Archive for ágúst, 2009

Orkulaus nýbúi

Fátt í þessum heimi er jafn lýjandi og að standa í biðröð hjá hinu opinbera í Mexíkó. Mig langar helst að fara í bælið og sofa til morguns.

Þrír og hálfur tími í dag í hinum ýmsu biðröðum, hef þó líklega náð að afreka það að vera orðinn innflytjandi eftir allt þetta. Nýbúi í Mexíkó, hver hefði grunað það fyrir nokkrum árum?

Hefur kostað óteljandi ferðir á hinar ýmsu stofnanir og ýmislegt annað vesen. Er kominn með bullandi Stokkhólms-einkenni eftir þetta, mér finnst kerfið hérna og skrifræðið frábært núna. Best í heimi, Íslendingar eiga margt ólært varðandi hvernig er hægt að lengja umsóknarferli og slíkt nánast út í hið óendanlega. Meira að segja sænska skrifræðið er smávægilegt og notendavænt í samanburði við það hér í Vesturheimi.

Tags: ,

Sjálfskipaðir sérfræðingar

Frábær grein í Morgunblaðinu í dag um vísindi eftir Eirík Sigurðsson líffræðing. Eftirfarandi ummæli hitta vel í mark, þetta er einungis hluti af greininni.

Sjálfskipaðir sérfræðingar um erfðabreytt bygg

Annað dæmi um hversu afvega umræða um vísindaleg málefni á það til að fara, er umræða um ræktun á erfðabreyttu byggi hér á landi í vor. Þar var enginn skortur á sjálfskipuðum sérfræðingum sem vöruðu almenning við þeirri stórkostlegu hættu sem fælist í því að »sleppa erfðabreyttum lífverum í íslenskri náttúru«. Í fjölmiðlum var það áberandi að vísindaleg og tilfinningaleg sjónarmið voru lögð að jöfnu. Sjálfskipuðum sérfræðingum var gefið sama vægi og raunverulegum vísindamönnum á þessu sviði. Þannig tókst um tíma að sá fræjum efasemda meðal almennings, þó engin raunveruleg hætta sé fólgin í því að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi, hvorki fyrir umhverfið né menn. Þessi umræða hefur nú leitt til þess að óprúttnir einstaklingar hafa eyðilagt mikilvæga tilraunaræktun nýsköpunarfyrirtækisins ORF Líftækni í Gunnarsholti. Það er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt vísindasamfélag að umræðan hér sé orðin svo afvegaleidd að hópur fólks, sem neitar að taka vísindaleg rök gild, skuli vera tilbúinn að styðja aðgerðir að fyrirmynd erlendra öfgahópa.

Tags: ,

Vatnslaust

Vatnsbirgðir Mexíkóborgar minnka með hverjum deginum og nú er svo komið að þær gætu klárast i febrúar á næsta ári, hefur maður heyrt. Hafa komið dagar í ár þar sem hefur verið skrúfað fyrir vatnið í nokkra tíma en undanfarna þrjá daga hefur vatnið rétt komið í einn-tvo tíma á dag. Þetta veldur okkur miklum vandræðum, maður verður að sæta færi til að baða strákana og reyna að safna vatni á meðan það er fáanlegt.

Ástæðan fyrir þessum vatnsskorti er aðallega gríðarlegur fólksfjöldi sem býr á þessu svæði, yfir 25 milljónir, og úr sér gengið dreifingarkerfi. Sagt er t.d. hér í þessari grein frá Time að kerfið sé svo lekt að 40% vatnsins tapist á leið til neytanda.

Mikill áróður hefur verið í gangi undanfarið sem miðar að því að fá fólk til að spara vatnið. Ekki láta renna meðan þið burstið tennurnar, setið flösku í vatnskassann á klósettinu til að spara einn líter þegar sturtað er niður, farið  í sturtu ekki bað o.s.frv.

Þetta er ekki að ástæðulausu þar sem kemur einnig fram í þessari grein að Mexíkóbúar nota mun meira vatn að meðaltali heldur en margar borgir í Evrópu. Um 300 lítra á dag sem ætti að vera hægt að minnka mikið með ábyrgri notkun.

Segir sig sjálft að allar áhyggjur af svínaflensunni eru bara grín miðað við það möguleika að vatnsbirgðir borgarinnar séu á þrotum. Þetta er sérstaklega slæmt nú þegar að nægar birgðir ættu að vera til í lok regntímabilsins. Alltaf eitthvað stuð hér í bæ.

Tags: , ,

Fáfræði og heimska veldur milljónatjóni

Svo að ég haldi áfram með þemað frá síðustu bloggfærslu þá ákvað hópur manna sem gengur undir nafninu Illgresi að ráðast til atlögu gegn ORF Líftækni í gær. Tilraunareitur þeirra í Gunnarsholti var eyðilagður og allt byggið er ónýtt.

Þegar að heimskan og firringin er komin á þetta stig á litla Íslandi að ráðist sé gegn fyrirtækjum fyrir það eitt að stunda rannsóknir í líftækni þá er ljóst að stórt vandamál er á ferðinni. Það verður að auka fræðslu og þekkingu almennings á líftækni og erfðabreyttum lífverum til að svona rugl nái ekki fótfestu.

Allt sem gagnrýnendur þessarar tækni hafa haft fram að færa má flokka í þrennt; misskilningur, blekkingar og/eða kjaftæði. Afhverju er verið að hlusta á þetta fólk sem ekkert vitrænt hefur haft fram að færa?

Skrifa kannski meira um þetta síðar þegar ég er ekki hálfsofandi við skjáinn. Á meðan má lesa nýja frétt hér um þessa stórhættulegu líftækni.

Tags: ,

Umhverfisráðherra á villigötum

Ég var fluttur af landi brott þegar Svandís Svavarsdóttir varð pólitísk stjarna í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Hef því lítið lesið  eða heyrt frá henni hér í útlandinu. Nú á hún víst að heita umhverfisráðherrra og svona hefst ferillinn hjá henni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að Ísland muni slást í hóp ríkja sem lagst hafa gegn erfðabreyttri ræktun matvæla innan ESB verði landið aðili að Evrópusambandinu. #

Það er satt best að segja ömurlegt að heyra svona tal. Erfðabreytt matvæli eru helsta von okkar í baráttunni við hungurvofuna sem sífellt vofir yfir fátækari löndum. Skammsýnir og fáfróðir stjórnmálamenn sem hafa lagst gegn þessari tækni vegna einhverra tilfinningaraka eða trúarbragða hafa valdið ómældu tjóni nú þegar og seinkað nauðsynlegri framþróun í þessum málum.

Almenn samstaða er um það meðal vísindamanna að engin hætta stafi af erfðabreyttum matvælum sé vissum varúðarráðstöfunum fylgt. Ég vona að einhver menntaður á þessu sviði sé starfandi í umhverfisráðuneytinu sem getur frætt ráðherrann um þessi mál áður en það verður um seinan.

Tags: ,

Fyrripartur II

Liðin eru meir en þrjú ár síðan að Fyrripartur I birtist hér og því er mál til komið að koma með annan. Nú þegar lítur út fyrir að helsta skemmtan ungmenna í framtíðinni á Íslandi verði að koma saman í hálfköruðum húsgrunnum undir segldúki og kveða rímur við kertaljós (ESB tók allt rafmagnið) þá er rétt að hefja æfingar í ljóðlistinni. Eina leiðin út úr kreppunni er að yrkja sig frá henni.

Svona hljóðar fyrripartur dagsins, botnið í athugasemdakerfi eða sendið póst á larus (a) kommunan.is.

Þungar eru þrautir landans,

þykir erfitt ástandið

Tags:

Innflytjandinn

Stundum held ég að innflytjendastofnunin hér í Mexíkó hafi það að markmiði sínu að gera alla umsækjendur geðveika svo hægt sé að senda þá aftur til heimalands síns. Kannski er þetta einhvers konar hefnd fyrir það hvernig Kanada og Bandaríkin eru leiðinleg við innflytjendur frá Mexíkó. Allavega finnst mér það einkennilegt af landi sem treystir svo mikið á fjármagn frá mexíkönum í öðrum löndum að gera umsækjendum sem sækja um atvinnuleyfi hér svo erfitt fyrir.

Jæja, maður tekur því eins og hverju öðru hundsbiti. Eða kannski er nær að tala um köngulóarbit í þessum heimshluta?

Tags:

Fríið II

Eftir gistinguna hjá Horacio var víst kominn miðvikudagur. Var þá ákveðið að fara upp í fjöllin til að skoða friðlýst svæði sem kallast Porvenir og heimsækja dóttir Orlandos, Cendy, sem býr þar skammt hjá með manni og lítilli dóttur. Aftur var farið upp í pallbílinn og brunað upp í Sierra Madre fjallgarðinn. Strákarnir fengu þó að vera í einkabíl hjá Amöndu frænku sinni ásamt Anel.

Þetta ferðalag tók töluvert á bílana sem voru báðir drekkhlaðnir fólki og allt var uppí mót, á góðum vegum þó. Byrjaði að sjóða á bíl Amöndu og dekkin á pallbílnum fóru víst illa út úr þessari ferð. En þetta hafðist allt fyrir rest. Var orðið dimmt þegar við náðum heim til Cendy og við gistum um nóttina á hóteli þar sem hús frænkunnar var yfirfullt af fólki.

Þar um nóttina tel ég að ég hafi verið bitinn af einhverju kvikindi, líklega könguló, í ökklann því eftir þetta byrjaði hann að bólgna upp og var orðinn stokkbólginn nokkrum dögum síðar. Sýklalyf og bólgueyðandi náðu þó að redda því, alltaf má búast við einhverju svona í hitabeltinu þar sem lífríkið er gróskumikið.

Skoðuðum okkur um í Porvenir daginn eftir. Við vorum komin í það mikla hæð að þarna var mikið af barrtrjám og frekar svalt í veðri, miðað við að vorum syðst í Mexíkó. Síðan var haldið aftur heim til Orlandos, hópurinn tvístraðist eitthvað á leiðinni þar sem sumir fóru til Tapachula aftur en við fórum til Triunfo. Þar um kvöldið át ég tacos á einhverjum stað sem gerði mér ekkert sérstaklega gott. En maður kvartar ekki yfir smá magakveisu á svona stöðum.

Á föstudeginum fórum við til Tapachula aftur og ákváðum þar að fara norður til höfuðborgar Chiapas sem kallast Tuxtla og skoða þar einnig bæinn San Cristóbal sem er frægur ferðamannastaður. Segi nánar frá því síðar.

Tags: , , , , ,

Sorglega heimskulegt lögbann

Kaupþingi hefur verið stjórnað af hálfvitum síðustu árin og enn bæta þeir gráu ofan á svart í sorgarsögu sinni. Nýjasta er að þeir setja lögbann á birtingu efnis í ríkisútvarpinu sem er öllum aðgengilegt á Wikileaks. Með þessu hafa þeir líklega komið í veg fyrir tímabundið að nokkur prósent þjóðarinnar sem hefur ekki aðgang að netinu og skilur illa ensku komist að því hvað þessir drulluhalar voru að braska rétt fyrir hrunið. En fyrir flesta er þetta að sjálfsögðu of seint sem betur fer.

Mikið er maður annars þakklátur fyrir Netið á þessum síðustu og verstu tímum. Held að fátt hafi hjálpað lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlum meira en Netið, kannski í gjörvallri sögu mannkyns. Hér áður fyrr gátu valdaklíkurnar ginið yfir gömlu fjölmiðlunum og sagt þeim fyrir verkum en sá tími er sem betur fer liðinn.

Tags: ,