Archive for september, 2009

Sagan endalausa

Frábært. Svo virðist sem það hafi verið gulltryggt á Íslandi í síðustu viku að pólitísk umræða á áfram eftir að snúast í kringum orð Davíðs Oddssonar. Áður fyrr voru það drottningarviðtöl í sjónvarpi, hér eftir verða það leiðarar Morgunblaðsins.

Nýja Ísland féll undraskjótt í far hins gamla.

Tags:

Hvernig draga má úr líkum á ofnæmi

Á Facebook og víðar sé ég hvernig Íslendingum fjölgar eins og sauðfé í maí. Kannski er þetta þriðja heims einkennið. Að stóla á börnin til að framfleyta sér í ellinni nú þegar hriktir í stoðum velferðarkerfisins vegna fjárskorts.

Hvað um það. Þegar kemur að því að hugsa um litlu krílin er margt sem þarf að athuga. Mig langar aðeins hér til að miðla af reynslu minni varðandi ofnæmin sem hrjáir margan nútímamanninn.

Nú er ofnæmi óhemju flókið fyrirbæri og tengt mörgum þáttum. Talað er um að ónæmiskerfið sé ekki nægjanlega virkjað í barnæsku vegna hreinlætis og notkun lyfja og sérstaklega er skortur á sníkjudýrum á okkar dögum nefndur sem einn veigamikill þáttur. Mataræði ungbarna er einnig mjög mikilvægt og ég vil aðeins miðla að því sem veit í þessum efnum til lesenda minna sem margir hverjir eru komnir með eitt lítið eintak af manneskju í hendurnar.

Barnalæknirinn okkar er einnig ónæmisfræðingur og gaf okkur ýmis góð ráð til að koma í veg fyrir ofnæmi í drengjunum. Reyndar er hann að vinna í PhD gráðu í ónæmisfræði ofan á læknisgráðuna og tvenna sérhæfingu. Hann er pínu klikk en ég held að hann hafi gott vit á þessum fræðum.

Hann ráðlagði okkur semsagt að börnin ættu ekki að fá neina aðra fæðu fyrstu sex mánuðina en mjólk. Helst þá móðurmjólkina að sjálfsögðu. Eftir sex mánuði má byrja að gefa þeim eingöngu grænmeti, soðið og maukað. Byrja ætti á einni tegund og gefa hana eingöngu í nokkra daga. Ef engin viðbrögð eru merkjanleg þá má prófa aðra tegund og svo koll af kolli þar til barnið borðar nokkrar tegundir af grænmeti. Flest það grænmeti sem hann mælti með fæst ekki heima fyrir utan gulrætur svo ég veit ekki alveg hvað ég get ráðlagt í ljósi séríslenskra aðstæðna.

Eftir það má byrja á kjöti um sjö mánaða aldurinn. Best er að láta barnið prufa kjúkling fyrst og svo rautt kjöt. Alls ekki egg, fisk eða sjávarfang fyrr en í fyrsta lagi þegar barnið er eins árs gamalt. Eggin þó líklega aðeins fyrr, um 10-11 mánaða aldurinn.

Um átta eða níu mánaða aldurinn má fara yfir í ávexti. Líklega kom það mér mest á óvart og ég veit að margir gera sér ekki grein fyrir þessu. Hef séð myndir af agnarsmáum börnum vera smjattandi á ávaxamauki, jafnvel undir hálfs árs aldri. Ávextir geta valdið slæmum ofnæmum, líklega eru jarðarberin frægust þar. Best er að byrja á eplum og perum og fara svo yfir í aðrar tegundir.

Sjálf höfum við ekki gefið Ara jarðarber þótt að hann sé tveggja og hálfs árs gamall, er hreinlega óþarfi að gefa börnum það sem þau biðja ekki um.

Aðrar slæmar fæðutegundir eru súkkulaði, rækjur og sumar hnetur. Fer best á því að forðast allt þetta a.m.k. þar til eins árs aldrinum er náð. Helst lengur.

Rétt að taka það fram að ég er ekki sérfróður í þessum málum, er einungis að miðla því sem okkar barnalæknir kenndi okkur. Eflaust eru einhverjir fræðingar ósammála þessu og kannski er minnið að svíkja mig varðandi eitthvað, hvet því lesendur til að leita sér sjálfir upplýsinga.

Anel er þjökuð af mörgum fæðuofnæmum og þessi skratti getur erfst, því vorum við sérstaklega varkár hvað þetta varðar.

Ef einhver ætlar nú að ybba gogg yfir þessu og tala um börnin sín sem lifðu á súkkulaðihjúpuðum jarðarberjum og rækjusalati frá tveggja mánaða aldri og fengu engin ofnæmi þá bið ég viðkomandi fyrirfram að loka gogginum. Þetta gildir það sama og um allt í þessum fræðum, hver einstaklingur er sérstakur. Hægt er að finna dæmi um fólk sem reykti eins og strompar frá unglingsárum þangað til það varð 100 ára og varð aldrei misdægurt. Segir þó ekkert um hollustu reykinga, skoða verður hópa fólk en ekki miða allt við einn einstakling.

Vona að þetta geti e.t.v. gagnast einhverju nýbökuðu foreldrinu.

Tags: ,

Hægrimenn elska Jóhönnu

Fæ ekki betur séð af umræðunni heima en að Jóhanna Sig sé vinsæl í starfi. Einnig hjá hægri mönnum þar sem helsta umkvörtunarefni þeirra er að hún sjáist ekki nóg í fjölmiðlum.

Tags:

Sjö ár samfleytt á blogginu

Um daginn var ég að kvarta og kveina yfir því að Blogger var búinn að fleygja gamla blogginu mínu. Þetta þótti mér afleitt þar sem ég var að vinna í því að flytja það hingað yfir til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Það vandamál leystist þó af sjálfu sér þar sem gamla bloggið dúkkaði aftur upp af sjálfdáðum skömmu síðar.

Rétt í þessu var ég svo að ljúka við að flytja síðustu færsluna yfir, sem verður þá fyrsta færslan í þessu ritsafni. Hún var skrifuð þann 10. ágúst 2002 og var svohljóðandi: „Eign er stuldur“. Líklega var maður róttækari í hugsun hér áður fyrr. Verð reyndar að viðurkenna að þetta mottó anarkistanna gekk ekki alveg upp fyrir manni þá frekar en nú. Var í raun meira til að prófa bloggkerfið heldur en pólitísk yfirlýsing.

Hvað um það. Gamla bloggsíðan var upphaflega hugsað sem hópblogg fjögurra ungra manna sem áttu það sameiginlegt að þeir voru að flytja frá Akranesi til Reykjavíkur til að búa saman í húsi einu á Óðinsgötunni. Sverrir var upphafsmaður þessa bloggs. Sjálfur var ég svo eftirá að ég vissi ekki hvað orðið blogg þýddi á þessum tíma.

Kommúnan á Óðinsgötunni var líklega einn skemmtilegasti íverustaður sem ég hef búið í. Sú sæla tók þó enda um vorið og hópurinn tvístraðist, þó ekki mjög. Ég fór í líffræðiferð til Tælands um vorið og sneri aftur til Reykjavíkur í júní 2003 og leigði þá hjá Stínu systur eftir það. Var þar allt þar til ég fór til Svíþjóðar í ágúst 2005 til að stunda meistaranám. Kynnist þar minni heittelskuðu eins og frægt er orðið. Flutti svo loks vestur um haf í desember 2006 og hef verið hér í Mexíkóborg meira og minna síðan.

Frá því að ég hóf áðurnefnd bloggskrif í ágúst 2002 hef ég alltaf haldið þessu við. Stundum skrifaði ég mikið, stundum lítið. Undanfarið hefur þessi síða ekki verið mjög virk sökum tímaskorts. En þó hef ég alltaf sett inn eina og eina færslu aðdáendum mínum til óblandinnar ánægju.

Reyndar fer ég að verða með langlífari bloggurum. Var ekki einn af þeim fyrstu en þó í fyrra fallinu með þetta blogg. Hef svo bloggað a.m.k. eitthvað í hverjum mánuði nú í sjö ár samfleytt. Man ekki eftir mörgum bloggurum sem hafa náð því. Margir byrjuðu á undan mér en eru nú hættir. Sumir hafa byrjað og hætt og byrjað svo aftur síðar o.s.frv.

Af þeim sem ég fylgist með reglulega er það líklega einungis Matti sem hefur verið í þessu lengur en ég og hefur ekki tapað taktinum. Björn Bjarna slær mér líklega einnig við og einhverjir fleiri, katrín.is man ég t.d.

Af öðrum afrekum þá hef aldrei brostið í grát á netinu yfir því hvað allir eru vondir við mig og/eða flutt mig yfir á læst blogg. Lokuð blogg eru frekar furðuleg fyrirbæri fyrir mér en það hefur víst hver sinn smekk. Ég hef líklega aldrei verið nógu vinsæll eða umdeildur til að fólk hafi nennt að rífast við mig eða haft í frammi dólgslæti á síðunni minni.

Það stappar dálítið nærri geðveiki að hafa flutt allt gamla bloggið mitt handvirkt, færslu fyrir færslu, hingað yfir. En minningarnar eru dýrmætar, sérstaklega þegar þær verði eldri. Ég er ekki mjög minnisgóður sjálfur og því er ómetanlegt að hafa þetta blogg sem hefur skráð flest allt markvert og ómarkvert sem á daga mína hefur drifið. Megnið af því sem ég hef skrifað er bölvað þrugl, sérstaklega frá fyrstu árunum en það skiptir litlu. Ég hef gaman af þessu.

Geri ráð fyrir því að halda áfram að blogga út í hið óendanlega. Þetta er of skemmtilegt og nauðsynlegt að halda utan um það sem gerist í lífinu. Verður helsta heimildin þegar ævisaga mín verður rituð og gefin út.

Stærsti gallinn er líklega sá að þetta blogg hefur líklega útilokað mig frá þáttöku í pólitík. Ef ég færi að skipta mér eitthvað af hlutunum verða gömul ummæli um hitt og þetta, gríðarlega ómálefnaleg, dregin upp og ég stimplaður sem vitleysingur í fjölmiðlum. Enda fer ég ekkert að neita því að ég er einn slíkur.

VIÐBÓT. Bent hefur verið á það í andsvörum að Óli Gneisti hefur bloggað samfleytt frá febrúar 2002. Er líka með Stefán Pálsson á Blogggáttinni sem er eldri í hettunni en ég. Guðrún Helga fær svo líka viðurkenningu fyrir að hafa haldið út jafn lengi og ég en hún byrjaði 11 dögum á eftir mér.

Tags: ,