Archive for október, 2009

Leiðtogadýrkun

Viðskiptablaðið klæðskerasaumaði víst könnun fyrir stuttu þar sem fram kom að flestir treysta Davíð Oddssyni til að leiða Ísland út úr kreppunni, þ.e. 24% þeirra sem svöruðu. Ég ætla nú ekki að fjalla um fáránleika könnunarinnar né heldur furðulegar niðurstöður, nóg er nú gert grín að þessu í vefheimum, heldur þetta fyrirbrigði leiðtogadýrkun.

Mér hefur alltaf fundist það undarlegt fólk sem hefur þörf fyrir leiðtoga og tel ég þennan ósið ættaðan úr trúarbrögðunum. Leiðtogi, einhver sem leiðir fólkið í gegnum lífið eins og frelsari. Menn smella jafnvel myndum af Leiðtoganum upp á vegg heima hjá sér, kynna sér skoðanir hans á málum áður en þeir mynda sínar eigin, kjósa hann samviskusamlega og hans menn hvar sem því verður við komið, mæra hann við öll tækifæri o.frv.

Þegar menn höfðu kónga hér áður fyrr og ekkert val um hver stjórnaði landsmálum þá er þessi leiðtogadýrkun kannski ögn skiljanlegri. Menn gátu jú lent í miklum vandræðum sýndu þeir ekki yfirvöldum nægjanlega hollustu, jafnvel var líf þeirra að veði. Nú á dögum í lýðræðisríkjum er svona leiðtogadýrkun í besta falli hallærisleg. Hver þarf leiðtoga? Getur fólk ekki hugsað fyrir sig sjálft? Svarið er reyndar nei, margir eru ófærir um sjálfstæða hugsun því þeim hefur verið innrætt hjarðhegðun alla sína tíð.

Öll leiðtogadýrkun fer óstjórnlega í taugarnar á mér, hvort sem um er að ræða fólk sem dýrkar ákveðna stjórnmálamenn eða það hyski sem telur sannleikann um lífið og tilveruna falda í bókum eftir leiðtogann. Hvort sem bókin er eftir Marx eða Friedman, eða jafnvel Biblían. Fólk sem fellur í gryfju hugsunarletinnar, hættir að velta vöngum og fylgir straumnum eins og dýr í hjörð.

Sjálfur hef ég enga leiðtoga né fyrirmyndir. Ég læri af því sem vel er gert eða illa, fylgist með því sem fólk segir en móta mína afstöðu sjálfur í hverju sem er. Á klakanum hef ég kosið VG síðustu árin en Steingrímur J er ekki leiðtogi lífs míns. Kannski fer öll leiðtogadýrkun í mínar fínustu allar götur eftir að ég las Gerplu fyrir um áratug sem hlýtur að teljast ein magnaðasta ádeila á leiðtogadýrkun sem skrifuð hefur verið.

Fólk sem þarf sífellt á leiðtogum að halda til að segja sér hvað skal gera og leiða það í gegnum lífið eru aumingjar, andlegar rolur sem mættu gjarnan herða sig upp. Íslendingar þurfa enga leiðtoga til að komast í gegnum hrunið, þeir þurfa skynsamt fólk við stjórnvölinn sem taka faglegar ákvarðanir. Íslenska þjóðin á að leiða stjórnmálin en ekki öfugt.

Yfirvofandi borgarastyrjöld?

Nei, ekki á Íslandi. Fólk er svo siðmenntað og dannað þar, því dettur ekki í hug að fara út á götur með vopn til að plaffa hvort annað niður. Sem betur fer.

Hins vegar er margt í gangi hér í Mexíkó. Einkavæðingardraugurinn er hér í fullu fjöri og nú hefur verið lagt í raforkukerfi landsins. Skömm að segja frá því en ég hef ekki fylgst nógu vel með því máli, verð líklega seint pistlahöfundur á RÚV með þessu áframhaldi.

Hvað sem því líður þá er ástandið mjög eldfimt hér í landi. Einn kúnni Anelar er fréttakona sem hélt því víst fram að borgarastyrjöld gæti verið yfirvofandi. Fólk í fjölmiðlum á víst að vita svona hluti þannig að rétt er að taka þessu alvarlega.

Allavega, ef borgarastyrjöld brýst út í Mexíkó þá lásuð þið það fyrst hér. Sjálfur hef ég mátulega miklar áhyggjur af þessu í bili, er hvort eð er hálfgert stríðsástand hér þar sem baráttan er afar hörð á milli eiturlyfjasala og hersins. Þetta er þó ekkert sem maður verður var við í þessu daglega lífi hér. Kannski fer væntanleg borgarastyrjöld fram hjá manni líka.

Tags:

Á leið til Kanada

Nú höfum við Anel hafið mikið umsóknarferli sem miðar að því að flytja fjölskylduna til Kanada á næsta ári. Ferlið tekur um víst um ár þannig að við förum líklega þangað seint a næsta ári. Stefnum að því að búa í Toronto.

Eftir þriggja ára búsetu í Kanada fær maður víst ríkisborgararétt og heldur honum alltaf, sama hvar búið er eftir það. Með honum fylgja víst ýmis fríðindi eins og frí menntun og heilsugæsla.

Ef einhver hefur áhuga á því að flýja kreppuna og fara til Kanada þá getið þið haft samband. Við gerum þetta í samstarfi við lögfræðistofu sem sér um umsóknir frá A til Ö og þá vantar alltaf kúnna. Rétt að taka fram að barnafólk er sérstaklega velkomið til Kanada, skortir víst grislinga þar í landi.

Nú get ég líklega titlað mig vesturfara agent, var ekki löngu tímabært að endurvekja þá starfsgrein?

Tags: ,

Sölumaður hvítra tanna

Eyddi allri helginni í bás konunnar á sýningu sem tileinkuð var brúðkaupum. Var hún haldin í hinu tröllvaxna World Trade Center hér í borg þar sem við eigum einnig okkar tannlæknastofu. Ráðstefnuhúsið er reyndar í nokkurri fjarlægð frá turninum þar sem við höfum aðsetur en þetta heitir víst allt WTC.

Kynnti þar fyrir væntanlegum brúðhjónum nýjasta nýtt í aðferðum við að gera tennur hvítar auk annarra aðgerða til að flikka upp á brosið. Hef gert eitthvað svipað fyrir Anel nokkrum sinnum áður þannig að ég á í engum vandræðum með þetta. Höfðum alveg ótrúlega mikið upp úr krafsinu. Nú er bara að bíða og sjá hvort fólkið mætir á stofuna á næstu vikum.

Merkilegast við þetta var þó að sjá manninn sem var í básnum á móti okkur sem seldi inniskó og sandala í gríð og erg. Það er víst þannig hér í brúðkaupum að konurnar draga af sér skóna þegar líður á kvöldið og dansa berfættar þegar þær verða þreyttar á hælunum. Þarna sáu kapítalistar sér leik á borði og byrjuðu að framleiða skó…. til að dansa skólaus. Þessa inniskó og sandala er hægt að fá áletraða með t.d. nöfnum brúðhjóna, dagsetningu o.s.frv. Nú er víst í tísku að útvega öllum veislugestum í brúðkaupum svona skó til minningar um viðburðinn og til þess að dansa í…. berfætt.

Mér finnst þetta magnað dæmi um hvernig er hægt að skapa verðmæti út úr engu, skó til að dansa í skólaust. Veit að kallinn sem seldi þetta skrifaði undir samninga fyrir hálfa milljón ISK fyrsta daginn, föstudag, sem var lang rólegasti dagurinn. Velti því fyrir mér hvað hann seldi fyrir mikið yfir helgina.

