Star Trek

Ég biðst fyrirfram velvirðingar á öllum þeim nördaskap sem kemur fram í þessu bloggi. Fátt kallar sterkar fram nördið sem býr innra með manni en Star Trek.

Semsagt, í júní þegar ég var þjakaður af netskorti fórum við Anel í bíó að sjá nýjasta innleggið í Star Trek sagnabálkinn sem hét því hógværa nafni Star Trek. Ég vissi ekki alveg á hverju ég ætti von en þessi ræma kom manni á óvart, jafnvel óþægilega á óvart. Þeir sem hafa ekki séð myndina enn ættu ekki að lesa meira.

Hér er semsagt farið aftur í upprunann, til upphafsára Kirks og Spocks þegar þeir voru ungir nemar í Stjörnuflotaskólanum. Allt fer í hönk þegar óhemju úrillur og vondur Rómúli dettur inn óboðinn úr framtíðinni og kennir herra Spock um að hafa eytt Rómúlus í þeirri sömu tíð. Hann lætur umsvifalaust til skarar skríða og eyðir Vúlkan ásamt flestum íbúunum í hefndarskyni. Stjörnuflotinn getur ekkert gert þar sem vondi Rómúlinn er með svaka framtíðarvopn sem þeir hafa ekki roð í.

Þetta hefur svosem gerst áður í Star Trek heiminum. Í First Contact svindluðu Borg sér aftur í fortíðina og breyttu framtíðinni sér í hag en Picard og hans fólk náðu að redda því fyrir rest. Ég átti von á því að eitthvað svipað gæti gerst hér en það merkilega við þessa mynd er að tímalínan er aldrei leiðrétt. Í lokin, eins og Spock segir sjálfur svo smekklega, þá eru Vúlkanar orðin tegund í útrýmingarhættu. Öll framtíð Stjörnusambandsins er í uppnámi þar sem Vúlkanar voru ein aðalþjóðin í þessu öllu saman en verða það líklega ekki í þessum heimi.

Veit ekki alveg hvað manni á að finnast um þetta því í raun þýðir þetta að allt Star Trek dótið sem framleitt hefur verið, fyrir utan þá Enterprise leiðindin, á aldrei eftir að gerast. Allavega þá í breyttri mynd.

Hvað um það, myndin sjálf er nokkuð góð. Tæknibrellur og allt það í öðrum klassa en maður á að venjast í Star Trek. Held að þetta hljóti að vera mesta hasarmyndin í flokknum en kemur þó einnig réttu stemningunni til skila. Var nánast hjartnæmt að sjá Leonard Nimoy snúa aftur sem gamli Spock 18 árum eftir að hann sást síðast í Star Trek mynd. Var ekki alveg viss um valið á leikara fyrir nýja Spock, sá alltaf illmennið Sylar fyrir mér úr Heroes en þrátt fyrir það slapp þetta vel fyrir horn.

Þrátt fyrir allt þá er þetta líklega ein besta myndin í þessum flokki, ef ekki sú besta. Verður áhugavert að sjá hvernig unnið verður úr þessu í framhaldinu.

Ég er nánast fullviss þó um að gamla uppistands myndin Delirious með Eddie Murphy hafi verið innblástur fyrir eitt atriðið í þessari mynd. Þegar Kirk fækkar fötum með stúlku einni sem er græn að lit þá gat ég ekki annað en hlegið því eftirfarandi atriði úr Delirious lifir alltaf góðu lífi í minningunni.

Tags: , , , , ,

2 andsvör við “Star Trek”

 1. Gulli

  Sko, nú ætla ég að segja eins og Dr. Emmett Brown: „You’re not thinking 4th dimension!“ (og fyrir þá sem ekki vita hver Emmett Brown er – shame on you!)

  Allt venjulega Star Trekkið á eftir að gerast óbreytt, trikkið sem er notað er „alternative timeline“, þ.e. original tímalínan helst óbreytt, Spock lifir sínu venjulega lífi þar en hverfur á þeim punkti sem hann hoppar inn í þessa nýju tímalínu. Báðar sögurnar halda sem sagt áfram en í sitt hvora áttina, svolítið eins og Deep Space Nine side story-ið.

  og svo kallarðu þig nörd?

 2. Lalli

  Ég meika ekki svona multiverse dæmi ;)

  DS9 side story? Ertu að tala um þennan mirror-universe? Kom það ekki úr gömlu þáttunum með Kirk og Spock? Þrátt fyrir að þeir þættir væru skemmtilegir þá voru þeir líka hálfgert bull. Hvernig gat það verið að allir áttu sér hliðstæðu í hliðstæðum alheimi þrátt fyrir að framvinda mála var gjörólík þar? Gengur ekki upp nema maður geri ráð fyrir einhver konar örlagahyggju, að það sé þegar ákveðið hvernig maður fæðist og hverja maður hittir.

  Kom stundum fyrir í Voyager að allt fór í steik en svo reddaðist það að lokum þegar tímalínan varð leiðrétt, t.d. The year from hell held ég að einn þátturinn hafi heitið.