Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður

Sé að það er allt vitlaust heima á klakanum yfir niðurskurði á fæðingarorlofinu. Held að menn ættu bara að prísa sig sæla yfir því að allt fæðingarorlofskerfið var ekki lagt niður eins og það lagði sig. Ríkissjóður er jú á hvínandi kúpunni og fæðingarorlof er ákveðinn lúxus sem einungis ríkar þjóðir geta leyft sér. Vita lesendur annars hvort svona kerfi fyrirfinnast í öðrum löndum?

Það er alltaf leiðinlegt að sjá á bak ýmsum þægindum sem fólk hefur vanið sig á. En svona er Ísland í dag víst og ekkert hægt að gera í því lengur. Leita verður allra leiða til að skera niður í opinberum rekstri og auðvitað er alltaf einhver sem tapar á því.

Menn verða einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er nokkrum klössum neðar eftir bankahrunið. Þakkið fyrir að Ísland fer ekki niður á mexíkanska stigið en á því stigi eru engar barnabætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof, ellilífeyrir o.s.frv. Hér í landi er hlegið að svona lúxusvandamálum eins og að einn mánuður verði klipinn af fæðingarorlofi.

Tags: , ,

7 andsvör við “Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður”

 1. Óli Gneisti

  Það er hægt að komast upp með ýmislegt ef maður hefur bara viðmiðið hvað allt sé lítið frábært í Mexíkó. Er það ekki annars stefnan hjá ykkur að komast þaðan burt?

  En hefurðu fylgst með umræðunni í raun? Það sem ergir mig er að upprunalega hugmyndin var að skera niður hámarksgreiðsluna og reyndar hlutfallið. Sá niðurskurður hefði mest komið við þá sem mest hafa. Það að taka burt mánuð kemur mest niður á þeim sem minnst hafa. Ég hefði verið miklu sáttari við upprunalegu hugmyndirnar.

 2. Sverrir

  Ég hugsa að ástandið í Mexíkó sé bara mjög fínt miðað við Sómalíu, þannig að Mexíkanar geta því ekki kvartað.

  Þetta eru gríðarlega vond rök hjá þér Lárus.

 3. Már

  Vel mælt. Við Íslendingar höfum það þrátt fyrir allt mun betra en flestir jarðarbúar. Staðan er bara þannig að það þarf að skera niður á öllum sviðum. Fæðingarorlofið á Íslandi er mjög ríflegt og því má alveg taka aðeins af því.

  Sverrir: Mexíkanar kvarta mun minna en Íslendingar. Það get ég sagt af reynslu. Við erum einhverjir mestu vælukjóar í heimi. „Ástandið“ á Íslandi er hálfgert djók þegar horft er til vandamála flestra ríkja heims. Maður skammast sín eiginlega fyrir þetta hrikalega væl í mörgum.

 4. svanur

  Það er búið að stofna marga vælukóra hér á klakanum sem syngja fallega.

  Og ótrúlega margir eru enn með höfuðið niður í sandinum.

 5. Freyr

  Lalli, þetta er nú eiginlega fyrir neðan þína virðingu. Rökin eru alveg glötuð.

 6. Eygló

  Já, fæðingarorlofskerfi fyrirfinnast í einhverri mynd í mörgum Evrópulöndum og Kanada. Þekki ekki til víðar. Á hinum Norðurlöndunum eru almennt betri fæðingarorlofsréttindi en á Íslandi t.d. er fæðingarorlof í Danmörku og Svíþjóð eitt ár.

  Mig langar líka að benda þér á að það er búið að skerða fæðingarorlofsréttindi tvisvar á Íslandi sl. ár. Um síðustu áramót var tekjutengingarþakið lækkað niður í 400 þúsund og 1. júlí var það lækkað niður í 350 þúsund.

  Auðvitað eru þetta lúxusvandamál! Flest sem Íslendingar eru að kljást við eru lúxusvandamál. Við erum ekki að kljást við hungursneyð eða stríð og flestir geta nýtt sér gott heilbrigðiskerfi og menntakerfi. En Ísland vill miða sig við hin Norðurlöndin og þessi ríkisstjórn fór af stað með norræna velferðarstjórn að leiðarljósi svo það er von að það fjúki í menn þegar þeir spila þessu út.

 7. Lalli

  Fólk er eitthvað að lesa meira úr þessu en efni er til. Rökin hjá mér eru einfaldlega þau að ríkissjóður er á hausnum og verður það um ókomin ár. Niðurskurður er óhjákvæmilegur í jafn dýru batteríi og fæðingarorlofspakkanum.

  Samanburðurinn við Mexíkó er meira til að hugga ykkur heima, þið hafið það þrátt fyrir allt mjög gott. Auðvitað eru það ekki rök í sjálfu sér fyrir einu eða neinu að ástandið sé verra annarsstaðar! Skil ekkert í ykkur að telja mig svona vondan í rökfærslum.