Archive for nóvember, 2009

Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður

Sé að það er allt vitlaust heima á klakanum yfir niðurskurði á fæðingarorlofinu. Held að menn ættu bara að prísa sig sæla yfir því að allt fæðingarorlofskerfið var ekki lagt niður eins og það lagði sig. Ríkissjóður er jú á hvínandi kúpunni og fæðingarorlof er ákveðinn lúxus sem einungis ríkar þjóðir geta leyft sér. Vita lesendur annars hvort svona kerfi fyrirfinnast í öðrum löndum?

Það er alltaf leiðinlegt að sjá á bak ýmsum þægindum sem fólk hefur vanið sig á. En svona er Ísland í dag víst og ekkert hægt að gera í því lengur. Leita verður allra leiða til að skera niður í opinberum rekstri og auðvitað er alltaf einhver sem tapar á því.

Menn verða einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er nokkrum klössum neðar eftir bankahrunið. Þakkið fyrir að Ísland fer ekki niður á mexíkanska stigið en á því stigi eru engar barnabætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof, ellilífeyrir o.s.frv. Hér í landi er hlegið að svona lúxusvandamálum eins og að einn mánuður verði klipinn af fæðingarorlofi.

Tags: , ,

Borðið það sem ég segi

Nokkuð undarlegt er að fylgjast með umræðunni um landbúnaðarmál heima í tengslum við væntanlega ESB aðild Íslands. Margir sem vilja ákveða fyrir fólk hvað það á að setja ofan í sig. Neytendur eiga ekki að hafa val um hvað þeir kaupa heldur eiga þeir að sætta sig við það sem íslenskir bændur framleiða. Talað er af megnri fyrirlitningu um erlend matvæli, þau kölluð menguð og þar fram eftir götunum.

Magnað að þessir sjö milljarðar af fólki sem fær ekki að njóta íslenskra matvæla geti yfirhöfuð lifað af.

Næsta rökrétta skref væri líklega að banna unglingum að spila aðra tölvuleiki en EVE-online þar sem íslenskir tölvuleikir eru mestir og bestir og tryggja þarf afkomu íslenskra forritara.

Í alvöru talað, það þarf að breyta íslensku landbúnaðarkerfi. Þeir sem verja það eru að verja mjög vondan málstað. Núverandi kerfi hefur ekkert gert nema fest bændur í fátæktargildru, gert þá háða ríkisstyrkjum, er mjög dýrt í rekstri fyrir íslenska ríkið og íslenskir neytendur borga margfalt hærra verð fyrir sína matarkörfu. ESB-aðild leysir ekki vandann en væri ágæt byrjun á því að brjóta upp kerfið.

Tags: , ,

Brjóstmylkingar

Emil Sær er alveg við það að falla úr flokki brjóstmylkinga (skelfilega er þetta erfitt orð). Hefur ekki fengið sopa frá mömmu sinni í tvo sólarhringa og fær þá væntanlega aldrei nokkuð meir mjólkurkyns úr þeirri átt. Gott að þessum hluta er lokið, eitt af þessum stóru skrefum í lífi ungbarna. Hann er einnig farinn að labba meðfram veggjum og húsgögnum en það er enn eitthvað í að hann fari að ganga sjálfur óstuddur.

Annars eru drengirnir báðir ljúfir og góðir, höfum verið einstaklega heppin með þá báða. Heilsuhraustir og kátir piltar. Reyndar fékk Emil einhvern vírus um daginn og fékk leiðinda bólur á andlit, handleggi og fætur. Þær eru reyndar að hörfa en hann hefur haft þær í u.þ.b. þrjár vikur. Anel fór með drenginn til læknis og hann sagði henni hvaða veira var þar að baki en hún gleymdi síðan nafninu þegar heim var komið, veirufræðingi heimilisins til mikilla vonbrigða. Þetta var víst ekkert hættulegt, eitthvað sem líkaminn ræður sjálfur fram úr með tímanum.

Talandi um brjóstmylkinga (tungan á mér fer í hnút við að segja þetta) þá fékk Anel kúnna um daginn frá Kúbu. Talið barst að brjóstmylkingum (eeerrrgh) og Kúbverjinn fræddi hana um þá skemmtilegu staðreynd að hann drakk móðurmjólkina fram að tólf ára aldri. Þetta finnst mér eiginlega sjúkt, get ekki að því gert. Hver vill hafa tólf ára krakka á brjósti? Hann sagðist alltaf hafa fengið sopann sinn þegar hann kom úr skólanum og líkaði það vel.

Svo þegar hann var fimmtán ára þá gifti hann sig. Hann fór semsagt úr einu parinu yfir í annað. Ætli það sé ekkert til á Kúbu sem heitir unglingsár? Held reyndar að þetta sé ekki normið á Kúbu en hvað veit maður svosem hvað þessir kommúnistar aðhafast?

PS. Velti því fyrir mér hvað ég fæ margar aukaheimsóknir frá BloggGáttinni fyrir að nefna brjóst í fyrirsögn.

Tags: , ,

Nóvember nauð

Það lítur út fyrir að nóvember verði með afbrigðum vondur bloggmánuður.

Heimferð?

Nú fer að styttast í að við hjónin þurfum að ákveða hvort við kíkjum á klakann um jólin eður ei. Væri óneitalega gaman að fá alvöru jól og áramót en hvorugt hef ég séð síðan 2004. Þetta ræðst víst allt af efnahaginum sem er reyndar á uppleið eftir erfið misseri.

Það er nokkuð áhugavert fyrir mig að sjá Ísland eftir hrun en við vorum síðast á landinu í ágúst á síðasta ári. Rétt áður en allt fór á hliðina. Ég er því í nokkuð góðri aðstöðu til að sjá hvað hefur breyst við hrakfarirnar.

En þetta kemur víst allt í ljós, ef við komum ekki um þessi jól þá verður það bara síðar. Heimskreppan er víst enn í fullum gangi og því ekki fyrir hvern sem er að fljúga á milli heimsálfna.

Tags: ,