Beinagrindin leiðrétt

Í byrjun mánaðarins fór ég til læknis. Þar sem ég fer afar sjaldan til læknis eru þetta nokkur tíðindi. Þessi læknir ber líklega titilinn bæklunarlæknir á íslensku. Þegar ég mætti til hans skipaði hann mér umsvifalaust að fara úr buxunum og þuklaði mig svo allan ásamt því að sveiga og beygja á mér fæturnar. Svo kvað hann upp úrskurð sinn. Hann sagði að ég væri einkar sveiganlegur maður og meinti það bókstaflega. Því til sannindis sveigði hann mig aðeins fyrir framan Anel, vatt upp á hendurnar á mér eins og ég væri tuskubrúða. Konan rak upp stór augu yfir liðleika eiginmannsins.

Ég varð einnig nokkuð hissa á þessu, læknirinn spurði meira að segja hvort ég stundaði leikfimi. Ég fór næstum því að hlægja en hélt aftur af mér. Ég hef verið sakaður um margt en að vera liðugur íþróttamaður, það slær nú flest út. Hélt um stund að ég hefði loks fundið ofurhetjukrafta mína. Að ég væri kannski Mr. Fantastic II. Rétt er að taka fram að við konan höfum horft mikið á Heroes undanfarið.

Þegar ég rankaði við mér af ofurhetjudraumnum heyrði ég lækninn segja hvernig þessi liðleiki hafði farið með mig. Fæturnir á mér voru það liðlegir að ég hafði fengið nokkurs konar flatfót sem er þó ekki eiginlegur flatfótur skilst mér. Afleiðingarnar af þessu eru þær að ég geng skakkt og er frekar hokinn.

Það rann upp fyrir mér ljós. Skyndilega skildi ég af hverju ég er eins og ég er. Allt frá því ég var barn var ég hokinn í baki en aldrei nokkurn tímann var gerð nein athugasemd við það. Helst var manni kannski skipað að sitja beinn og hætta þessu hengslum, eins og mér þætti það betra að vera svona eins og ég var. Svona eftir á að hyggja skil ég ekki afhverju enginn sagði neitt við þessu, kannski veit fólk almennt ekki afhverju slæm líkamsstaða stafar. Sjálfur vissi ég lítið um þetta.

Ekki eru mörg ár síðan ég heyrði fyrst um t.d. göngugreiningu og hvað það er. Hugsaði þá með mér að líklega ætti ég að láta líta á mig en gerði aldrei neitt í því. Konan rak mig til þessa læknis þar sem hann starfar í sömu læknamiðstöð og hún. Einnig þurftum við að láta líta á Ara en hann virðist ætla að vera eins og ég, sagði læknirinn, eftir að hafa skoðað hann gaumgæfilega.

Góðu fréttirnar eru að hægt er að rétta úr fótnum á Ara. Emil er of ungur enn til að hægt sé að sjá hvort hann sé svona líka. Ari þarf að ganga í sérstökum skóm með innleggjum þar til að fóturinn á honum verður orðinn eðlilegur, veit reyndar ekki hvað það tekur langan tíma. Ég hinsvegar verð að ganga í skóm með innleggjum þar sem eftir er. Læknirinn sagði að líklega gæti ég átt von á því að líkamsstaða mín yrði betri þegar beinagrindin fær réttan stuðning. Mér finnst nokkuð magnað hvernig svona lítið smáatriði getur breytt miklu.

Við fórum í dag í sérstaka skóbúð með snepil frá lækninum. Pöntuðum innlegg og tvenna skó á Ara og stefnum á að fara aftur í næstu viku til að ganga frá minni pöntun. Anel skipaði mér að fleygja öllum skóm sem ég á og ganga þaðan í frá einungis í nýjum skóm með þar til gerðum innleggjum. Að sjálfsögðu mun ég gegna því.

Ég hlakka reyndar nokkuð til að sjá hver árangurinn af þessu verður. Í skóbúðinni sá ég hvernig svona fótagalli getur haft slæm áhrif. Eitt veggspjald taldi upp ótal kvilla eins og bakverki, vöðvaspennu, þreytu og verki í hnjám og ökklum, höfuðverki, verra jafnvægi og það sem mér fannst merkilegast, skortur á einbeitningu.

Hver veit, ef ég hafði ekki haft þennan fótagalla hefði ég ef til vill verið betri námsmaður því skortur á einbeitningu er einmitt krónískt vandamál hjá mér. Kannski hefði ég einnig getað verið mikill íþróttakappi ef ég hafði haft fæturnar í lagi. Þetta hefur háð mér alla mína ævi. Aldrei að vita nema að eftir nokkrar vikur verð ég kannski orðinn nýr og betri maður, uppréttur og einbeittur. Ég mun skrifa um árangurinn af þessari eiflífðarmeðferð þegar reynsla verður kominn á þetta.

Þangað til, ef þið lesendur sjáið krakka sem eru bognir í baki eða ganga skakkt þá skuluð þið skipa foreldrunum að senda þau til bæklunarlæknis. Þið gerið líf þeirra töluvert betra með því.

Tags: , ,

2 andsvör við “Beinagrindin leiðrétt”

  1. svanur

    Þú varst líka stundum orðinn þreyttur þegar þú náðir til byggða í göngunum.

    Með kveðju að vestan.

  2. Lalli

    Nú hef ég fundið mína afsökun fyrir því, ég svindlaði mér heldur aldrei í gegnum þær á fjórhjólum ;)