Archive for júlí, 2009

Fríið I

Fórum til Chiapas í rútu á sunnudagskvöldi og náðum þangað á mánudagsmorgni. Chiapas er syðsti hluti Mexíkó og að auki fórum við mjög sunnarlega þar til stærstu borgar þess ríkis, Tabachula. Einungis eru um 25 mín. akstur til Gvatemala þaðan. Þar eiga heima ættingjar Anelar en við fórum í útskriftarveislu Williams, eins frænda hennar sem er nýútskrifaður lögfræðingur.

Við héldum að veislan ætti að vera á þriðjudeginum en hún átti víst að vera strax þá um kvöldið. Því fór mánudagurinn í að undirbúa herlegheitin, blása upp blöðrur og þess háttar. Líklega var hátt í 40 stiga hiti þarna syðra en maður kippir sér lítið upp við slíkt í þessu landi.

Veislan fór vel fram, lambakjöt á boðstólum og mikið dansað. Þó gátum við ekki verið þarna lengi frameftir þar sem að drengirnir voru þreyttir eftir rútuferðina og sofnuðu fljótt. Við fórum því heim til Elizabet frænku, systir tengdamömmu og móðir Williams, til að sofa en það gekk ekki áfallalaust þar sem Emil ákvað að vera með tanntökuverki og græt eitthvað frameftir nóttu. Það er líka frekar óþægilegt að sofa í svona hita þar sem húsin hér eru yfirleitt ekki loftkæld.

Daginn eftir var ákveðið að fara heim til Orlando frænda, bróðir tengdamömmu, sem býr í þorpinu Triunfo um þriggja tíma akstur frá Tapachula. Fjölskylda tengdamömmu er þaðan og þar ólst hún upp. Þetta þorp er svo lítið að ég finn það hvorki á Wikipedia né Goggle Maps en hef þó ekki leitað af mér allan grun. Vandamálið með Mexíkó er að margir staðir heita nákvæmlega það sama og því stundum erfitt að leita að ákveðnum stöðum.

Öll fjölskyldan fór til Triunfo, þar af flestir á pallinum á pallbíl Orlandos að hætti dreifara. Ég sólbrann á leiðinni á pallinum frekar illa og hef enn ekki beðið þess bætur þegar þetta er skrifað. Skömmu eftir komuna þangað skelltum við okkur í sund í á einni sem rennur þarna niður hæðarnar. Triunfo er staðsett á miklum hæðum við rætur Sierra Madre fjallgarðsins og þar er geysifallegt um að litast. Allt er iðjagrænt, skógar og hæðir allt í kringum ásamt ám og lækjum sem liðast um eftir landslaginu. Við syntum í stórum hyl í á sem lá nokkuð hátt uppi í hæðunum og lítill foss steypist þar ofan í, mesta sportið var að komast á bak við hann og dýfa sér ofan í hylinn. Strákunum fannst þó vatnið heldur kalt en mér fannst það gott eftir sólbrunann.

Nokkuð skondið var að rölta um með Anel í þessum bæ því þetta er smábær og allir þekktu fjölskyldu hennar þar sem hún var eitt sinn sú ríkasta í bænum. Fullt af fólki sem kom að tala við okkur. Hittum líka á nokkra fjarskyldari ættingja sem búa þarna sem voru afar glaðir að hitta Anel og bláeygðu syni hennar. Fórum og heimsóttum elsta bróðir tengdamömmu þar um kvöldið sem heitir Horacio og hann bauð okkur gistingu sem við þáðum með þökkum þar sem heimili Orlando var yfirfullt af gestum.

Meira síðar.

Tags: , ,

Aftur heim

Fríið endaði með því að vera eitt af þessum þar sem að sýklalyf og verkjatöflur komu mér í gegnum síðustu dagana. En ef maður fer á fjarlægar slóðir þá verður maður að vera undirbúinn fyrir slíkt. Þeir sem fara í mesta lagi til Danmerkur í fríið lenda eflaust sjaldan í svona erfiðleikum en sögurnar mínar eru eflaust betri svona eftir á.

Chiapas er annars fallegasta ríki Mexíkó sem ég hef séð hingað til, slær jafnvel út Quintana Roo. Skrifa einhverja frásögn af þessu einhvern daginn. Set jafnvel inn myndir líka en það er orðið langt síðan að ég hef getað gefið mér tíma í slíkt.

Tags: ,

Chiapas

Við erum farin í fríið, ætlum á æskuslóðir tengdamömmu sem eru syðst í Mexíkó í ríkinu Chiapas. Förum nálægt landamærunum að Gvatemala. Chiapas er helst þekkt fyrir mikla náttúrufegurð, fátækt og fyrir að vera heimkynni Zapatista uppreisnarhreyfingarinnar. Við erum að fara í útskriftarpartí hjá einum frænda Anelar. Öll systkini tengdamömmu mæta á svæðið en þau eru víst ellefu talsins, þar af þekki ég níu nú þegar. Þau voru tólf en ein systirin lést fyrir um 20 árum.

Verð því líklega netlaus fram á næstu helgi. Förum eftir fjóra tíma í rútuna, áætlaður ferðatími er 16 klukkustundir.(!) Það verður athyglisverð lífsreynsla. Held að fyrra met mitt séu 12 tímar, sett í Kenýa fyrir þremur árum. Vegirnir hér eru sem betur fer betri þannig að ég er enn rólegur yfir þessu.

Mér skilst að það sé mjög heitt þarna syðra, hitabeltisloftslag og regnskógar. Mér líst vel á þetta, get ekki sagt annað.

Tags: , ,

Star Trek

Ég biðst fyrirfram velvirðingar á öllum þeim nördaskap sem kemur fram í þessu bloggi. Fátt kallar sterkar fram nördið sem býr innra með manni en Star Trek.

Semsagt, í júní þegar ég var þjakaður af netskorti fórum við Anel í bíó að sjá nýjasta innleggið í Star Trek sagnabálkinn sem hét því hógværa nafni Star Trek. Ég vissi ekki alveg á hverju ég ætti von en þessi ræma kom manni á óvart, jafnvel óþægilega á óvart. Þeir sem hafa ekki séð myndina enn ættu ekki að lesa meira.

Hér er semsagt farið aftur í upprunann, til upphafsára Kirks og Spocks þegar þeir voru ungir nemar í Stjörnuflotaskólanum. Allt fer í hönk þegar óhemju úrillur og vondur Rómúli dettur inn óboðinn úr framtíðinni og kennir herra Spock um að hafa eytt Rómúlus í þeirri sömu tíð. Hann lætur umsvifalaust til skarar skríða og eyðir Vúlkan ásamt flestum íbúunum í hefndarskyni. Stjörnuflotinn getur ekkert gert þar sem vondi Rómúlinn er með svaka framtíðarvopn sem þeir hafa ekki roð í.

Þetta hefur svosem gerst áður í Star Trek heiminum. Í First Contact svindluðu Borg sér aftur í fortíðina og breyttu framtíðinni sér í hag en Picard og hans fólk náðu að redda því fyrir rest. Ég átti von á því að eitthvað svipað gæti gerst hér en það merkilega við þessa mynd er að tímalínan er aldrei leiðrétt. Í lokin, eins og Spock segir sjálfur svo smekklega, þá eru Vúlkanar orðin tegund í útrýmingarhættu. Öll framtíð Stjörnusambandsins er í uppnámi þar sem Vúlkanar voru ein aðalþjóðin í þessu öllu saman en verða það líklega ekki í þessum heimi.

Veit ekki alveg hvað manni á að finnast um þetta því í raun þýðir þetta að allt Star Trek dótið sem framleitt hefur verið, fyrir utan þá Enterprise leiðindin, á aldrei eftir að gerast. Allavega þá í breyttri mynd.

Hvað um það, myndin sjálf er nokkuð góð. Tæknibrellur og allt það í öðrum klassa en maður á að venjast í Star Trek. Held að þetta hljóti að vera mesta hasarmyndin í flokknum en kemur þó einnig réttu stemningunni til skila. Var nánast hjartnæmt að sjá Leonard Nimoy snúa aftur sem gamli Spock 18 árum eftir að hann sást síðast í Star Trek mynd. Var ekki alveg viss um valið á leikara fyrir nýja Spock, sá alltaf illmennið Sylar fyrir mér úr Heroes en þrátt fyrir það slapp þetta vel fyrir horn.

Þrátt fyrir allt þá er þetta líklega ein besta myndin í þessum flokki, ef ekki sú besta. Verður áhugavert að sjá hvernig unnið verður úr þessu í framhaldinu.

Ég er nánast fullviss þó um að gamla uppistands myndin Delirious með Eddie Murphy hafi verið innblástur fyrir eitt atriðið í þessari mynd. Þegar Kirk fækkar fötum með stúlku einni sem er græn að lit þá gat ég ekki annað en hlegið því eftirfarandi atriði úr Delirious lifir alltaf góðu lífi í minningunni.

Tags: , , , , ,

Ummæli dagsins

Magnús G. Eyólfsson orðar þetta vel hér á Pressunni. Sjálfur er ég frá Borgarbyggð og þetta er allt saman satt og rétt. Nauðsynlegt er að brjóta upp landbúnaðarkerfið, bæði fyrir bændur og neytendur. Það kerfi sem nú er við lýði er ekkert annað en hörmung.

Ég myndi kannski kaupa rök samtakanna ef landbúnaður hér á landi stæði í fullum blóma. Er það svo? Ekki samkvæmt samtökunum sjálfum sem segja horfur í íslenskum landbúnaði mjög slæmar. Þrátt fyrir það kerfi sem samtökin standa svo mikinn vörð um. Raunar er það þannig að flest það jákvæða sem gerst hefur í íslenskum landbúnaði hefur gerst þrátt fyrir kerfið, en ekki vegna þess. Það er í gegnum einkaframtak bændanna sjálfra. Ég nefni kornrækt, ferðaþjónustu, beint frá býli svo eitthvað sé nefnt.

Og að halda því fram að landbúnaður leggist af innan ESB er hreint og beint súrrealískt. Halda þessir menn virkilega að bændur hætti bara að rækta landið? Eru samtökin að segja að skjólstæðingar séu duglausar liðleskjur?

Gott dæmi um hnignun landbúnaðar undir núverandi kerfi eru heimaslóðir mínar, Borgarfjörðurinn. Þar var starfrækt eitt blómlegasta mjólkursamlag landsins og kjötvinnsla í miklum blóma. Á innan við tíu árum hefur þetta allt horfið. Meðal annars vegna þessa er atvinnulíf í Borgarnesi og nágrenni í rjúkandi rúst. Ekki kom ESB þar við sögu. Borgarnes er langt frá því að vera einsdæmi.

Séð hjá Agli Helga.

Tags: , , ,

Fyrsta skrefið

Ég held að engan hefði grunað fyrir ári síðan að Ísland ætti eftir að sækja um aðild að ESB. Sjálfur átti ég von á því að íhaldið og aðrir aðskilnaðarsinnar ættu eftir að ákvarða stöðu Íslands til eilífðarnóns. Sorglegt þó að sækja um við þessar aðstæður. Ísland kemur ekki til leiks sem sterkt ríkt lýðveldi heldur frekar á sömu forsendum og A-Evrópuþjóðirnar.

Talað er um að Ísland gæti sett nýtt hraðamet við inngöngu í ESB. Ég held að það sé alveg rétt. Þetta á eftir að ganga hratt og vel fyrir sig, aðildarviðræðurnar þ.e. En að Ísland samþykki svo inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu er eitthvað sem ég er ekki svo bjartsýnn á þótt ég sé bjartsýnismaður í eðli mínu.

Tags: ,

Flokkun trúmanna á öðru fólki

Eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um trúmál í nokkur ár þá hef ég tekið eftir ákveðnu mynstri í þankagangi trúmanna varðandi viðhorf þeirra til annarra manna. Gróft á litið má skilgreina álit trúmanna á öðru fólki í fjóra flokka.

Fyrsti flokkurinn og sá besti að sjálfsögðu eru trúbræðurnir, þeir sem deila sömu trú og hafa svipaðan skilning á trúarbrögðunum og helgiritum þeirra. Oft má sjá fólk rísa upp til varnar trúbræðrum sínum í deilumálum jafnvel þótt að um engin persónuleg tengsl sé að ræða. Nóg er að ef trúað er á sömu vitleysuna þá er það strax ákveðinn gæðastimpill í hugum margra.

Annar flokkurinn eru þeir sem eru í sömu trúarbrögðum en öðrum afbrigðum. Hér vísa ég aðallega til reynslu minnar af margþættustu trúarbrögðum nútímans sem er kristni. Ef trúarbrögðin eru hlutmengi í menginu kristni þá finnst það mörgum gott og blessað þrátt fyrir að þeir séu staddir í öðru hlutmengi. Dettur t.d. í hug ákveðinn kaþólikki sem fer mikinn á Moggablogginu og lofar oft hvítasunnumenn fyrir trúfestu þeirra. Ég hef ekki reynslu af öðrum trúarbrögðum hvað þetta varðar. Gæti þó trúað því að svipað gildi þar. T.d. að sjítar telji súnníta skömminni skárri en villutrúarmenn.

Til þriðja flokksins teljast einmitt villutrúarmenn eða fylgjendur annarra trúarbragða. Þetta er reyndar áhugaverðasti flokkurinn að mínu mati því svo virðist að nánast allir trúmenn telji það betra að trúa einhverju heldur en engu. Skiptir engu máli þótt að hin trúarbrögðin stangist algjörlega á við þeirra eigin. Þetta er merkileg söguleg þróun því áður fyrr voru villutrúarmenn í öllum heimshornum ofsóttir ef trú þeirra var ekki rétt. Svo virðist sem að einhvers konar þvertrúarleg samstaða sé að myndast gegn þeim sem taka ekki þátt í trúarbrjálæðinu. Gott dæmi um þetta er nýleg heimsókn Dalai Lama til Íslands þar sem biskupinn í lúthersku ríkiskirkjunni tók vel á móti kollega sínum og hélt einhverja trúarlega samkomu þar sem m.a. múslimi tók til máls auk búddistans. Þetta er í raun nokkuð furðulegt þar sem biskupinn og DL eiga fátt sameiginlegt eins og lesa má dæmi um hér.

Fjórði flokkurinn og sá lakasti eru svo auðvitað trúleysingjarnir. Vont er fyrir margan trúmanninn ef fólk deilir ekki með þeim hinni réttu og sönnu trú. En það er þó lítið böl miðað við þann hóp sem trúir hreinlega ekki á neitt yfirnáttúrulegt. Andstaðan við skynsemishyggjuna er auðskilin því hún er stærsta ógnin við trúarbrögð í dag. Í nútímanum stafar trúarbrögðum ekki svo mikil hætta af öðrum trúarbrögðum, a.m.k. ekki eins og það var hér áður fyrr þegar kristnum trúboðum var gefið opið veiðileyfi á önnur menningarsvæði. Hins vegar fjölgar þeim stöðugt sem lifa lífi sínu án allra hindurvitna og leiðsagnar heimsendabullara. Í upplýstum heimi vísinda og fræða er það eina leiðin fyrir skynsamt fólk til að lifa lífinu.

Þetta tel ég vera ástæðuna fyrir auknu þvertrúarlegu krulli sem mér finnst ég sjá í auknum mæli. Svo virðist sem sameiginleg andúð trúarnöttara á trúleysi þjappi þeim saman jafnvel þótt að þeirra lífsskoðanir innbyrðis séu oft ósamræmanlegar. Ég reikna reyndar með því að í framtíðinni eigi þessi pólun eftir að verða meira áberandi og hafa meiri áhrif. Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,

Ísbjörg

Nú er mikið skrifað um Icesave samningana heima sem væri nú betri íslenska að nefna Ísbjörg. Ég hef hreinlega ekki tíma til að fara yfir öll þessi skrif en hallast helst að því þessa dagana að íslensk stjórnvöld hafi rétt fyrir sér. Hef þó lítið vit á svona fjármálagjörningum eins og fyrri daginn.

Sé það líka að helstu andstæðingar þessa samninga snúa umræðunni oft upp í persónuárásir á fjármálaráðherra og ríkisstjórnina. Tala um landráðamenn og ég veit ekki hvað. Yfirleitt er það ágætur mælikvarði á ómerkinga, þegar landráðastimpillinn er notaður er yfirleitt ekkert að marka þá sem honum beita.

Tags: , ,

Kosningar í Mexíkó á morgun

Á morgun er kosningadagur hér í Mexíkó. Verið er að kjósa neðri deild þingsins þar sem sitja 500 þingmenn, þar af 300 kosnir beinni kosningu og 200 hlutfallskosningu. Einnig er kosið í sveitarstjórnarkosningum í 8 ríkjum og að auki í höfuðborginni Mexíkóborg sem hefur sérstöðu hér í landi, er ekki eiginlegt ríki heldur sérstakt stjórnsýsluumdæmi sem heyrir undir alríkisstjórnina. Mér skilst að fyrirkomulagið sé svipað hjá Bandaríkjamönnum með Washington DC.

Þrátt fyrir það er hér einnig borgarstjórn sem er frekar flókin í uppbyggingu eins og gefur að skilja fyrir svo gríðarstóra borg. Mexíkóborg er skipt í 16 umdæmi og hvert umdæmi kýs sinn umdæmisstjóra. Þessar kosningar hafa farið mest í taugarnar á mér undanfarið því það er bókstaflega allt þakið í auglýsingum frá frambjóðendum margra flokka. Einnig er kosið í borgarstjórn fyrir borgina í heild sinni.