Tags:

Emil eins árs

Yngri sonurinn á afmæli í dag. Ár liðið síðan Emil Sær kom í heiminn hér í Mexíkó. Verður lítið um veisluhöld í dag vegna anna en við bjóðum í afmæliskaffi á sunnudaginn.

Fórum í stúdíó fyrir um tveimur vikum og fengum nokkrar fínar myndir af okkur öllum. Læt eina fylgja með af afmælisbarninu í tilefni dagsins.

Afmælisstrákurinn

Tags:

Óhefðbundnar lækningar eru kreddur

Mér hefur alltaf fundist þetta orðasamband „óhefðbundnar lækningar“ vera villandi. Sjálfur tengi ég óhefðbundið við eitthvað ferskt og nýtt, eitthvað sem fer út fyrir rammann.

Sumar þessara óhefðbundnu lækninga eru ævafornt fyrirbrigði eins og t.d. nálastungur og jurtalækningar. Nálastungur hafa verið stundaðar í einhver þúsund ár og hafa ekkert breyst í tímans rás. Erfitt er að finna dæmi um hefðbundnara fyrirbrigði í nútímanum.

Nær væri í sögulegu samhengi að tala um nútíma læknavísindi sem óhefðbundnar lækningar, sé litið til langs tíma.

Best væri þó að nota hið góða íslenska orð skottulækningar og/eða kukl yfir það sem nú kallast óhefðbundnar lækningar. Vafasamt er að tengja orðið lækningar við margt það sem fram fyrir undir merkjum græðara og annara skottulækna.

Tags: , ,

Veikindi

Ég man þegar maður var einhleypur og veikindi voru frekar lítið mál. Maður lokaði sig af heima hjá sér og slakaði á í einhvern tíma, lét pestir og plágur líða hjá eins og lítið sé.

Með litla herramenn á heimilinu hefur þetta breyst töluvert. Anel náði sér í einhverja sýkingu í hálsi fyrir um 10 dögum af einum kúnnanum sem fljótt barst yfir til drengjanna og svo á endanum til mín. Því höfum við lítið sem ekkert sofið undanfarna viku. Maður rýkur upp nokkrum sinnum á nóttu til að huga að krílunum þrátt fyrir að maður vildi helst ekkert gera annað en að sofa í svona 20 tíma samfleytt.

Fórum til læknis i dag sem greindi hálssýkinguna og skammtaði sýklalyf fyrir drengina. Reyndar var það umhugsunarverð heimsókn, fórum án þess að eiga pantaðan tíma á opinbera heilsugæslustöð, fengum viðtal við lækni og sýklalyf án þess að borga einn pesó fyrir. Læknirinn var reyndar ekkert sértaklega viðmótsgóður en maður býst heldur ekki við miklu þegar ekkert er borgað.

Gæti trúað því að heilbrigðiskerfið hér sé á sumum sviðum fremra því sem tíðkast hjá stóra ríka nágrannanum í norðri.

Tags: ,

Nýr heilbrigðisráðherra er vanhæfur

Álfheiður Ingadóttir er ekki heppilegur heilbrigðisráðherra. Reyndar er leitun á verri valkosti úr þeim þingmönnum sem stjórnin samanstendur af. Sjá t.d. þessi ummæli á Alþingi fyrir um ári síðan.

Ég tel ástæðu til að minna á nauðsyn þess að óhefðbundnar lækningar fái viðurkenningu í heilbrigðisþjónustu okkar og sérstaklega hvatning til að breyta líferni og bæta mataræði og hreyfingu. Það er mikilvægt að við leggjum meiri áherslu á þessa hluti en verið hefur og meiri áherslu en á lyf og læknisaðgerðir. #

Á nú að mylja meira undir bölvað kuklið í íslenskri heilbrigðisþjónustu? Þetta er ömurlegt vægast sagt. Slær út Svandísi í ruglinu. Ég vil fá Ögmund aftur!

Tags: