Archive for apríl, 2009

Flensan geisar áfram

Nú er tala látinna vegna svínaflensunnar komin upp í 150 hér í Mexíkó og á eflaust eftir að hækka mikið. Reyndar eru endanlega staðfest dauðsföll vegna flensunnar mun færri eða einungis um 12, ef ég skil þetta rétt. Ég held þó að töluverðar líkur séu á því að fleiri hafa látist þrátt fyrir að handbærar sannanir fyrir því skorti enn. Samt sem áður er ég rólegri en í byrjun yfir þessu. Get talið upp þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi virðast mishættulegir stofnar af þessari veiru vera í umferð. Einungis hér í Mexíkó hefur hún valdið manntjóni. Fólk sem sýkst hefur af vægari afbrigðum virðist vera að jafna sig hér og tilfelli í öðrum löndum hafa verið vægari.

Rétt er þó að benda á að þau tilfelli sem komið hafa upp annars staðar eru enn fá og því höfum við ekki nægjanlega góða tölfræði yfir skaðsemi hennar. Jafnvel þótt að flensan sem verður af þessum vægari afbrigðum hafi lága dánartíðni, sem enn er ekki komið í ljós, þá gæti hún valdið alvarlegum faraldri. Ef dauðsföll verða talin í örfáum prósentum þá erum við að tala um tugmilljónir manna sem gætu týnt lífinu í mögulegum heimsfaraldri.

Í öðru lagi virðast tiltæk veirulyf virka vel og eftir allt fuglaflensufárið undanfarin ár eru til miklar birgðir af þeim í heiminum.

Í þriðja lagi eru viðbúnaður almennt góður, a.m.k. í ríkari hluta heimsins, við mögulegum flensufaraldri. Þótt að upptökin nú og staðsetning komi nokkuð á óvart þá hafa mörg lönd undirbúið sig vel við svona faraldri, viðbragðsáætlanir eru tiltækar o.s.frv.

Ég er því þolanlega bjartsýnn eins og stendur.

Mogginn hringdi í mig áðan og Smugan hefur krækt í bloggið. Ég vona að ég hafi komið þessu sæmilega til skila í símanum, er ekki vanur því að teljast svo merkilegur að fjölmiðlar vilja ræða við mig. Sagði eins og er að engin skelfing hefur enn gripið um sig í Mexíkóborg, fólk er varkárt og hefur áhyggjur en það er enginn glundroði á götunum. Þetta á eftir að koma illa við okkur efnahagslega, Anel fær mun færri kúnna á tannlæknastofuna. Við lifum það vonandi af.

Á næstu dögum fara línurnar vonandi að skýrast betur, hvað við er að eiga. Reyni að halda lesendum upplýstum um gang mála.

Tags: , , ,

Svekktur

Nei, ekki yfir kosningunum heima heldur átti ég von á kommentaflóði vegna síðustu færslu minnar. Sjálfum finnst mér staða mín mjög merkileg og jú óheppileg ef út í það er farið. Jæja, Matti nennti þó að setja eina vísun á mig.

Staðan versnar stöðugt. Nú segja yfirvöld hér að 81 hafi látist en sumir segja er að talan sé mun hærri. Kemur í ljós á næstu dögum hvort það tekst að hefta útbreiðslu veirunnar. Allir staðir sem líklegir eru til að draga að fjölmenni s.s. kvikmyndahús, leikhús, íþróttaleikvangar o.s.frv. eru lokaðir. Mjög margir bera andlitsgrímur.

Við erum enn róleg yfir þessu, lítið hægt að gera annað. Allt fer þetta einhvernveginn.

-—-

Er ég annars einn um það að finnast íhaldið hafa unnið stórsigur í kosningunum? Þegar þetta er skrifað hafa um 90% atkvæða verið talin og þeir bláu eru með 23,6% fylgi og 15 þingmenn. Næststærsti flokkurinn. Miðað við allt sem á undan gekk þá mættu þeir teljast góðir að fá 10%. Trygglyndi íslenskra kjósenda er með eindæmum.

Ef vinstristjórninni tekst nú vel upp á næstu fjórum árum þá verða þessi úrslit ekki vera neitt innskot í eilífðina. Frekar má reikna með að þá muni enn frekar fjara undan Sjálfstæðisflokknum, þegar sýnt hefur verið fram á að Ísland geti spjarað sig án hans.

Þetta gæti verið upphafið af valdaferli krata og vinstri manna. Kratar héldu t.d. völdum í Svíþjóð samfleytt frá árinu 1932 til ársins 1976, reyndar ef undanskildir eru þrír mánuðir 1936. Skora á félagshyggjumenn heima að slá þessu við. Þurfa einungis að halda völdum samfleytt allt til 2053. Lítið mál.

Tags: , ,

Við rætur inflúensufaraldurs

Síminn hringdi seint í gærkvöldi. Ein móðirsystir Anelar (ein af mörgum) hafði séð í fréttunum að inflúensufaraldur hafði brotist út hér í Mexíkóborg. Búið sé að loka öllum skólum, allt frá leikskólum upp í háskólana, og fólk hvatt til að vera á varðbergi. Þetta kom nokkuð ónotalega við mann, sérstaklega þar sem ég kann mína veirufræði ágætlega og ný tilfelli af banvænni inflúensu eru alltaf áhyggjuefni. Sérstaklega þegar þau koma upp þar sem ég bý!

Síðan þá hafa fréttir af þessum faraldri ekki beinlínis glatt mig. Þetta virðist vera áður óþekktur stofn sem hefur á undanförnum mánuði lagt 20 manns í gröfina svo óyggjandi sé og mjög líklega 40 aðra sem enn er þó óstaðfest. Um þúsund eru taldir hafa veikst af þessari flensu. Þetta er ný gerð inflúensuveiru A af stofni H1N1 sem olli einmitt faraldrinum 1918. Svo virðist sem þetta sé bræðingur af þremur flensustofnum, þ.e. úr svínum, fuglum og mönnum en þetta á eftir að koma betur í ljós.

Þegar nýir stofnar af inflúensu koma upp þá hafa tiltæk bóluefni yfirleitt engin áhrif og einungis er hægt að hefja framleiðslu á þeim eftir að nýi stofninn hefur verið greindur. WHO hefur þegar ráðlagt Mexíkó að bólusetja ekki gegn þessu en nota þess í stað veirulyf og önnur úrræði.

Ekki þarf að fjölyrða um það þvílík martröð það yrði ef þetta yrði að stórum faraldri í Mexíkóborg. Þetta er ein stærsta borg heims með yfir 25 milljón íbúa og jafnframt þéttbýl. Almenningssamgöngur eru yfirleitt yfirfullar á annatímum og yfirdrifin tækifæri fyrir inflúensuveiruna til að dreifa sér.

Þegar í dag voru margir komnir með grímur fyrir andlitin, sérstaklega fólk sem sinnir mörgum kúnnum daglega t.d. í móttökum og verslunum. Ég er enn ekki orðinn órólegur yfir þessu en ef flensan breiðist út þá eru nú góð ráð dýr. Verið er að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og vonir standa til að það takist.

Ég man að Halldór Þormar talaði um í veirufræðinni forðum daga í HÍ að það væri alltaf tímaspursmál hvenær nýir inflúensufaraldrar færu af stað. Það koma alltaf þrír til fjórir á hverri öld. Aldrei bjóst ég þó við því að sjá einn í fæðingu og ég vona reyndar að það sé ekki að gerast hér. En maður veit aldrei.

Tags: ,

Ákall til kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Nú ætla ég ekki að ræða um þá ákvörðun ykkar né annara um að kjósa íhaldið eftir undangegna atburði. Slíkt er efni í aðra umræðu. En hins vegar ef þið munið setja X við D á kjördag gerið þá sjálfum ykkur og öðrum greiða. Strikið út nafn Árna Johnsen.

Alþingi þar sem slíkur maður á sæti hefur nákvæmlega engan trúverðugleika í mínum huga og ég veit að margir eru sammála mér í þvi. Þessi maður sem brást algjörlega öllu trausti sem þingmaður, rændi fjármunum frá þjóðinni og hefur aldrei nokkurn tímann sýnt nokkur merki þess að hann sjái eftir því sem hann gerði, á ekkert erindi í stjórnmál.

Til að endurreisa traust Íslendinga á Alþingi og lýðræðinu þá verður þessi maður að víkja á laugardaginn. Síðustu kannanir sýna að íhaldið fái þrjá menn kjörna í þessu kjördæmi þannig að hæpið er að það náist að setja Árna niður um tvo sæti og út af þingi. En það tókst að lækka hann síðast um eitt og ég held að margir hafi ekki verið meðvitaðir um þennan útstrikunar möguleika og áhrif hans. Ég var það ekki allavega ekki sjálfur.

Reyndar held ég að útstrikanir verði mikið notaðar í þessum kosningum eftir að máttur þeirra kom í ljós fyrir tveimur árum. Annars lítur þetta allt ljómandi vel út í könnunum, verður góð ástæða til að fagna á laugardaginn.

Tags: ,

Kompásinn tekinn

Svona kem ég út í Kosningakompás Moggans. Kemur nokkuð á óvart þetta með Borgarahreyfinguna en ég kýs hana þó ekki þrátt fyrir þetta. Annað kemur lítið á óvart.

Flokkur Samsvörun
Borgarahreyfingin (O) 84%
Vinstrihreyfingin – grænt framboð (V) 76%
Samfylkingin (S) 73%
Lýðræðishreyfingin (P) 66%
Framsóknarflokkur (B) 63%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 59%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%

Tags:

Líflaus XD síða

Mig minnir endilega að fyrir síðstu kosningar hafi allt annar bragur verið á XD.is. Þar mátti t.d. leggja fram fyrirspurnir til frambjóðenda og sjá mátti myndbönd með svörunum. Núna er þetta allt hálf dauflegt eins og staða flokksins sjálfs.

Ég vildi endilega spyrja FLokkinn hvort þeir ætluðu að beita sér fyrir endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands, fjölga bankastjórunum aftur í þrjá og gera Davíð O. það kleift að sækja um aftur. Væri fróðlegt að fá svör við því.

Skemmtilegt að sjá í haus XD-síðunnar eftirfarandi slagorð: „Hefjum þegar uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina„. Halló, við erum á árinu 2009, ekki 1969. Þessi kafli orkufreks iðnaðar er sem betur fer liðinn á Íslandi og á ekki afturkvæmt.

Annars líst mér vel á komandi kosningar, held að ég fái mér nachos í tilefni dagsins þegar kosið verður.

Tags: , ,

Verðtrygging

Ég hef aldrei skilið þetta með verðtryggingu lána. Margir heima halda því fram að þetta fyrirkomulag sé frábært og það má alls ekki leggja það niður. En ef það er svona frábært hvers vegna er það þá ekki notuð um víða veröld? Hversu mörg ríki notast við verðtryggingu nú til dags?

Tags:

Fyrsta kvöldmáltíðin

Emil fékk sína fyrstu máltíð í gær, þ.e. sem samanstóð af einhverju öðru en mjólk og meiri mjólk. Honum bauðst að gæða sér á maukuðu chayote. Ég veit ekki hvað það heitir á íslensku, þetta er svokallað grænmeti. Ekki var kappinn sérstaklega hrifinn af þessu þar sem öllu var spýtt út samstundis en eitthvað náðist ofan í hann þó. Þegar Ari fékk sína fyrstu máltíð var hann frekar hrifinn en hann fékk á sínum tíma gulrót. Við ætlum því að reyna að gefa Emil eina gulrót í kvöld.

Báðir drengirnir voru einungis aldir á mjólk fyrstu sex mánuðina þar sem Anel er með mörg ofnæmi. Það á víst að draga úr líkum á ofnæmum síðar meir ef svona er farið að, segir barnalæknirinn þeirra sem einnig er ónæmissérfræðingur.

Núna er Ari að gæða sér á pulsu. Ég fæ alltaf hálfgert samviskubit yfir því að gefa honum pulsur þar sem mér finnst það varla vera matur. En það gerist reyndar sjaldan að gripið er til slíkra örþrifaráða. Hér á þessu heimili kaupum við alltaf kalkúnapulsur og kalkúnaskinku. Okkur finnst það best þótt að kalkúnn sé ekki í sjálfu sér hátt skrifaður hér á þessum bæ. Aldrei dytti manni það í hug á klakanum að kaupa sér kalkúnapulsur, skrítið.

Annars er ég ánægður með hvernig mataruppeldið hefur tekist. Ari borðar allt sem við gefum honum. Stundum á hann það til að biðja um hráa gulrót þegar við erum að sneiða þær niður. Aldrei hafði ég gert það sem krakki að borða hráa gulrót, fannst þær nógu vondar soðnar. Held að þetta sé spurning um vana. Þeir sem eru vanir að borða grænmeti finnst það gott. Ég borða grænmeti nánast eingöngu af skyldurækni því ég veit að það er gott fyrir mann.

Hef þó stórlega aukið ávaxtaát síðan ég fluttist hingað, skiljanlega. Fátt er betra en ferskur mangó af markaðinum.

Tags: , , ,

Golgata-Móri snýr aftur

Enn og aftur hafa páskarnir liðið hjá. Hér í Mexíkó er enginn munaður eins og annar í páskum enda skilst mér að það sé uppfinning verkalýðsfélaga á klakanum. Páskaegg eru ekki hefð hér en þó er hægt að finna þau í ýmsum nýlenduvöruverslunum. Við splæstum í einn súkkulaðiunga með pípuhatt þar sem eggin sjálf voru í dýrari kantinum, svona til að halda í hefðina. Konan vill koma á þeirri hefð á okkar heimili að drengirnir fái að hakka í sig súkkulaðiegg á páskadag að hætti Íslendinga. Ekki kvarta ég yfir því.

Páskarnir sjálfir verða annars alltaf undarlegri finnst manni þótt boðskapurinn sjálfur breytist náttúrulega ekki. Einkasonur guðs var að sögn tekinn af lífi fyrir u.þ.b. 20 öldum á ferlega viðbjóðslegan hátt til að guð gæti fyrirgefið mönnum syndir sínar. Þessi sonur er í ýmsum túlkunum kristinna trúflokka einnig guð þannig að guð framdi sjálfsmorð til að hann gæti fyrirgefið mannfólkinu. Meintur dauðdagi var svo bara allt í plati því síðar reis þessi einkasonur guðs, sem var hann sjálfur, upp frá dauðum alveg sprellfjörugur. Þetta finnst kristnum mönnum alveg ótrúleg fórnfýsi og örlæti.

Í kaþólsku landi eins og Mexíkó hafa menn mikla skreytiþörf. Fyrir utan kirkjuna í götunni minni hafa þeir sett líkneski af Jesú hangandi á krossinum með skælandi Maríu mey fyrir neðan. Rómverska hermenn og lærisveina má þar einnig sjá og svo er Júdas hangandi í snörunni í einu tré með sjálfan Satan haldandi á þríforknum fyrir neðan. Þetta er reyndar árlegur viðburður að sjá þessa sýningu og alltaf er hún jafn ósmekkleg eins og svo margt sem tengist kaþólskunni.

Já páskarnir eru skrítin skepna. Sjálfur kýs ég að halda þá sem vorhátíð og hátíð súkkulaðis. Meint upprisa Golgata-Móra og allur sá draugagangur á ekki við mig. Reyndar held ég að flest skynsamt fólk trúi engu af þessum sögum. Læt Helga Hós eiga lokaorðið um þetta.

Krosslafshræ við láð varð laust
ljótt með kauna aman
til himna eins og skrugga skaust
með skít og öllu saman.

Tags: , , , ,

Í prófkjör í boði bankanna

Egill Helgason hittir naglann rækilega á höfuðið hér varðandi „styrki“ stórfyrirtækja handa stjórnmálamönnum í prófkjörum.

Og eins er það með prófkjörin. Frammámaður í stjórnmálaflokki sem gjörþekkir kerfið sagði mér nýlega að nánast enginn sem hefði farið í dýrt prófkjör síðustu ár hefði gert það án þess að fá væna styrki frá bönkunum. Það sé ein ástæðan fyrir því að margir stjórnmálamenn séu eins og múlbundnir þegar kemur að því að ræða málefni bankanna, velgjörðamanna sinna.

Nú fylgist ég einungis með íslensku samfélagi úr fjarlægð en mér hefur einmitt fundist einkennilegt hversu þöglir margir pólitíkusar hafa verið um bankahneykslið heima. Hér er auðvitað komin skýringin á því.

Annars hlakka ég til eins og barn til jólanna eftir næstu skoðanakönnun að heiman eftir að FLokkurinn var afhjúpaður.

Tags: , ,