Archive for október, 2010

Verðandi afmælisstrákur

Emil á tveggja ára afmæli næsta föstudag. Hann hefur þegar beðið um að afmælistertan verði skreytt með Lighting McQueen sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað sá kappi heitir upp á íslensku. Á spænsku gengur hann undir nafninu Rayo McQueen sem Emil ber fram sem Læjó. Myndin Cars er í miklu uppáhaldi hjá þeim bræðrum sem skiljanlegt er.

Ari hefur þegar tilkynnt að hans afmælisterta verði skreytt með Spiderman en af einhverjum ástæðum er Spiderman það heitasta í dag í hans heimi. Vildi fá skólatösku með Köngulóarmanninum en endaði með Buzz Lightyear í staðinn þar sem Spiderman töskurnar voru ekki að gera sig. Nýjustu rúmfötin hans eru hinsvegar myndskreytt með Spiderman, Iron man og Wolverine.

Líklega verður að passa upp á það ef Emil fær einhverja pakka þá verður Ari að fá einn eða tvo í sárabætur fyrir að eiga ekki afmæli fyrr en í janúar. Eignarétturinn er mikið til umræðu hjá þeim þessa dagana, hver á hvaða dót. Ég reyni að koma með sósíalískar lausnir á þeirra deilumálum en þær falla í grýttan jarðveg.

Ari fær daglega heimaverkefni úr skólanum sem yfirleitt snúast um að lita mynd, klippa og líma myndir og þess háttar föndur. Emil þurfti því að sjálfsögðu að fá sín heimaverkefni eins og almennilegur maður og litar því með Ara daglega.

Þeir bræður eru góðir vinir yfirleitt og leika sér fallega saman. Við gætum ekki verið hamingjusamari með þessa gutta á heimilinu.

Tags: ,

Reiðin brýst út

Mér líður stundum undarlega að sjá fréttir frá Íslandi. Ég hef ekkert verið á Íslandi síðan sumarið 2008 eða fyrir Hrunið. Það sem hefur gengið á síðan þá er eitthvað sem mín kynslóð hefur ekki haft neina reynslu af. Mótmælin í dag eru enn ein staðfestingin á því. Það hefði þurft að segja mér það tvisvar fyrir ekki svo löngu að forsetinn, forsætisráðherra og þingheimur ættu eftir að vera grýtt með eggjum við þingsetningu.

Sjálfur er ég fylgjandi alls kyns mótmælum en þetta er að leysast upp í vitleysu og ofbeldi sem á ekki eftir að hafa neitt jákvætt í för með sér.

Þegar íhaldið var við völd voru mótmælendur flokkaðir sem skríll og kommúnistar. Velti því fyrir mér hvernig þessir mótmælendur verða flokkaðir nú þegar íhaldið er í stjórnarandstöðu.

Tags: