Kosningar í Mexíkó á morgun

Á morgun er kosningadagur hér í Mexíkó. Verið er að kjósa neðri deild þingsins þar sem sitja 500 þingmenn, þar af 300 kosnir beinni kosningu og 200 hlutfallskosningu. Einnig er kosið í sveitarstjórnarkosningum í 8 ríkjum og að auki í höfuðborginni Mexíkóborg sem hefur sérstöðu hér í landi, er ekki eiginlegt ríki heldur sérstakt stjórnsýsluumdæmi sem heyrir undir alríkisstjórnina. Mér skilst að fyrirkomulagið sé svipað hjá Bandaríkjamönnum með Washington DC.

Þrátt fyrir það er hér einnig borgarstjórn sem er frekar flókin í uppbyggingu eins og gefur að skilja fyrir svo gríðarstóra borg. Mexíkóborg er skipt í 16 umdæmi og hvert umdæmi kýs sinn umdæmisstjóra. Þessar kosningar hafa farið mest í taugarnar á mér undanfarið því það er bókstaflega allt þakið í auglýsingum frá frambjóðendum margra flokka. Einnig er kosið í borgarstjórn fyrir borgina í heild sinni.

Vinstrimenn hafa ráðið borginni nú um langa hríð og því er hér margt frjálslyndari en tíðkast í landinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum fengu samkynhneigðir rétt til að skrá sig í sambúð og konum er leyft að fara í fóstureyðingu undantekingarlaust ef þær óska þess fyrir 12 viku meðgöngu. Í öllum öðrum ríkjum, ef ég hef skilið rétt, eru fóstureyðingar einungis leyfilegar í undantekingartilfellum. Mexíkó er mjög kaþólskt land og því má telja nokkuð gott að þessum réttindum hefur þó verið náð hér í höfuðborginni.

Eitt sem mér finnst nokkuð merkilegt við þessar kosningar að mikið er um auglýsingar í sjónvarpi og víðar frá stofnun sem gæti kannski heitið upp á íslensku Kosningastofnun alríkisumdæmisins. Þessi stofnun sér um framkvæmd kosninganna og hefur hvatt fólk mjög til að mæta á kjörstað og kjósa. Þannig vex okkar lýðræði segja þeir (í beinni þýðingu).

Ég hef ekki nennt að grafa upp tölur um kosningaþátttöku í eldri kosningum en ég gæti trúað því að kjörsóknin sé slök. Stjórnmál hér eru yfirleitt lágt skrifuð hjá almenningi, stjórnvöld njóta ekki trausts enda er spillingin hér eilíft vandamál. Það gæti skýrt þessa herferð til að fá fólkið til að mæta á kjörstaðina á morgun.

Annars verð ég feginn þegar þessu er lokið, auglýsingaflóðið hér fyrir þessar kosningar er með ólíkindum. Ég hef enn ekki fundið neinn flokk til að styðja hér í landi, hef ekki sett mig nægjanlega inn í málefni þeirra. Kemur þó ekki að sök enn þar sem ég hef ekki kosningarétt.

Hélt að ég hafði rekist á mína menn þegar ég sá auglýsingar frá græningjum um daginn en þessi græningjar eru nú eitthvað öðruvísi en þeir sem ég þekki. Eitt helsta stefnumál Partido Verde er að taka aftur upp dauðarefsingar! Aldrei gæti ég kosið slíkt hyski hversu grænt sem það væri.

Tags: , , ,

2 andsvör við “Kosningar í Mexíkó á morgun”

  1. Gulli

    Er þetta ekki bara svona róttæk umhverfisstefna? Maðurinn er jú rót alls ills hjá mörgum svona hópum og „rétta leiðin“ þá að grisja aðeins :)

  2. Lalli

    Ég var ekki búinn að fatta þetta :) Reyndar er vit í þessu, færra fólk = minni mengun, hlýtur að vera.