Archive for nóvember, 2010

Sitthvað um stjórnlagaþing

Held að eitt það besta sem kom út úr Hruninu hafi verið fyrirhugað stjórnlagaþing. Stjórnarskrá Íslands sem gilt hefur frá lýðveldisstofnun endaði því miður þannig að ekki er farið eftir henni nákvæmlega, sérstaklega í greinum sem snúa að forsetaembættinu. Löngu er tímabært að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni og ég vona að stjórnlagaþinginu takist vel til. Niðurstöður þjóðfundar eru mér að skapi og ég vona að flestar þær endi í endurbættri eða nýrri stjórnarskrá.

Sjálfur kemst ég ekki á kjörstað að sinni þar sem ég nenni ekki að eiga við ræðismann Íslands hér í borg. Ef einhver háttsettur í utanríkisráðuneytinu les þetta þá vantar okkur Íslendinga hér í Mexíkóborg skárri ræðismann, ég býð mig fram ef enginn annar fæst.

Eitt það merkilegasta við þetta allt saman finnst mér þó vera hvernig Netið getur nýst í þágu lýðræðis. Persónukjör er nú orðið miklu raunhæfari kostur þar sem hægt er að nota tól á Netinu til að greina mörg hundruð frambjóðendur á nokkrum mínútum. Sigtið er besta dæmið úr þessum kosningum. Án þess að ég sé sérstakur áhugamaður um persónukjör þá finnst manni að hér hafi þetta fræga blað verið brotið í sögu íslenskra stjórnmála.

Held reyndar að þegar öllu sé á botninn hvolft og þrátt fyrir nútímatækni muni flestir setja kunningja eða vini efst á sinn kjörseðil. Þegar yfir 500 manns eru í framboði þá held ég flest allir þekkja einhvern sem hefur boðið sig fram. Sjálfur þekki ég nokkra frambjóðendur þó ég hafi búið erlendis meira og minna í 5 ár.

Var að hugsa um að setja saman minn atkvæðaseðil en fyrst ég kem honum ekki til skila þá vil ég ekki svekkja þá sem hefðu lent efst á blaði.

Eitt af því sem ég vonast eftir er að ákvæði um ríkiskirkju verði felld burt með öllu. Vil vara fólk við því að kjósa frambjóðendur sem eru titlaðir séra eitthvað, þar eru fulltrúar forréttindastéttar mættir til að verja hagsmuni sína og ofurlaun. Þeim gæti tekist með málþófi og kjaftagangi að halda ríkiskirkjuákvæðum inni í nýrri stjórnarskrá. Það yrði þvílíkt áfall fyrir baráttuna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju ef þetta ákvæði fengi að halda sér í óbreyttri mynd og ætti eftir að seinka aðskilnaði um mörg ókomin ár og jafnvel áratugi.

Gerið það allavega fyrir mig að kjósa ekki meirihlutafasistann séra Örn Bárð á þetta þing. Slíkur maður á ekkert erindi á slíkt þing þar sem teknar verða mikilvægar ákvarðanir um mannréttindi. Prestar Íslands virðast telja réttindi þeirra til að boða fagnaðarerindið í opinberum skólum allt niður í leikskólaaldur vera mikilvægara en eitthvað mannréttindatuð. Ég vona innilega að enginn stuðningsmaður ríkiskirkjunnar komist á stjórnlagaþing. Kannski er það bjartsýni en ég er þó hóflega bjartsýnn á að það gangi eftir. Sjáum hvað setur.

Tags:

Mexíkanska byltingin 100 ára

Dagurinn í dag (gær) 20. nóvember er dagur mexíkönsku byltingarinnar en sú bylting hófst 1910 og stóð reyndar í töluverðan tíma eftir það. Sú bylting byrjaði sem andóf gegn hinum þaulsætna forseta Porfirio Díaz sem sat í meira en þrjátíu ár á valdastóli og því þjóðfélagi misskiptingar og óréttlætis sem stjórn hans lét eftir sig. Síðar þróaðist byltingin út í allsherjarátök milli stríðandi fylkinga og henni lauk ekki fyllilega fyrr en uppúr 1930 þegar helstu öfl byltingarinnar sameinuðust í einum stjórnmálaflokki sem síðar er þekktur undir skammstöfuninni PRI en sá flokkur hélt völdum allar götur eftir það fram til ársins 2000.

Eins og ég hef áður minnst á þá markar þetta ár einnig þau tímamót að 200 ár eru liðin síðan uppreisnin gegn yfirráðum Spánar hófst hér í Mexíkó þannig að þetta ártal er mikilvægur áfangi hér í landi.

Sum dagblöðin hér í landi hafa bent á að litlu sé hér að fagna. Mexíkanskt þjóðfélag er þjakað af misskiptingu auðs, félagslegu óréttlæti og mikilli spillingu auk þess sem að átök á milli glæpagengja færast í aukana með hverju árinu. Sjálfur tel ég þó að framtíð Mexíkó geti orðið nokkuð björt, sérstaklega ef tekst að koma einhverjum böndum á þessa smákónga í dópinu. Þrátt fyrir allt þá virðist hér vera töluverð viðleitni til að bæta ástandið og landið sjálft er mjög auðugt frá náttúrunnar hendi.

Fór ekki á neinar hátíðasamkundur þetta skiptið, var upptekinn að vinna og endaði með því þegar ég loks slapp út seint um kvöldið þá var metró stöðin mín lokuð. Því þurfti ég að ganga töluvert lengra til að komast á aðra stöð og bölvaði ég því öllum hátíðahöldum og þjóðernishyggju af því tilefni.

Tags: