Archive for september, 2010

Spænsk ættarnöfn og dr. Duran Duran

Hér í Mexíkó sem og í hinum spænskumælandi hluta heimsins bera flest allir tvöföld ættarnöfn. Fyrra ættarnafnið er ættarnafn föðurs og hið síðara er ættarnafn móðurinnar. Sem dæmi heita synir mínir Lárusson Carpio og elskulega konan mín heitir Anel Carpio Morales. Carpio nafnið er þá síðara ættarnafn drengjanna.

Stundum kemur það fyrir að bæði fyrra og seinna ættarnafnið er það sama, sérstaklega ef um algeng ættarnöfn er um að ræða. Einn spænskukennarinn minn heitir Maria Helena Sánchez Sánchez en það ættarnafn er eitt hið algengasta.

Ég uppgötvaði um daginn að einn vinnufélaginn ber ættarnafnið Duran og því er það mögulegt að heita hér Duran Duran. Ef viðkomandi ætti eftir næla sér í doktorsgráðu væri dr. Duran Duran ekki lengur eitt furðulegasta nafn kvikmyndasögunnar heldur hversdagslegt nafn hér ytra.

Sjóndeildarhringurinn víkkar svo sannarlega við það að búa erlendis.

PS. Veit að í Barbarella hét hann víst dr. Durand Durand en ég held að flestir tengja Duran nafnið frekar við hann.

Tags:

Mexíkó 200 ára

Hér í Mexíkóborg hafa gífurleg hátíðahöld staðið yfir þar sem þess er nú minnst að 200 ár eru síðan að sjálfstæðisbarátta Mexíkó, sem þá hét Nýi Spánn, hófst gegn spænsku nýlenduherrunum. Nú er orðið svo framorðið að ég hef ekki orku í að skrifa meira um þessa merkilegu daga en vonandi gefst mér tími til þess síðar.

¡Viva México!

Tags:

Arnþór tvítugur

Arnþór litli bróðir varð tvítugur í gær og sendi ég honum hamingjuóskir með þann áfanga. Veit að honum á eftir að farnast vel sama hvað á gengur heima. Vona að þau verði ekki mörg afmælin í viðbót þar sem við verðum erlendis, held að við eigum nú inni ófáar tertusneiðar.

Innilegar heillaóskir til þín kallinn, vona að þú eigir eftir að lesa þetta. Anel, Ari og Emil senda þér kveðju.

Tags: