Mexíkanska byltingin 100 ára

Dagurinn í dag (gær) 20. nóvember er dagur mexíkönsku byltingarinnar en sú bylting hófst 1910 og stóð reyndar í töluverðan tíma eftir það. Sú bylting byrjaði sem andóf gegn hinum þaulsætna forseta Porfirio Díaz sem sat í meira en þrjátíu ár á valdastóli og því þjóðfélagi misskiptingar og óréttlætis sem stjórn hans lét eftir sig. Síðar þróaðist byltingin út í allsherjarátök milli stríðandi fylkinga og henni lauk ekki fyllilega fyrr en uppúr 1930 þegar helstu öfl byltingarinnar sameinuðust í einum stjórnmálaflokki sem síðar er þekktur undir skammstöfuninni PRI en sá flokkur hélt völdum allar götur eftir það fram til ársins 2000.

Eins og ég hef áður minnst á þá markar þetta ár einnig þau tímamót að 200 ár eru liðin síðan uppreisnin gegn yfirráðum Spánar hófst hér í Mexíkó þannig að þetta ártal er mikilvægur áfangi hér í landi.

Sum dagblöðin hér í landi hafa bent á að litlu sé hér að fagna. Mexíkanskt þjóðfélag er þjakað af misskiptingu auðs, félagslegu óréttlæti og mikilli spillingu auk þess sem að átök á milli glæpagengja færast í aukana með hverju árinu. Sjálfur tel ég þó að framtíð Mexíkó geti orðið nokkuð björt, sérstaklega ef tekst að koma einhverjum böndum á þessa smákónga í dópinu. Þrátt fyrir allt þá virðist hér vera töluverð viðleitni til að bæta ástandið og landið sjálft er mjög auðugt frá náttúrunnar hendi.

Fór ekki á neinar hátíðasamkundur þetta skiptið, var upptekinn að vinna og endaði með því þegar ég loks slapp út seint um kvöldið þá var metró stöðin mín lokuð. Því þurfti ég að ganga töluvert lengra til að komast á aðra stöð og bölvaði ég því öllum hátíðahöldum og þjóðernishyggju af því tilefni.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.