Flókinn heimur

Enn og aftur sannast fáfræði mín í peningamálum. Ég skil hreinlega ekki alveg þessa atburðarrás með Icesave draslið. Einhverjir gúbbar, sem héldu að þeir gætu rekið banka, byrjuðu að bjóða fólki í útlandinu að leggja inn peninga hjá þeim á svaka vöxtum. Síðan eyddu þeir öllum peningunum sem þeir fengu í vitleysu. Landsbankinn fer á hausinn og ríkið tók yfir leifarnar og stendur uppi með 640 milljarða (!) skuld frá áðurnefndum gúbbum við breska (fyrrverandi) sparifjáreigendur.

Ríkið þarf semsagt, samkvæmt drögum að samkomulagi, að standa í því næstu 15 árin að borga Bretum peninga sem nokkrir fávitar sviku þá um. Vegna þess að fávitarnir fæddust á Íslandi, illu heilli, þá eru samborgarar þeirra skyldugir til að borga skuldir þeirra. Það toppar þetta svo alveg að títtnefndir fávitar séu flestir með eignir sínar í einhverjum skattaskjólum í útlandinu svo að þeir þurfi ekki að borga skatta á Íslandi eins og einhverjir bjánar. Skattarnir fara jú núna í að borga skuldir þeirra, ekki séns að þeir taki þátt í svoleiðis rugli.

Held að það sé rétt sem einhver sagði að best hefði verið í ljósi aðstæðna að láta bankaræflana fara á hausinn síðastliðið haust og láta lánadrottna þeirra um að bítast um leifarnar. Varla hefði það getað orðið verra?

Tags: ,

4 andsvör við “Flókinn heimur”

 1. Gulli

  Sko, ég skal reyna að útskýra dæmið eins og ég skil það – getur verið að það sé kolvitlaust en látum samt vaða :)

  Íslensku bankarnir lánuðu fyrirtækjum vítt og breitt helling af peningum. Til að fjármagna þessi lán tóku þeir sjálfir lán annars staðar, m.a. með jöklabréfunum víðfrægu. Síðan fóru fyrirtækin sem höfðu fengið lán hjá íslensku bönkunum að lenda í vandræðum með að standa í skilum við bankana. Í kjölfarið af því lenda bankarnir í lausafjárvandræðum og geta ekki staðið í skilum með sín lán og þar sem fjármálakerfið í USA var þegar byrjað að brenna yfir var ekki hægt að endurfjármagna þau lán.

  Þá fengu bankarnir hugljómun, þeir gátu einfaldlega fengið lánað hjá almenningi – þeir einfaldlega bjuggu til nýja banka sem buðu háa innlánsvexti (IceSave verður til). Almenningur í Bretlandi og Hollandi, ásamt einhverjum fyrirtækjum og opinberum aðilum, láta ginnast og leggja peningana sína inn á þessa hávaxtareikninga. Peningarnir sem koma þar inn eru svo notaðir til að borga af lánunum sem bankarnir tóku til að lána upphaflegu lánin til útrásarfyrirtækjanna meðal annars. Í raun voru bankarnir að nota Visa kortið til að borga af Eurocard kortinu.

  Svo kemur enn meira babb í bátinn, fyrirtækin sem skulda bönkunum sitja sem fastast í lausafjárvandræðum og geta enn ekki borgað af sínum lánum. Almenningur getur auðvitað ekki endalaust pumpað peningum inn svo bankinn lendir aftur í lausafjárvandræðum. Fjármálakreppan er nú að byrja fyrir alvöru í USA og víðar og því getur enginn lánað bönkunum aftur. Bankarnir fara því til Seðlabankans til að reyna að fá lán þar til að bjarga sér en Seðlabankinn kemst að þeirri niðurstöðu að bankarnir séu svo illa staddir að slíkt lán væri bara til að hella olíu á eldinn og ríkið tekur yfir bankana.

  Bankarnir eru í raun settir á hausinn og ný fyrirtæki stofnuð sem taka yfir reksturinn og heita til að byrja með Nýji Glitnir o.s.frv. Í kjölfarið situr svo ríkið uppi með skuld við þá sem áttu innistæður í bönkunum vegna ríkistryggingar á bankainnistæðum.

  Það að láta bankana fara algjörlega á hausinn strax í haust hefði skapað miklu verra ástand vegna þess að það hefði í fyrsta lagi steinstoppað efnahagskerfið, mun fleiri fyrirtæki hefðu tapað gríðarlegum fjármunum og sennilega stærstur hluti þeirra farið beint í gjaldþrot, lán hefðu verið innkölluð sem hefði síðan séð um að stúta þeim fyrirtækjum sem eftir hefðu staðið. Íslenska ríkið hefði aldrei sloppið við að borga þessa 640 milljarða skuld þar sem ríkið er bundið af alþjóðasamningum um verndun á sparifé og ríkistryggingin hefði alltaf gilt.

  Það að taka yfir bankana var því það eina sem hægt var að gera eins og staðan var orðin, allt annað hefði þýtt fullkomið hrun á öllu íslensku fjármálalífi og með fullkomnu hruni meina ég algjört hrun – allt hefði verið gjaldþrota í einum vetfangi. Krónan hefði ekki einu sinni verið þess virði að brenna hana.

 2. Lalli

  Hehe, athugasemdin hjá þér Gulli er lengri en bloggið mitt :)

  Jú, ok ég kaupi þessa útskýringu. Líklega var það illskásti kosturinn í stöðunni að þjóðnýta bankanna. En þetta er einfaldlega svo ranglátt allt saman. Jón Jónsson skattborgari situr uppi með skuldabaggann frá þessu flippi útrásarvíkinganna. Aldrei flaug hann í einkaþotu eða fékk 50 Cent til að spila í afmælinu sínu. Hvers á hann að gjalda?

  Ég óttast að þetta, ásamt öllu því sem hefur dunið á Íslandi undanfarið, eigi eftir að draga landið niður. Að klakinn eigi eftir að verða annars flokks ríki um langa hríð, svona eins og A-Evrópa er í dag. Geng ekki svo langt að segja Ísland eigi eftir að verða þriðja heims ríki, þótt ég hafi séð rök frá þér að það hafi verið skuggalega nálægt því ekki fyrir alls löngu.

  Efnahagur Mexíkó hrundi nánast á einni viku árið 1994 og það tók langan tíma fyrir landið að jafna sig og sumir segja að Mexíkó hafi ekki náð sér fyllilega enn. Þetta var einu sinni meira veldi, land sem hélt Ólympíuleikana 1968 og HM í fótbolta 1986. Ég held að þeir ættu mjög erfitt með að framkvæma slíkt í dag. Vil ekki sjá Ísland í svona stöðu, þar sem allt var betra í gamla daga fyrir hrun.

 3. Lalli

  Fínir punktar hér um Icesave, séð hjá Gneistanum.

 4. Gulli

  já, þetta varð helv… langt – enda mikil flækja á ferðum.

  Áhugavert þetta blogg hjá þessum Magnúsi Helga en eitt finnst mér samt frekar furðulegt. Allir virðast einhverra hluta vegna vera voðalega bjartsýnir á að gengi krónunnar sé í raun of lágt skráð, það ætti að vera allt að 30% hærra en það er. Samt er gengi krónunnar utan Íslands talið allt frá 180 krónum fyrir evruna akkúrat núna upp í rúmlega 300 kr. fyrir eina evru og gengið almennt talið hafa verið allt of hátt skráð fyrir hrunið.