Greinargóð skrif um hrunið

Á bloggi Egils Helgasonar er ágæt grein um hrunið og ástæður þess eftir Andra Helgason. Er sjálfur sammála öllu því sem þar kemur fram. Held þessum hluta hér til haga þar sem hann hittir svo rækilega í mark.

Á Íslandi voru varla bankar fyrir 30 árum.  Þetta voru eiginlega bara sparisjóðir eftir rússneskum fyrirmyndum.  En svo vorum við komin með bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en hagkerfi landsins — á rétt rúmlega 5 árum.  Og rökin eru þau að seðlabankinn gat ekki stoppað þetta?  Bara svona rétt til að setja þetta í samhengi.  Ef bankakerfið í Póllandi, sem fyrir 30 árum var með sömu bankahefð og Ísland, hefði verið hlutfallslega jafnstórt miðað við höfðatölu, þá hefði það dugað til að sjá allri Evrópu fyrir bankastarfsemi.

En þetta verður svo miklu verra og svo miklu vitlausara því meira sem maður hugsar um það.  Og um allt Ísland er fólk sem er alveg stórhlessa á því að “ríkið sé að ábyrgjast Icesave.”  Bankakerfið sem hrundi var 20-30 sinnum stærra heldur en Icesave, lang mest af því tapi fellur utan Íslands.  Kostnaður ríkisins við að taka á sig Landsbankann gæti orðið stærri en Icesave, sérstaklega ef enginn er að passa kassann.  Kostnaður ríkisins af ástarbréfunum er áætlaður um 300 milljarðar króna.  En við skulum eyða öllum tímanum í að kvarta yfir Hollandi og Bretum.  Þetta er allt þeim að kenna, þeir áttu að stoppa okkur.  Og ef það er ekki þeim að kenna, þá er það ESB að kenna að leyfa okkur að taka þátt í Evrópumarkaðnum en gefa okkur ekki barnaútgáfuna af lögunum þeirra sem skýra út hvernig innistæðutryggingar virka alls staðar í heiminum síðan í heimskreppunni 1929.

Það trúir því enginn (amk. ekki utan Íslands) að ein þjóð geti verið svona vitlaus, svona ábyrgðarlaus.  Það dettur engum erlendum, eða heilvita, manni í hug að þetta hafi ekki verið ein risastór svikamylla.  Og hvað gera svo Íslendingar?  Eitt ár liðið frá hruni og tveir piltar varla með pungapróf eru dæmdir fyrir smásvik.  Nefnd á vegum þingsins gefur litlar sem engar skýringar á af hverju dregst að skila skýrslu um málið.  Engir erlendir aðilar hafa verið fengnir til að rannsaka málin, utan ein góðhjörtuð kona sem kom hingað til að tala við sjónvarpsmann.  Hún fékk við illan leik og eftir svolítið japl líka skrifstofu.  Utan Íslands vill fólk fá svör og það vill ekki fá þau svör á íslensku.  Það vill fá þau á mannamáli.  Hreinskipt svör.  Heiðarleg svör.  Greinagóð svör.  Ekki “þetta er flókið.”  Ekki, “þetta tekur tíma.”  Ekki, “ekki benda á mig.”  Svör sem sýna nákvæmlega hvort að það var heimska eða glæpsamlegur ásetningur sem orsakaði einhverja stærstu gripdeild á sparifé sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð.

Tags: , ,

Lokað er fyrir andsvör.