Flensan geisar áfram

Nú er tala látinna vegna svínaflensunnar komin upp í 150 hér í Mexíkó og á eflaust eftir að hækka mikið. Reyndar eru endanlega staðfest dauðsföll vegna flensunnar mun færri eða einungis um 12, ef ég skil þetta rétt. Ég held þó að töluverðar líkur séu á því að fleiri hafa látist þrátt fyrir að handbærar sannanir fyrir því skorti enn. Samt sem áður er ég rólegri en í byrjun yfir þessu. Get talið upp þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi virðast mishættulegir stofnar af þessari veiru vera í umferð. Einungis hér í Mexíkó hefur hún valdið manntjóni. Fólk sem sýkst hefur af vægari afbrigðum virðist vera að jafna sig hér og tilfelli í öðrum löndum hafa verið vægari.

Rétt er þó að benda á að þau tilfelli sem komið hafa upp annars staðar eru enn fá og því höfum við ekki nægjanlega góða tölfræði yfir skaðsemi hennar. Jafnvel þótt að flensan sem verður af þessum vægari afbrigðum hafi lága dánartíðni, sem enn er ekki komið í ljós, þá gæti hún valdið alvarlegum faraldri. Ef dauðsföll verða talin í örfáum prósentum þá erum við að tala um tugmilljónir manna sem gætu týnt lífinu í mögulegum heimsfaraldri.

Í öðru lagi virðast tiltæk veirulyf virka vel og eftir allt fuglaflensufárið undanfarin ár eru til miklar birgðir af þeim í heiminum.

Í þriðja lagi eru viðbúnaður almennt góður, a.m.k. í ríkari hluta heimsins, við mögulegum flensufaraldri. Þótt að upptökin nú og staðsetning komi nokkuð á óvart þá hafa mörg lönd undirbúið sig vel við svona faraldri, viðbragðsáætlanir eru tiltækar o.s.frv.

Ég er því þolanlega bjartsýnn eins og stendur.

Mogginn hringdi í mig áðan og Smugan hefur krækt í bloggið. Ég vona að ég hafi komið þessu sæmilega til skila í símanum, er ekki vanur því að teljast svo merkilegur að fjölmiðlar vilja ræða við mig. Sagði eins og er að engin skelfing hefur enn gripið um sig í Mexíkóborg, fólk er varkárt og hefur áhyggjur en það er enginn glundroði á götunum. Þetta á eftir að koma illa við okkur efnahagslega, Anel fær mun færri kúnna á tannlæknastofuna. Við lifum það vonandi af.

Á næstu dögum fara línurnar vonandi að skýrast betur, hvað við er að eiga. Reyni að halda lesendum upplýstum um gang mála.

Tags: , , ,

4 andsvör við “Flensan geisar áfram”

 1. Adam Klari

  sæll ég bíð spenntur eftir engum fréttum!b

 2. Stína

  Ég er með „missed call“ frá Rúv frá sunnudagskvöldinu… var að spá í hvort þau væru að leita að númerinu þínu :P

 3. Lalli

  Ég stend á barmi heimsfrægðar, eða allavega Íslandsfrægðar. Ef þú hefðir svarað í símann væri ég kannski kominn í sjónvarpið!

 4. Stína

  Úff já þvílíkt kæruleysi hjá mér ;)