Vinstrimenn hafa ráðið borginni nú um langa hríð og því er hér margt frjálslyndari en tíðkast í landinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum fengu samkynhneigðir rétt til að skrá sig í sambúð og konum er leyft að fara í fóstureyðingu undantekingarlaust ef þær óska þess fyrir 12 viku meðgöngu. Í öllum öðrum ríkjum, ef ég hef skilið rétt, eru fóstureyðingar einungis leyfilegar í undantekingartilfellum. Mexíkó er mjög kaþólskt land og því má telja nokkuð gott að þessum réttindum hefur þó verið náð hér í höfuðborginni.

Eitt sem mér finnst nokkuð merkilegt við þessar kosningar að mikið er um auglýsingar í sjónvarpi og víðar frá stofnun sem gæti kannski heitið upp á íslensku Kosningastofnun alríkisumdæmisins. Þessi stofnun sér um framkvæmd kosninganna og hefur hvatt fólk mjög til að mæta á kjörstað og kjósa. Þannig vex okkar lýðræði segja þeir (í beinni þýðingu).

Ég hef ekki nennt að grafa upp tölur um kosningaþátttöku í eldri kosningum en ég gæti trúað því að kjörsóknin sé slök. Stjórnmál hér eru yfirleitt lágt skrifuð hjá almenningi, stjórnvöld njóta ekki trausts enda er spillingin hér eilíft vandamál. Það gæti skýrt þessa herferð til að fá fólkið til að mæta á kjörstaðina á morgun.

Annars verð ég feginn þegar þessu er lokið, auglýsingaflóðið hér fyrir þessar kosningar er með ólíkindum. Ég hef enn ekki fundið neinn flokk til að styðja hér í landi, hef ekki sett mig nægjanlega inn í málefni þeirra. Kemur þó ekki að sök enn þar sem ég hef ekki kosningarétt.

Hélt að ég hafði rekist á mína menn þegar ég sá auglýsingar frá græningjum um daginn en þessi græningjar eru nú eitthvað öðruvísi en þeir sem ég þekki. Eitt helsta stefnumál Partido Verde er að taka aftur upp dauðarefsingar! Aldrei gæti ég kosið slíkt hyski hversu grænt sem það væri.

Tags: , , ,

Sérkennileg mannanöfn sem föðurnöfn

Þegar leit stóð yfir af nöfnum á drengina (þá sérstaklega þeim seinni) hófust miklar pælingar um mannanöfn almennt. Þar sem ég er í hnattvæddu hjónabandi þurftu nöfnin að vera vel valin og þar af leiðandi bera drengirnir mjög alþjóðleg nöfn, Ari og Emil. Að minnsta kosti eru þau alþjóðleg frá mínu vestræna sjónarhorni. Þau eru auðveld í framburði, stutt, þjál og innihalda ekki skrítna stafi.

Anel tók þann pólinn í hæðina frá upphafi að nöfnin skyldu vera íslensk þannig að við sluppum við að fara í gegnum spænsk og mexíkósk mannanöfn. Sjálfur var ég alltaf hrifinn af nafni síðasta konungs Aztekanna, Cuauhtémoc, en það stóð ekki til boða.

Við lásum okkur því í gegnum hina opinberu mannanafnaskrá og það verður að segjast sem er að sum nöfnin þar eru ekki hljómfögur. Hins vegar þegar að fólk sem ber sérstök mannanöfn eignast sjálft börn þá kemur nafn þeirra oft mjög vel út sem föðurnafn.

Sem dæmi þá eru nöfn á borð við Tyrfingur, Dufgus, Hreggviður eða Styrkár ekki sérstök nöfn að mínu mati. Hins vegar kemur það mjög vel út að vera Hreggviðsson, Dufgusson eða Styrkársdóttir. (Líklega hefði það einnig orðið flott að vera Cuauhtémocsson.)

Lexían í dag er því sú að ef þið viljið að barnabörnin beri flott föðurnöfn þá skulið þið nefna börnin sérkennilegum nöfnum. Þetta gildir aðallega varðandi eldforn norræn nöfn. Nýju nöfnin koma verr út. Það er hreinlega ekkert töff við það t.d. að vera Bambason eða Míódóttir.

Tags: