetta. Sem fyrr er þetta hálf óraunverulegt á þessari stundu en manni verður líklega kippt inn í veruleikann eftir um eina viku en áætlaður fæðingardagur er 20. janúar. Gæti kannski orðið aðeins fyrr, kemur í ljós.

Nafnið er enn til umræðu hjá okkur hjónum og ekki er búist við endanlegri niðurstöðu fyrr en með vorinu. Ari og Emil hafa verið undirbúnir andlega fyrir að deila athyglinni með þriðja aðila. Sjálfur segir Ari að hann ætli sér að hjálpa til með því að halda á þeim litla og með því að hreinsa á honum rassinn þegar á þarf að halda. Sjáum til hvort að hann standi við þetta. Emil segist ætla að gefa honum knús og koss sem verður líklega auðveldara að standa við.

Sem fyrr mun drengurinn fæðast í borginni Cuautla í Morelos ríki þar sem Anel á frænda einn góðan sem mun sjá um aðgerðina en þetta verður keisaraskurður. Vona að allt gangi að óskum eins og með Ara og Emil en þeir eru sérlega vel heppnuð börn (að eigin mati). Forvitnir geta litið hér við eftir um eina viku til að fylgjast með framvindu mála.

Tags:

Brakandi ferskt ár

Hér er víst komið nýtt ár 2011. Ekkert sérstaklega fallegt ártal en bind samt miklar vonir við þetta ár. Ég vona að allir sem muna eftir mér hafi haft það gott um jól og áramót. Hérna voru jólin frekar í daufari kantinum þetta árið en maður kvartar ekkert yfir því.

Ákveðin tímamót verða hjá okkur um þessa dagana. Von er á þriðja drengnum í þessum mánuði og allt gengur það vel hjá Anel. Höfum þegar ákveðið að gefa ekkert upp um nafngiftir fyrr en drengurinn verður skráður hér opinberlega en líklega er amk fyrra nafnið þegar fundið, sjaldgæft nafn sem þekkist vart á Íslandi en er þó skráð hjá Mannanafnanefnd.

Rekstur tannlæknastofunnar gengur sífellt betur og konan hefur bætt við sig diplómu í tannígræðslum. Þessar tannígræðslur eru sænskar að uppruna og ganga undir nafninu Nobel. Þetta mun vera nýjasta nýtt í tannlækningum, í stað þess að fá falskar eru nýjar tennur skrúfaðar upp í kúnnana og eru jafnvel betri en þær upprunalegu.

Auk Anelar vinna nú sex manns hjá okkur þar af tvær í fullu starfi við aðstoð og markaðssetningu. Hinir fjórir eru tannlæknar sem koma ýmist á vissum dögum eða part úr degi. Þetta fer því að verða alvöru bisness og markmiðið er að opna nýja tannlæknastofu á þessu ári.

Við höfum einnig verið að vinna í öðrum verkefnum, ekkert þó komið enn sem kalla má áþreifanlegt en það breytist vonandi í þessum mánuði þar sem pantanir voru gerðar fyrir nokkrum vikum. Vil eiginlega ekki gaspra meira um þessi verkefni þangað til við verðum komin með eitthvað í hendurnar.

Vona að þetta verði betra bloggár en síðastliðin ár en það kemur í ljós með tímanum.

Gleðilegt nýtt ár öll!

Tags: ,