Svekktur

Nei, ekki yfir kosningunum heima heldur átti ég von á kommentaflóði vegna síðustu færslu minnar. Sjálfum finnst mér staða mín mjög merkileg og jú óheppileg ef út í það er farið. Jæja, Matti nennti þó að setja eina vísun á mig.

Staðan versnar stöðugt. Nú segja yfirvöld hér að 81 hafi látist en sumir segja er að talan sé mun hærri. Kemur í ljós á næstu dögum hvort það tekst að hefta útbreiðslu veirunnar. Allir staðir sem líklegir eru til að draga að fjölmenni s.s. kvikmyndahús, leikhús, íþróttaleikvangar o.s.frv. eru lokaðir. Mjög margir bera andlitsgrímur.

Við erum enn róleg yfir þessu, lítið hægt að gera annað. Allt fer þetta einhvernveginn.

-—-

Er ég annars einn um það að finnast íhaldið hafa unnið stórsigur í kosningunum? Þegar þetta er skrifað hafa um 90% atkvæða verið talin og þeir bláu eru með 23,6% fylgi og 15 þingmenn. Næststærsti flokkurinn. Miðað við allt sem á undan gekk þá mættu þeir teljast góðir að fá 10%. Trygglyndi íslenskra kjósenda er með eindæmum.

Ef vinstristjórninni tekst nú vel upp á næstu fjórum árum þá verða þessi úrslit ekki vera neitt innskot í eilífðina. Frekar má reikna með að þá muni enn frekar fjara undan Sjálfstæðisflokknum, þegar sýnt hefur verið fram á að Ísland geti spjarað sig án hans.

Þetta gæti verið upphafið af valdaferli krata og vinstri manna. Kratar héldu t.d. völdum í Svíþjóð samfleytt frá árinu 1932 til ársins 1976, reyndar ef undanskildir eru þrír mánuðir 1936. Skora á félagshyggjumenn heima að slá þessu við. Þurfa einungis að halda völdum samfleytt allt til 2053. Lítið mál.

Tags: , ,

7 andsvör við “Svekktur”

 1. Gulli

  Ég held að vinstri menn ættu nú að byrja á að setja stefnuna á að halda stjórninni gangandi út eitt kjörtímabil áður en planað er áratuga stjórnarsetu ;)

  Annars hafa sósíaldemókratar verið að ganga í gegnum sænska útgáfu af því sem sjálfstæðismenn hafa verið að gera á Íslandi, flokkurinn er á kafi í hverju spillingarmálinu á fætur öðru, bónusgreiðslur yfirmanna í lífeyrissjóðum svo klikkaðar að einkafyrirtæki skammast sín fyrir nískuna gagnvart sínum yfirmönnum undanfarin ár. Alls konar „frændsemi“ flokksins veltur nú fram á sjónarsviðið og fylgið hrynur, eru núna nálægt því að vera ekki lengur stærsti flokkurinn í Svíþjóð í fyrsta skipti í verulega langan tíma. Ofan á allt þetta er svo formaðurinn alveg úti að aka í öllum viðtölum og kappræðum og er nánast að verða að athlægi í Svíþjóð.

  Þetta finnst mér sýna að hvorki hægri né vinstri eiga að fá að ráða lengi í einu – það þarf að skipta út reglulega því spillingin veður alltaf fram ef sami aðili stjórnar lengi, hvað sem viðkomandi kallar flokkinn sinn.

 2. Lalli

  Er alveg sammála því að það er hollt að skipta um stjórnir regulega. Valdið spillir bestu mönnum.

 3. Kristín Gróa

  Það er frekar óhugnanlegt að hugsa til þess að þið séuð þarna í miðju alls þessa. Ég vona að þetta fari allt á besta veg.

 4. Snorri

  Eins skipulagður og heilaþvegin flokkur og Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að reynast erfiður stjórnarandstæðuflokkur og hvert einasta smáatriði verður gagnrýnt til helvítis. EF vinstri flokkarnir halda svo vel á spilunum að halda út heilt kjörtímabil þá held ég að þetta hafi verið það erfitt tímabil (hvort sem það er þeim að kenna eða ekki) að Sjálfstæðismenn verði komnir í stjórn aftur árið 2013. Vinnustaður minn er til dæmis uppfullur af liði sem kaus Sjálfstæðismenn áður og gerðu það ekki í þetta sinn en þeir munu kjósa þá næst. Það er ekki nein bylting í aðsigi á Íslandi, því miður. Þetta verða bara mjög erfið 4 ár og svo verður allt notað gegn stjórninni.

 5. Sindri Gudjonsson

  Ég verð að viðurkenna að ég er farinn að hafa smá áhyggjur af þessari svínaflensu. Var í auka 5 mín, að sofna í gær, þegar ég var að hugsa um þetta mál allt saman.

 6. Stína

  Hæ, vona að þið séuð ekki mikið stressuð yfir þessu öllu saman

 7. Gulli

  Merkilegt hvað fólk talar um pólitíska andstæðinga sína alltaf sem heilaþvegna. Eru vinstri menn eitthvað skárri en hægri menn þegar kemur að því? Skiptir nokkru máli hvaðan heilaþvotturinn kemur, hvoru tveggja vinnur gegn sjálfstæðri hugsun.