Archive for desember, 2009

Jól, áramót o.s.frv.

Vona að lesendur mínir hafi haft það gott um jólin. Sjálfur hafði ég það nokkuð gott, fékk saltfisk á aðfangadag en það er einn vinsælasti hátíðarmaturinn hér í landi.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á næsta ári. Ártalið 2010 er falleg tala, vona að árið sjálft verði líka fagurt og mannbætandi.

Tags: , ,

Ísland sett á ís

Verður víst ekkert úr fyrirhuguðu jólafríi á Íslandi þessi jólin. Það fær víst að bíða betri tíma.

Tags:

Greinargóð skrif um hrunið

Á bloggi Egils Helgasonar er ágæt grein um hrunið og ástæður þess eftir Andra Helgason. Er sjálfur sammála öllu því sem þar kemur fram. Held þessum hluta hér til haga þar sem hann hittir svo rækilega í mark.

Á Íslandi voru varla bankar fyrir 30 árum.  Þetta voru eiginlega bara sparisjóðir eftir rússneskum fyrirmyndum.  En svo vorum við komin með bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en hagkerfi landsins — á rétt rúmlega 5 árum.  Og rökin eru þau að seðlabankinn gat ekki stoppað þetta?  Bara svona rétt til að setja þetta í samhengi.  Ef bankakerfið í Póllandi, sem fyrir 30 árum var með sömu bankahefð og Ísland, hefði verið hlutfallslega jafnstórt miðað við höfðatölu, þá hefði það dugað til að sjá allri Evrópu fyrir bankastarfsemi.

En þetta verður svo miklu verra og svo miklu vitlausara því meira sem maður hugsar um það.  Og um allt Ísland er fólk sem er alveg stórhlessa á því að “ríkið sé að ábyrgjast Icesave.”  Bankakerfið sem hrundi var 20-30 sinnum stærra heldur en Icesave, lang mest af því tapi fellur utan Íslands.  Kostnaður ríkisins við að taka á sig Landsbankann gæti orðið stærri en Icesave, sérstaklega ef enginn er að passa kassann.  Kostnaður ríkisins af ástarbréfunum er áætlaður um 300 milljarðar króna.  En við skulum eyða öllum tímanum í að kvarta yfir Hollandi og Bretum.  Þetta er allt þeim að kenna, þeir áttu að stoppa okkur.  Og ef það er ekki þeim að kenna, þá er það ESB að kenna að leyfa okkur að taka þátt í Evrópumarkaðnum en gefa okkur ekki barnaútgáfuna af lögunum þeirra sem skýra út hvernig innistæðutryggingar virka alls staðar í heiminum síðan í heimskreppunni 1929.

Það trúir því enginn (amk. ekki utan Íslands) að ein þjóð geti verið svona vitlaus, svona ábyrgðarlaus.  Það dettur engum erlendum, eða heilvita, manni í hug að þetta hafi ekki verið ein risastór svikamylla.  Og hvað gera svo Íslendingar?  Eitt ár liðið frá hruni og tveir piltar varla með pungapróf eru dæmdir fyrir smásvik.  Nefnd á vegum þingsins gefur litlar sem engar skýringar á af hverju dregst að skila skýrslu um málið.  Engir erlendir aðilar hafa verið fengnir til að rannsaka málin, utan ein góðhjörtuð kona sem kom hingað til að tala við sjónvarpsmann.  Hún fékk við illan leik og eftir svolítið japl líka skrifstofu.  Utan Íslands vill fólk fá svör og það vill ekki fá þau svör á íslensku.  Það vill fá þau á mannamáli.  Hreinskipt svör.  Heiðarleg svör.  Greinagóð svör.  Ekki “þetta er flókið.”  Ekki, “þetta tekur tíma.”  Ekki, “ekki benda á mig.”  Svör sem sýna nákvæmlega hvort að það var heimska eða glæpsamlegur ásetningur sem orsakaði einhverja stærstu gripdeild á sparifé sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð.

Tags: , ,

Leitin mikla

Er þessa stundina að skoða flug til Íslands. Það er flóknara nú en nokkru sinni þar sem í fyrsta lagi er ég alltof seinn í þessu og í öðru lagi þá megum við ekki snerta bandaríska grund á leið okkar. Emil litli er ekki með vegabréfsáritun og bandarísk yfirvöld leyfa slíku fólki ekki einu sinni að millilenda hjá sér. Að kría slíka áritun út úr kerfinu getur tekið nokkra mánuði og því ekki mögulegt í bili.

Hann fær vonandi bráðlega íslenskt vegabréf eins og bróðir sinn svo svona vandamál verða ekki að angra okkur framar.

Við stefndum að því að fara í gegnum Kanada í staðinn en uppgötvaði það þá að Icelandair flýgur einungis beint til Toronto og Halifax yfir sumarið. Einnig hafa Kanadamenn tekið upp þann ósið að rukka fólk frá minna ríkum löndum um vegabréfsáritanir síðan í júlí á þessu ári. Þeir afgreiða víst slíkar umsóknir á örfáum dögum en þetta er samt frekar þreytandi.

Því er eina færa leiðin að fara í gegnum Evrópu en það er ekki hlaupið að því að finna eitthvað á viðráðanlegu verði fyrir þá leið. Sýnist í augnablikinu að helst sé séns að finna eitthvað í gegnum London eða París. Sem betur fer er efnahagurinn hjá okkur hjónum kominn á blússandi siglingu aftur eftir kreppuárið mikla 2009 og við getum kannski leyft okkur að splæsa í flug til Íslands. Ætla þó ekki að lofa mér í nein áramótapartý strax, þetta er allt í skoðun.

Tags: , , ,

Darwin og trúleysið

Nýverið átti merkisbókin Uppruni tegundanna eftir Darwin gamla afmæli en 150 ár eru víst síðan að bókin kom út. Sjálfur á ég þessa bók, minnir að ég pantaði hana í jólagjöf þegar að íslenska þýðingin kom út.

Þessi bók er afar sérstök. Þarna var ný heimsýn í burðarliðnum, fersk kenning sem kollvarpaði ekki einungis náttúruvísindum þess tíma heldur hafði mikil áhrif á öll vísindi og fræði og hefur að sjálfsögðu enn. Bók sem breytti þankagangi fólks um alla framtíð.

Lífið sem eitt sinn var töfrað fram úr hendi guðanna varð skyndilega einfaldur hluti af náttúrunni, líkt og fjöll og stöðuvötn. Náttúrulegir ferlar voru eftir allt saman hönnuðir lífríkisins og mannkynið var einungis ein greinin á hinu gríðarmikla lífsins tré.

Til að gæta allrar sanngirni þá kom verk Darwins ekki alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum forðum, ýmislegt hafði gerst í lok 18. aldar og á þeirri 19. sem hafði þegar breytt sýn manna á náttúruna. En Darwin náði að vefa saman þá miklu þekkingu á hinni lifandi náttúru, sem tiltæk var á þeim tíma, saman við kenningu sína um náttúrulegt val sem gangverk þróunarinnar á þann hátt að fáir gátu andmælt. Að minnsta kosti ekki af miklu viti.

Trúarbrögð urðu fyrir miklum áhrifum af verkum Darwins og segja má að hann hafi gengið af bókstafstrú dauðri. Örvænting bókstafstrúaðra manna af öllum trúarbrögðum gagnvart þróunarkenningunni er enn þann dag í dag hlálegt fyrirbæri og sorglegt í senn. Harðlínumenn sem hafna því alfarið að eitthvað geti ekki verið bókstaflega satt í sínum trúarskruddum gera sig sífellt að fíflum í umræðum um þróun með gaspri sínu og vanþekkingu. Það er reyndar merkilegt að bókstafstrú skuli enn vera við lýði í upplýstum löndum, vísindin hefðu með réttu átt að ganga frá henni fyrir löngu. Sýnir vel ítök trúarbragða í samfélaginu.

Annars langar mig að játa það hér og nú að mér leiðist alltaf þegar Darwin, þróun o.s.frv. er stillt upp gegn trúarbrögðum sem einhverjum andstæðum. Jú, eins og ég hef sagt hér að ofan þá tel ég vísindin hafa drepið bókstafstrú. En það nær ekki mikið lengra en það. Þeir sem trúa á óljósari hugmyndir um guði eins og deistar eru lítt snortnir af uppgötvunum Darwins, þær falla alveg að þeirra hugmyndum því hægt er að beygja þær eftir þörfum.

Gagnvart þessum mýkri trúarbrögðum finnst mér sjálfum mun vænlegra til árangurs að nota heimspekileg rök því þau sýna fram á fáránleika trúarbragða betur en nokkuð annað. Margir hafa aldrei nokkurn tímann velt fyrir sér inntaki sinna trúarbragða heldur fylgja einhverjum fornum hefðum sem þeim var innrætt sem börn. Í mörgum tilvikum er nægjanlegt að ræða á gagnrýninn hátt um trú þeirra til að fólk sjái að sér.

Í umræðum við slíkt fólk leiðist mér að sjá Darwin dreginn á flot eins og allsherjarskýringu á öllu og öllum. Trúarbrögð hafa mörg aðlagast þessari heimsmynd, meira að segja kaþólska kirkjan hefur samþykkt þróunarkenningu Darwins. Þeir segja eingöngu að hún skýri ekki tilurð sálarinnar en allt hitt er gott og blessað. Í rökræðum við þessa tegund trúmanna er heimspekin beittara vopn.

Allavega þá er ekki hægt að setja samasem merki milli Darwins og trúleysis, ég þurfti svona mikinn texta til að koma því á framfæri.

Tags: , ,