Archive for júní, 2009

Bjartsýnin eykst

Veit það ekki, ég er að verða bjartsýnni á að Hrunið verði gert upp heima á klakanum fyrir fullt og allt. Alltaf er einhver óhroði að fljóta upp á yfirborðið og nýjar upplýsingar um framferði útrásarvíkinga og pólitískra klappstýra þeirra frá gróðæristímanum koma nánast daglega.

Fólk er svo óþolinmótt, vill að allt verði gert upp einn, tveir og þrír. Rétt eins og það sé eitthvað einfalt mál að rekja upp alla þræðina í íslenska efnahagsviðundrinu. Það þarf að gera þetta af yfirvegun og án þess að hefja nornaveiðar. Mér sýnist að þetta stefni í rétta átt núna eftir allt aðgerðaleysið og ringulreiðina sem ríkti meðan ríkisstjórn Geirs Haarde fór með völd.

Held líka einnig að allir þessir tugmilljarðar sem að sögn var stungið undan af útrásardrengjunum eigi eftir að koma í leitirnar einn góðan veðurdag. Hlýtur það ekki að vera, ekki eyddu þeir öllum þessum peningum í kampavín og Elton John? Þá verður það fjármagn þjóðnýtt og sett upp í skuldirnar, þá verður þetta allt í góðum gír á nýjan leik.

Mér er ekki viðbjargandi, ég geri mér grein fyrir því.

Tags: ,

Gamla Blogspot-bloggið horfið

Frá 2002 til 2004 bloggaði ég á Blogger á gömlu Kommúnusíðunni þar. Þarna hófst minn bloggferill og mér þótti alltaf pínulítið vænt um þessa síðu enda verða minningar verðmætari eftir því sem þær eldast. Ég varð því nokkuð svekktur í gær þegar ég vildi kíkja á hana en hún var þá horfin með öllu af blogspot.com. Reyndar eru mörg „dauð“ blogg horfin með öllu sem þó voru þarna fyrir skemmstu.

Líklega er einhver hreingerning í gangi hjá Blogger.com. Mér finnst þetta þó nokkuð slappt að fleygja bara gömlum síðum sisvona. Endurspeglar reyndar eitt helsta vandamál veraldarvefsins, engin trygging er fyrir því hvort að vefsíður hangi uppi. Þær geta horfið einn góðan veðurdag með ýmsum upplýsingum sem gott væri að halda til haga.

Ég gerði mér þó grein fyrir þessu vandamáli fyrir allnokkru síðan. Hvað ef gamla blogginu yrði kippt úr umferð? Hvað verður þá um allan þann texta sem ég ritaði á þessum tíma?

Fyrir um einu og hálfu ári síðan var ég að spukulera í þessu, þegar lítið var um að vera í vinnunni, og ég ákvað að flytja einfaldlega gamla bloggið hingað yfir. Reyndar var það hægara sagt en gert því ég hafði ekki aðgang að stjórnkerfinu á Blogger því ég hafði gleymt lykilorðinu fyrir löngu síðan. Ef ég bað um lykilorðið í pósti þá fékk ég það sent á hi.is netfangið mitt sem ég tapaði fyrir um þremur árum. Það var því enginn séns að flytja þetta yfir öðruvísi en handvirkt, ein færsla í einu.

Kannski er ég ofurlítið bilaður að nenna að standa í því en þegar ég hafði lausan tíma, sem var ekki oft undanfarin misseri, þá færði ég yfir færslu og færslu. Svona gekk það undanfarið eitt og hálft ár en stundum liðu mánuðir á milli þess sem ég gaf mér tíma í þetta. Ég átti einungis eftir að taka hluta september og ágúst 2002 þegar ógæfan dundi yfir. Ætlaði mér reyndar að klára þetta nú í gær og var því ekki kátur með uppátækið hjá Blogger.

Waybackmachine geymir ekki afrit af fyrstu færslunum fyrir utan eina viku í september sem mig vantar í safnið. Ég býst ekki við að það sé nein önnur leið fær til að nálgast þetta efni? Ef netverjar luma á lausnum þá væri vel þegið að heyra í þeim.

Tags:

Hvaða svikamylla var í gangi í síðari heimsstyrjöld?

Mest lesna fréttin á Vísi.is er þessi hér sem hefst á svohljóðandi orðum:

Íslenska útrásin er stærsta svikamylla Evrópu frá síðari heimsstyrjöld – jafnvel þótt ekki nema 10% af þeim þeim ásökunum sem nú liggja í loftinu haldi vatni, fullyrðir danska stórblaðið Berlingske Tidende í dag.

Kannski er þetta kjánaleg spurning en hvaða svikamylla var í gangi í síðari heimsstyrjöld? Teljast Hitler og co ein slík?

Tags: , , ,

Flókinn heimur

Enn og aftur sannast fáfræði mín í peningamálum. Ég skil hreinlega ekki alveg þessa atburðarrás með Icesave draslið. Einhverjir gúbbar, sem héldu að þeir gætu rekið banka, byrjuðu að bjóða fólki í útlandinu að leggja inn peninga hjá þeim á svaka vöxtum. Síðan eyddu þeir öllum peningunum sem þeir fengu í vitleysu. Landsbankinn fer á hausinn og ríkið tók yfir leifarnar og stendur uppi með 640 milljarða (!) skuld frá áðurnefndum gúbbum við breska (fyrrverandi) sparifjáreigendur.

Ríkið þarf semsagt, samkvæmt drögum að samkomulagi, að standa í því næstu 15 árin að borga Bretum peninga sem nokkrir fávitar sviku þá um. Vegna þess að fávitarnir fæddust á Íslandi, illu heilli, þá eru samborgarar þeirra skyldugir til að borga skuldir þeirra. Það toppar þetta svo alveg að títtnefndir fávitar séu flestir með eignir sínar í einhverjum skattaskjólum í útlandinu svo að þeir þurfi ekki að borga skatta á Íslandi eins og einhverjir bjánar. Skattarnir fara jú núna í að borga skuldir þeirra, ekki séns að þeir taki þátt í svoleiðis rugli.

Held að það sé rétt sem einhver sagði að best hefði verið í ljósi aðstæðna að láta bankaræflana fara á hausinn síðastliðið haust og láta lánadrottna þeirra um að bítast um leifarnar. Varla hefði það getað orðið verra?

Tags: ,

Hvað ef?

Hvað ef? spurningar geta verið áhugaverðar. Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um mig ef ég hefði aldrei hitt konuna mína elskulega í Svíþjóð. Líkleg atburðarás er einhvern veginn svona:

  • Í stað þess að gera lokaverkefni mitt í Mexíkó árið 2007 hefði ég líklega gert það á Íslandi.
  • Mögulega hefði mér tekist að ramba á einhverja atvinnu í faginu það sama ár.
  • Fullur af eldmóð og bjartsýni á íslenska efnahagsundrið hefði ég eflaust fest kaup á íbúð á fyrri hluta árs 2008. Maður varð jú að kaupa sér íbúð, annars tapaði maður peningum því þær eru alltaf að hækka í verði.
  • Aldrei að vita nema einn bíll á gríðarhagstæðu myntkörfuláni hefði dottið inn líka. Ég meina það, lán án verðbóta. Hversu ljúft er það?
  • Almennt séð hefði ég eflaust borðað of mikið af góðum og óhollum mat og væri líklega um 15 kílóum þyngri en ég er í dag.

Svo hefði hrunið komið. (Ég geri ekki ráð fyrir því að flutningur minn til Mexíkó hafi valdið þeim fiðrildaáhrifum að íslenska hagkerfið riðaði til falls.) Nýja íbúðin mín í 101 hefði fljótt orðið verðminni en lánið sem ég tók fyrir henni og há verðbólga sá um að ýkja muninn verulega upp. Myntkörfulánið hefði breyst í martröð og líklega hefði ég misst vinnuna eins og svo margir félagar mínir á mínum aldri.

Kannski hefði þetta endað með því að ég hefði hrökklast aftur í foreldrahús og orðið sauðfjárbóndi vestur á Snæfellsnesi. Í rauninni væri hægt að gera margt verra, segi það ekki. Líf í sveit hefur marga kosti.

Einhvern veginn sé ég mig þannig fyrir mér í þessari hliðstæðu tímalínu. Feitur, hálf-atvinnulaus, blankur, búandi heima hjá mömmu og pabba og síðast en ekki síst; alveg örugglega einhleypur og barnlaus.

Ég á aldrei eftir að sjá eftir því að hafa flutt til Mexíkó. Það er nokkuð ljóst. Þrátt fyrir að lífið hér hafi reynst mér erfiðara fjárhagslega en ég bjóst við þá er ég hamingjusamur hér úti með konunni og sonunum tveim.

Þetta þýðir þó ekki að við ætlum okkur að vera hér í Ameríku til eilífðarnóns. Vorum t.d. um daginn að athuga hvað erlendir tannlæknar þurfa að gera á Íslandi til að fá starfsréttindi þar og það virðist ekki vera mikið mál. Við gerum enn ráð fyrir því að snúa aftur einn góðan veðurdag þegar versta hrunið verður um garð gengið. A.m.k. að flytja til Norðurlandanna til að byrja með.

[Mér líst annars ekki á þessa þróun í blogginu, orðið alltof persónulegt undanfarið. Reikna með að skrifa eingöngu um umhverfismál og pólitík fram á haustið.]

Tags: