Ari á leið í skóla

Ari Snær var skráður í skóla nú í vikunni. Hann hefur eins og Emil verið í pössun heimavið eða hjá frænkum sínum hér í borg fram til þessa. Nú verður aldeilis breyting þar á þar sem hann er á leið í fínan einkaskóla, Colegio Williams. Sá skóli var stofnaður 1928 og er í gömlu virðulegu húsi spölkorn frá þar sem við búum. Þegar gengið er í gegnum skólahliðið liggur leiðin í gegnum fallegan garð þar sem mikið er af skrautlegum blómum. Skólabyggingin sjálf er í klassískum stíl þar sem lofthæðin er mikil, líklega í kringum 5 metrar innandyra.

Hér í Mexíkó notast flestir við skólabúninga og það verður að segjast eins og er að búningurinn sem Williams notast við er nokkuð reffilegur. Ari hefur þegar fengið peysu og vesti auk fata sem notast er við í leikfimi. Allt er þetta skreytt með skjaldarmerki skólans en við eigum eftir að kaupa skyrtur og buxur. Fínast er þó blazer jakki sem krakkarnir klæðast á mánudagsmorgnum, dimmblár jakki með gylltum hnöppum. Á hverjum mánudegi hefst skólavikan hér í Mexíkó á hátíðlegri athöfn þar sem fáninn er heiðraður, þjóðsöngurinn sunginn og þessháttar skemmtilegheit. Besti nemandinn fær þann heiður að bera fánann við þessa athöfn og þá verða allir að vera í blazernum. Hljómar allt svona semi-fasískt en svona er þetta hér vestra.

Í þessum skóla fer kennslan að helmingi til fram á ensku, allt niður í yngsta leikskólastigið en kennt er til 18 ára aldurs í þessum skóla. Mér skilst líka að það sé ætlast til að hann læri heima frá byrjun. Fyrir þá sem ekki vita er Ari þriggja ára þannig að þetta kemur manni nokkuð spánskt fyrir sjónir. Samkeppnin hér í þessu landi er svo mikil að hún hefst strax við leikskólaaldurinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvað orðið hefði um mig í svona umhverfi, hvort að maður hefði náð á toppinn eða endað sem skóburstari á götunni.

Þetta mun hafa áhrif á daglega rútínu hér á heimilinu, Ari þarf að vera mættur í skólann 7.50 á morgnanna. Engum er hleypt inn eftir 8.00. Verður víst lítið um næturgöltur héðan í frá hjá mér nema kannski um helgar.

Sjálfur er Ari spenntur fyrir þessum nýheitum. Var vonsvikinn nú á þriðjudaginn þegar við fórum að skrá hann, hélt að hann gæti byrjað strax en skólinn hefst 23. ágúst. Man þegar að ég átti að byrja í Laugargerðisskóla 6 ára gamall í því sem þá hét forskóli 6 ára barna. Þverneitaði að fara og þurfti tiltal og nokkrar vikur þar til ég fékkst til að fara og kunni því svo vel að ég var í skóla til 27 ára aldurs og er enn að spá í frekara námi. Bæði Ari og Emil eru félagslyndari en ég var nokkurn tímann, tengist kannski því að alast upp í 27 milljóna manna borg.

Set inn mynd af Ara þegar hann verður kominn í dressið fyrir skólann í þarnæstu viku. Þetta verður bara gaman hjá honum.

Tags: ,

Lokað er fyrir andsvör.