Hvað ef?

Hvað ef? spurningar geta verið áhugaverðar. Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um mig ef ég hefði aldrei hitt konuna mína elskulega í Svíþjóð. Líkleg atburðarás er einhvern veginn svona:

 • Í stað þess að gera lokaverkefni mitt í Mexíkó árið 2007 hefði ég líklega gert það á Íslandi.
 • Mögulega hefði mér tekist að ramba á einhverja atvinnu í faginu það sama ár.
 • Fullur af eldmóð og bjartsýni á íslenska efnahagsundrið hefði ég eflaust fest kaup á íbúð á fyrri hluta árs 2008. Maður varð jú að kaupa sér íbúð, annars tapaði maður peningum því þær eru alltaf að hækka í verði.
 • Aldrei að vita nema einn bíll á gríðarhagstæðu myntkörfuláni hefði dottið inn líka. Ég meina það, lán án verðbóta. Hversu ljúft er það?
 • Almennt séð hefði ég eflaust borðað of mikið af góðum og óhollum mat og væri líklega um 15 kílóum þyngri en ég er í dag.

Svo hefði hrunið komið. (Ég geri ekki ráð fyrir því að flutningur minn til Mexíkó hafi valdið þeim fiðrildaáhrifum að íslenska hagkerfið riðaði til falls.) Nýja íbúðin mín í 101 hefði fljótt orðið verðminni en lánið sem ég tók fyrir henni og há verðbólga sá um að ýkja muninn verulega upp. Myntkörfulánið hefði breyst í martröð og líklega hefði ég misst vinnuna eins og svo margir félagar mínir á mínum aldri.

Kannski hefði þetta endað með því að ég hefði hrökklast aftur í foreldrahús og orðið sauðfjárbóndi vestur á Snæfellsnesi. Í rauninni væri hægt að gera margt verra, segi það ekki. Líf í sveit hefur marga kosti.

Einhvern veginn sé ég mig þannig fyrir mér í þessari hliðstæðu tímalínu. Feitur, hálf-atvinnulaus, blankur, búandi heima hjá mömmu og pabba og síðast en ekki síst; alveg örugglega einhleypur og barnlaus.

Ég á aldrei eftir að sjá eftir því að hafa flutt til Mexíkó. Það er nokkuð ljóst. Þrátt fyrir að lífið hér hafi reynst mér erfiðara fjárhagslega en ég bjóst við þá er ég hamingjusamur hér úti með konunni og sonunum tveim.

Þetta þýðir þó ekki að við ætlum okkur að vera hér í Ameríku til eilífðarnóns. Vorum t.d. um daginn að athuga hvað erlendir tannlæknar þurfa að gera á Íslandi til að fá starfsréttindi þar og það virðist ekki vera mikið mál. Við gerum enn ráð fyrir því að snúa aftur einn góðan veðurdag þegar versta hrunið verður um garð gengið. A.m.k. að flytja til Norðurlandanna til að byrja með.

[Mér líst annars ekki á þessa þróun í blogginu, orðið alltof persónulegt undanfarið. Reikna með að skrifa eingöngu um umhverfismál og pólitík fram á haustið.]

Tags:

9 andsvör við “Hvað ef?”

 1. Elías Jón

  Ekki það að þú ættir að sjá eftiir því að hafa flutt til Mexico, þá held ég ekki að þú hefðir sjálfkrafa orðið svona mikið fórnarlamb kreppunnar. Þú hefðir nefnilega alltaf verið umkringdur neikvæðum niðurrifskommúnistum sem hefðu varað þig við hinum vondu bönkum.

 2. Lalli

  Já, rétt er það. Vandamálið er að ég er einmitt svona bjartsýnistýpan sem heldur að allt reddist einhvern veginn og næsta ár verði enn betra ár o.s.frv. Týpan sem setti Ísland á hausinn. Úrtölumennirnir í kringum mig hefðu kannski náð að sannfæra mig um að kaupa frekar notaðan bíl á myntkörfuláni í stað nýs. Fjármál hafa aldrei verið mín sterka hlið.

 3. siggi

  Èg lika.

 4. Gulli

  Það er ákaflega erfitt að sleppa við að steypa sér í skuldafenið á Íslandi, bíllaus í Reykjavík er hægt í skamman tíma en til langs tíma ákaflega þreytandi, húsnæði er ekki hægt að leigja á skynsamlegu verði og svo dragast flestir inn í flatskjárbrjálæðið þó þeir rembist lengi á móti. Ég veit að ef ég hefði látið undan fyrir tveimur árum og flutt til Íslands þá væri ég sennilega í dýpri skít en djúpum núna.

 5. Sverrir

  Snemma árs 2008 vissi maður alveg að fasteignamarkaðurinn var rétt að fara að springa, ég var meira að segja farinn að spá í að selja íbúðina mína þá.

 6. Árni Þór

  Það var fínt að flytja heim frá sverige sumarið 2006, kaupa splunkunýja íbúð, bíl á gríðarhagstæðu myntkörfuláni og svo annan ári síðar. Skuldirnar hafa jú hækkað um þó nokkrar millur, og verðmæti eignanna eflaust lækkað um sambærilega tölu, en það má ekki gleyma hugsuninni sem hefur fleytt íslendingum þangað sem þeir eru í dag (vá, þetta hljómaði miklu betur fyrir 2 árum) „þetta reddast“

  Hlakka til að sjá ykkur fjölskylduna flytja til landsins þegar uppsveiflan byrjar, og hella ykkur út í eigin rekstur eins og vestu kapítalistasvín.

  Það er svoldið magnað að íslenskur vinstri grænn karlmaður, flytji til Svíþjóðar og kynnist Mexíkanskri (Mexíkóskri) (hvort segir maður, Bjarni Fel sagði alltaf hið síðara en ég held að fyrra sé réttara??) konu og breytist í kapitalista. Heitir slíkt extreme makeover eða ?

  :)

  bið að heilsa familíunni.

  Árni

 7. Lalli

  Þeir segja að hvorutveggja sé rétt, mexíkóskri eða mexíkanskri. Hef reyndar ekki flett þessu upp í orðabók.

  Er nú ekki orðinn mikill kapítalisti ennþá, erum alltaf jöfn blönk þó að „bisnessinn“ líti ágætlega út. Stendur vonandi til bóta. En jú, konan hefur breytt mér að einhverju leiti en til hins betra að ég tel. ;)

 8. Gulli

  Bjarni Fel. notaði alltaf mexíkani þangað til honum var bent á að skv. orðabók er rétta orðið mexíkói svo hann skipti réttilega. Síðan held ég að mexíkani hafi komist inn í orðabókina vegna málhefðar þannig að hvoru tveggja teljist rétt núna.

  Lalli, kapítalistar geta vel verið blankir, kapítalíska hugmyndafræðin snýst ekki um að vera ríkur, þvert á það sem „kommúnistar“ hafa talið sér trú um en það er vissulega áhugavert að Lalli skuli telja að konan hafi breytt honum til hins betra með því að gera hann að kapítalista :)

  Minnir mann á gáfuleg orð sem ég heyrði einhvers staðar: „If you’re a capitalist by the age of 20 you have no heart but if you’re not a capitalist by the time you are 30 you have no brain“.

 9. Lalli

  Ja, ef talað er um hvort fólk telji markaðsbúskap betri en áætlunarbúskap þá er ég vissulega kapítalisti. En þetta er fjölbreytt litróf, ekki bara svart eða hvítt.

  Þessi tilvitnun er gömul og er til í mörgum útgáfum. Ég hafði heyrt hana öðruvísi, með sósíalista í stað kapítalista, sjá hér.