Yfirvofandi borgarastyrjöld?

Nei, ekki á Íslandi. Fólk er svo siðmenntað og dannað þar, því dettur ekki í hug að fara út á götur með vopn til að plaffa hvort annað niður. Sem betur fer.

Hins vegar er margt í gangi hér í Mexíkó. Einkavæðingardraugurinn er hér í fullu fjöri og nú hefur verið lagt í raforkukerfi landsins. Skömm að segja frá því en ég hef ekki fylgst nógu vel með því máli, verð líklega seint pistlahöfundur á RÚV með þessu áframhaldi.

Hvað sem því líður þá er ástandið mjög eldfimt hér í landi. Einn kúnni Anelar er fréttakona sem hélt því víst fram að borgarastyrjöld gæti verið yfirvofandi. Fólk í fjölmiðlum á víst að vita svona hluti þannig að rétt er að taka þessu alvarlega.

Allavega, ef borgarastyrjöld brýst út í Mexíkó þá lásuð þið það fyrst hér. Sjálfur hef ég mátulega miklar áhyggjur af þessu í bili, er hvort eð er hálfgert stríðsástand hér þar sem baráttan er afar hörð á milli eiturlyfjasala og hersins. Þetta er þó ekkert sem maður verður var við í þessu daglega lífi hér. Kannski fer væntanleg borgarastyrjöld fram hjá manni líka.

Tags:

Lokað er fyrir andsvör.