Flokkun trúmanna á öðru fólki

Eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um trúmál í nokkur ár þá hef ég tekið eftir ákveðnu mynstri í þankagangi trúmanna varðandi viðhorf þeirra til annarra manna. Gróft á litið má skilgreina álit trúmanna á öðru fólki í fjóra flokka.

Fyrsti flokkurinn og sá besti að sjálfsögðu eru trúbræðurnir, þeir sem deila sömu trú og hafa svipaðan skilning á trúarbrögðunum og helgiritum þeirra. Oft má sjá fólk rísa upp til varnar trúbræðrum sínum í deilumálum jafnvel þótt að um engin persónuleg tengsl sé að ræða. Nóg er að ef trúað er á sömu vitleysuna þá er það strax ákveðinn gæðastimpill í hugum margra.

Annar flokkurinn eru þeir sem eru í sömu trúarbrögðum en öðrum afbrigðum. Hér vísa ég aðallega til reynslu minnar af margþættustu trúarbrögðum nútímans sem er kristni. Ef trúarbrögðin eru hlutmengi í menginu kristni þá finnst það mörgum gott og blessað þrátt fyrir að þeir séu staddir í öðru hlutmengi. Dettur t.d. í hug ákveðinn kaþólikki sem fer mikinn á Moggablogginu og lofar oft hvítasunnumenn fyrir trúfestu þeirra. Ég hef ekki reynslu af öðrum trúarbrögðum hvað þetta varðar. Gæti þó trúað því að svipað gildi þar. T.d. að sjítar telji súnníta skömminni skárri en villutrúarmenn.

Til þriðja flokksins teljast einmitt villutrúarmenn eða fylgjendur annarra trúarbragða. Þetta er reyndar áhugaverðasti flokkurinn að mínu mati því svo virðist að nánast allir trúmenn telji það betra að trúa einhverju heldur en engu. Skiptir engu máli þótt að hin trúarbrögðin stangist algjörlega á við þeirra eigin. Þetta er merkileg söguleg þróun því áður fyrr voru villutrúarmenn í öllum heimshornum ofsóttir ef trú þeirra var ekki rétt. Svo virðist sem að einhvers konar þvertrúarleg samstaða sé að myndast gegn þeim sem taka ekki þátt í trúarbrjálæðinu. Gott dæmi um þetta er nýleg heimsókn Dalai Lama til Íslands þar sem biskupinn í lúthersku ríkiskirkjunni tók vel á móti kollega sínum og hélt einhverja trúarlega samkomu þar sem m.a. múslimi tók til máls auk búddistans. Þetta er í raun nokkuð furðulegt þar sem biskupinn og DL eiga fátt sameiginlegt eins og lesa má dæmi um hér.

Fjórði flokkurinn og sá lakasti eru svo auðvitað trúleysingjarnir. Vont er fyrir margan trúmanninn ef fólk deilir ekki með þeim hinni réttu og sönnu trú. En það er þó lítið böl miðað við þann hóp sem trúir hreinlega ekki á neitt yfirnáttúrulegt. Andstaðan við skynsemishyggjuna er auðskilin því hún er stærsta ógnin við trúarbrögð í dag. Í nútímanum stafar trúarbrögðum ekki svo mikil hætta af öðrum trúarbrögðum, a.m.k. ekki eins og það var hér áður fyrr þegar kristnum trúboðum var gefið opið veiðileyfi á önnur menningarsvæði. Hins vegar fjölgar þeim stöðugt sem lifa lífi sínu án allra hindurvitna og leiðsagnar heimsendabullara. Í upplýstum heimi vísinda og fræða er það eina leiðin fyrir skynsamt fólk til að lifa lífinu.

Þetta tel ég vera ástæðuna fyrir auknu þvertrúarlegu krulli sem mér finnst ég sjá í auknum mæli. Svo virðist sem sameiginleg andúð trúarnöttara á trúleysi þjappi þeim saman jafnvel þótt að þeirra lífsskoðanir innbyrðis séu oft ósamræmanlegar. Ég reikna reyndar með því að í framtíðinni eigi þessi pólun eftir að verða meira áberandi og hafa meiri áhrif. Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,

3 andsvör við “Flokkun trúmanna á öðru fólki”

 1. Árni

  Það er nú allur gangur á því hvað trúmönnum finnst um aðra trúmenn sb þessi orð Gunna í krossinum:

  “ Ógæfa þessarar þjóðar virðist mikil.

  Heimsókn Dalai Lama hingað til lands á dögunum leiddi i ljós alvarlegan skort á andlega greiningu. Andlegir leiðtogar þjóðarinnar tóku á móti honum með kostum og kynjum og leiddu hann til öndvegis í helgasta musteri þjóðarinnar. Þar hlýddu menn á mál hans eins og ástfangnar fermingarstúlkur. Í þesari sömu uppákomu voru fleiri heiðingjar leiddir til öndvegis og menn hlýddu á mál þeira opinmynntir. Hvað hefði Jesús gert? Hvað hefðu postularnir gert?

  Dalai Lama trúir ekki á Guð.

  Þessi framganga innrætir með mönnum að málflutningur Dalai Lama, Islam og Ásatrúin sé eitthvað sem geri mönnum gott að hlýða á.

  Það er fjarri öllum sanni.

  Jesús er einn vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

  http://www.krossinn.is/Safnadarstarf/default.aspx?path=/resources/Controls/23.ascx&C=ConnectionString&Q=AllNews&Groups=1&ID=2198&Prefix=251

 2. Helgi Briem

  Sæll Lárus. Mér finnst þetta afar góð pæling sem ætti heima sem grein á Vantrú.

 3. Lalli

  Takk fyrir það Helgi, kannski maður vinni eitthvað út frá þessu síðar meir.

  Ég þakka Árna fyrir að koma með álit Gunnars í Krossinum á Dalai Lama. Svona hefðu einmitt allir kristnir leiðtogar á Íslandi talað fyrir ekki svo löngu síðan. Spurningin er svo, hvað hefur breyst á þessum tíma? Skiljanlegt er að aukið frjálslyndi í samfélaginu hafi áhrif á afstöðu kristinna trúfélaga í ýmsum málum eins og til t.d. samkynhneigðra. En hvers vegna er ríkiskirkjan að nudda sér utan í heiðingja frá Tíbet og bjóða múslima að predika í athöfn honum til heiðurs? Hvað útskýrir þessar breytingar? Mér finnst þetta mjög athyglisverð þróun.

  Einhver samstaða er að myndast hjá þeirri þjóðfélagsstétt sem hefur lifibrauð sitt af því að klæða sig í kjóla og blaðra um yfirnáttúruleg öfl, burtséð frá hvaða trúarbrögðum þeir tilheyra. Sameiginlegir hagsmunir tengja þetta fólk saman. Ég held að helstu breytingarnar sem hafa orðið á síðustu áratugum er almenn útbreiðsla trúleysis og skynsemishyggju, eitthvað sem er eins og eitur í beinum þeirra sem lifa á því að boða fáfræði og blekkingar. Þess vegna sjáum við þetta samkrull ólíkra trúarbragða í dag, eitthvað sem var óhugsandi í flestum tilvikum fyrir nokkrum áratugum.