Archive for maí, 2009

Beinagrindin leiðrétt

Í byrjun mánaðarins fór ég til læknis. Þar sem ég fer afar sjaldan til læknis eru þetta nokkur tíðindi. Þessi læknir ber líklega titilinn bæklunarlæknir á íslensku. Þegar ég mætti til hans skipaði hann mér umsvifalaust að fara úr buxunum og þuklaði mig svo allan ásamt því að sveiga og beygja á mér fæturnar. Svo kvað hann upp úrskurð sinn. Hann sagði að ég væri einkar sveiganlegur maður og meinti það bókstaflega. Því til sannindis sveigði hann mig aðeins fyrir framan Anel, vatt upp á hendurnar á mér eins og ég væri tuskubrúða. Konan rak upp stór augu yfir liðleika eiginmannsins.

Ég varð einnig nokkuð hissa á þessu, læknirinn spurði meira að segja hvort ég stundaði leikfimi. Ég fór næstum því að hlægja en hélt aftur af mér. Ég hef verið sakaður um margt en að vera liðugur íþróttamaður, það slær nú flest út. Hélt um stund að ég hefði loks fundið ofurhetjukrafta mína. Að ég væri kannski Mr. Fantastic II. Rétt er að taka fram að við konan höfum horft mikið á Heroes undanfarið.

Þegar ég rankaði við mér af ofurhetjudraumnum heyrði ég lækninn segja hvernig þessi liðleiki hafði farið með mig. Fæturnir á mér voru það liðlegir að ég hafði fengið nokkurs konar flatfót sem er þó ekki eiginlegur flatfótur skilst mér. Afleiðingarnar af þessu eru þær að ég geng skakkt og er frekar hokinn.

Það rann upp fyrir mér ljós. Skyndilega skildi ég af hverju ég er eins og ég er. Allt frá því ég var barn var ég hokinn í baki en aldrei nokkurn tímann var gerð nein athugasemd við það. Helst var manni kannski skipað að sitja beinn og hætta þessu hengslum, eins og mér þætti það betra að vera svona eins og ég var. Svona eftir á að hyggja skil ég ekki afhverju enginn sagði neitt við þessu, kannski veit fólk almennt ekki afhverju slæm líkamsstaða stafar. Sjálfur vissi ég lítið um þetta.

Ekki eru mörg ár síðan ég heyrði fyrst um t.d. göngugreiningu og hvað það er. Hugsaði þá með mér að líklega ætti ég að láta líta á mig en gerði aldrei neitt í því. Konan rak mig til þessa læknis þar sem hann starfar í sömu læknamiðstöð og hún. Einnig þurftum við að láta líta á Ara en hann virðist ætla að vera eins og ég, sagði læknirinn, eftir að hafa skoðað hann gaumgæfilega.

Góðu fréttirnar eru að hægt er að rétta úr fótnum á Ara. Emil er of ungur enn til að hægt sé að sjá hvort hann sé svona líka. Ari þarf að ganga í sérstökum skóm með innleggjum þar til að fóturinn á honum verður orðinn eðlilegur, veit reyndar ekki hvað það tekur langan tíma. Ég hinsvegar verð að ganga í skóm með innleggjum þar sem eftir er. Læknirinn sagði að líklega gæti ég átt von á því að líkamsstaða mín yrði betri þegar beinagrindin fær réttan stuðning. Mér finnst nokkuð magnað hvernig svona lítið smáatriði getur breytt miklu.

Við fórum í dag í sérstaka skóbúð með snepil frá lækninum. Pöntuðum innlegg og tvenna skó á Ara og stefnum á að fara aftur í næstu viku til að ganga frá minni pöntun. Anel skipaði mér að fleygja öllum skóm sem ég á og ganga þaðan í frá einungis í nýjum skóm með þar til gerðum innleggjum. Að sjálfsögðu mun ég gegna því.

Ég hlakka reyndar nokkuð til að sjá hver árangurinn af þessu verður. Í skóbúðinni sá ég hvernig svona fótagalli getur haft slæm áhrif. Eitt veggspjald taldi upp ótal kvilla eins og bakverki, vöðvaspennu, þreytu og verki í hnjám og ökklum, höfuðverki, verra jafnvægi og það sem mér fannst merkilegast, skortur á einbeitningu.

Hver veit, ef ég hafði ekki haft þennan fótagalla hefði ég ef til vill verið betri námsmaður því skortur á einbeitningu er einmitt krónískt vandamál hjá mér. Kannski hefði ég einnig getað verið mikill íþróttakappi ef ég hafði haft fæturnar í lagi. Þetta hefur háð mér alla mína ævi. Aldrei að vita nema að eftir nokkrar vikur verð ég kannski orðinn nýr og betri maður, uppréttur og einbeittur. Ég mun skrifa um árangurinn af þessari eiflífðarmeðferð þegar reynsla verður kominn á þetta.

Þangað til, ef þið lesendur sjáið krakka sem eru bognir í baki eða ganga skakkt þá skuluð þið skipa foreldrunum að senda þau til bæklunarlæknis. Þið gerið líf þeirra töluvert betra með því.

Tags: , ,

Raus um erfðabreyttar lífverur

Leitt að sjá hversu margir halda að nóg sé að slá um sig með innihaldslausum frösum þegar rætt er um erfðabreyttar lífverur. Held að mest öll þeirra þekking á líftækni og erfðafræði komi frá Hollywood. Skrifaði einhvern tímann um ORF málið, sjá hér. Er of syfjaður til að rausa meira um þetta núna.

Tags: ,

Þráðurinn tapast

Ég er fyrir löngu búinn að tapa áttum í bankahruninu mikla á Íslandi. Hverjir voru að tapa peningum, koma undan peningum, offjárfesta, sóa, kasta á glæ peningum. Hvaða pólitíkusum er helst um að kenna o.s.frv. Vonast bara til þess nú að einhver góður sagnfræðingur skrifi greinargóða og upplýsandi bók um málið þegar allt er um garð gengið. Þá get ég lesið mér til um þetta og hneykslast á því ósnotra fólki sem kom klakanum á enn kaldari klaka.

Rifjast reyndar upp fyrir mér að ég tók upp sömu stefnu varðandi upplausn gömlu Júgóslavíu. Var orðinn frekar áttavilltur í þeim deilum öllum, hver var að skjóta á hvern og afhverju. Líklega er búið að skrifa góðar bækur um það allt saman en ég hef ekki komist í þær enn. Kannski var því öllu fyrst að ljúka á síðasta ári með sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo þannig að ég get farið að svipast um í bókaverslunum.

Tags: , ,

Tímanna tákn

Sest hefur á Alþingi piltur sem er yngri en ég, tveimur árum nánar tiltekið. Ég er nokkuð viss um að það hafi ekki gerst áður. Líklega er Ásmundur einnig fyrsti þingmaðurinn fæddur á níunda áratugnum.

Mér finnst ég þó ekki gamall enn, ef ég væri á þingi þá yrði ég næstyngstur. Skemmtilegt einnig að yngsti þingmaðurinn fæðist fjórum árum eftir að forsætisráðherra var fyrst kosinn á þing.

Tags:

Þeir greiddu í píku…

Aldrei gæti ég notast við slíka hárgreiðslu bara út af nafninu. Kannski höfðu karlar meira sjálfstraust í gamla daga.

Horfin gata

Anel vinnur í World Trade Center hér í Mexíkó sem er gríðarstór bygging á um 50 hæðum. Ein aðliggjandi gata ber nafnið Dakota en allar göturnar í þessu hverfi heita eftir ríkjum Bandaríkjanna. Nú í kvöldfréttunum fengum við að heyra þær fregnir að gríðarstór hola væri komin í götuna.

Fyrst bjóst ég við því að átt væri við kannski 2 metra holu en nei. Holan er 20 metra djúp og 10 metrar að ummáli. Þetta eru frekar óþægilegar fréttir. Mér skilst að lítil sjoppa, sem áður stóð við þessa götu, hafi horfið með öllu ofan í jörðina. Á þessari stundu er ekki vitað hvort að einhverjir bílar eða farþegar hafi farið sömu leið.

Ekki er heldur vitað hvað í ósköpunum gerðist. Í kvöld rigndi allhressilega með þrumum og eldingum sem bendir til þess að heita tímabilinu fari að ljúka (sem betur fer) og regntímabilið sé að ganga í garð. Miklar framkvæmdir eru þarna í gangi, verið er að byggja þarna ný háhýsi en öll vinna hefur verið stöðvuð um óákveðinn tíma.

Spurning hvort að WTC verður opin á morgun vegna þessa, megum nú ekki við frekari atvinnumissi nú þegar að H1N1 hefur lamað bisnessinn undanfarnar vikur.

Þeir sem eru læsir á spænsku geta lesið sér til um þetta hér.

Tags:

Jóhanna rýfur 60 ára hefð

Þetta er áhugaverð skýringarmynd hjá Wikipedia. Á henni má sjá að Jóhanna Sigurðardóttir er fyrsti forsætisráðherrann frá 1949 sem situr í krafti meirihlutastjórnar og kemur ekki úr framsókn eða frá íhaldinu. Auk þess að sjálfsögðu að vera fyrsta konan.

Þrátt fyrir að vera líklega elsti starfandi stjórnmálamaðurinn er hún þó mjög ferskur forsætisráðherra. Megi líða önnur 60 ár áður en næsti forsætisráðherra frá Xbé eða Xdé tekur við.

Tags: , ,

Ný stjórn

Komin er ríkisstjórn á Íslandi sem ætlar að sækja um aðild að ESB, brjóta upp kvótakerfið og hefur sett fókusinn á norrænt velferðarsamfélag. Ef þetta er draumur þá er hann góður og blautur.

Tags:

Afmælið

Ég átti afmæli í gær. Anel bakaði pizzu af því tilefni í fyrsta sinn og einnig eplaköku með vanillusósu. Svo fórum við hjónin í bíó, það er sjaldgæfur munaður fyrir okkur nú á dögum.

Var reyndar ekkert sérstakt í bíó þegar ég renndi yfir úrvalið, er af einhverjum ástæðum lítið spenntur fyrir Wolverine þótt mér hafi fundið X-men myndirnar ágætar. Enduðum á því að fara á Una pasión secreta eða The Reader með Kate Winslet í óskarsverðlaunahlutverki. Var ágætis mynd og nokkuð fersk nálgun á vondu nasistana.

Annars átti að frumsýna Star Trek á afmælisdaginn minn en því var frestað vegna þess að H1N1 var með stæla. Hún hefði verið valin annars.

-—-

Tók annars einhver eftir því hvort að ég birtist í Mogganum? Ég sá ekkert á mbl.is. Líklega var mér sleppt þar sem ég var of rólegur í viðtalinu og spar á stóru orðin. Slíkt selur illa.

Tags: , , ,

Faraldur í rénum

Betur fór en á horfðist með þessa svínaflensu. Í dag er staðan þannig að þetta virðist ætla að ganga yfir og að þessi nýja flensa sé ekki verri en hefðbundin inflúensa. Síðasta vika var vægast sagt furðuleg sem og þreytandi. Vonandi kemst lífið aftur í samt horf innan tíðar.

Magnaðar samsæriskenningar hafa sprottið upp varðandi þessa flensu. Sumir segja þetta lið í áætlun Obama til að taka yfir olíulindir Mexíkó. Aðrir segja þetta sett á svið til að draga athygli fólks frá nýrri löggjöf þar sem neysla og sala allra fíkniefna er gerð lögleg. Þessi nýju lög eru reyndar ekki til eftir því sem ég best veit.

Aðrir kenna lyfjafyrirtækjum um enda eru þau oft vinsæll skotspónn samsæriskenninga. Þau vildu semsagt selja meira af veirulyfjum og brugðu því á þetta ráð.

Kosningar verða hér í júlí og þetta tengist að sjálfsögðu því. Svona mætti lengi telja.

Þessi faraldur er stundum nefndur „chupacabra“ en það mun vera flökkusaga um dýr sem á íslensku gæti kallast geitasuga. Þetta dýr á samkvæmt sögunum að nærast á dýrablóði og er sérstaklega sólgið í geitur. Hér í Mexíkó halda menn því fram að yfirvöld hafi komið þessari sögu á kreik til að hræða fólk því hrætt fólk er jú viðráðanlegra. Svipað á því að gilda um þessa flensu.

Sjálfum finnst mér að stjórnvöld hér hafi brugðist rétt við. Þegar nýir stofnar flensu verða til með samkrulli flensuveira úr dýrum er alltaf rétt að vera á varðbergi. Betra er að byrgja brunninn og allt það.

Tags: , ,