Archive for mars, 2009

Q & A eða Viltu vinna milljarð? eða Slumdog Millionaire

Ég fékk bókina „Viltu vinna milljarð?“ sem gjöf frá systkinum mínum að heiman fyrir jólin 2007. Á sínum tíma kom mér það töluvert á óvart að fá indverska skáldsögu, fyrsta verk höfundarins Vikas Swarup, sem ég þekkti ekkert til. Bókin var og er hinsvegar stórskemmtileg og mjög vel heppnuð. Sögð er ævisaga munaðarleysingja í gegnum sjónvarpsþáttinn „Viltu vinna milljarð?“ þar sem hver spurning tengist ákveðnum atburðum í lífi hans.

Á sínum tíma hugsaði ég með sjálfum mér á meðan lestrinum stóð að þetta væri úrvals efniviður í kvikmynd. Þar sem ég fylgist lítið með kvikmyndum þessa dagana kom það því mér í algjörlega í opna skjöldu þegar ræma með ofangreindum söguþræði eftir Danny Boyle vann Golden Globe verðlaunin. Ég hafði ekki hugmynd um að þegar væri búið að festa bókina á filmu og ákvað þegar að nú yrði farið í bíó. Við hjónin höfðum ekki stundað slíkt athæfi síðan í september þegar norræn kvikmyndahátíð var í gangi hér í borg.

Höfðum það loks af á föstudaginn að berja meistaraverkið augum eftir að Slumdog Millionaire hafði unnið flest verðlaun sem hægt er að vinna á þessu ári.

Nánast alltaf þegar mynd er gerð eftir bók þá finnst manni stundum hitt og þetta vanta. Eins er með þessa mynd en hún er þó það áhrifamikil að það sleppur í þetta skiptið. Hún var kannski ekki eins frábær og ég átti von á enda búið að hæpa hana gífurlega upp en þetta var bara nokkuð gott.

Við hjónin skemmtum okkur betur heldur en yfir síðustu mynd sem við sáum í bíó, dönsk mynd um barnaníðing sem níddist á öllum börnunum sínum. „Listin að gráta í kór“ hét hún víst. Alltaf gaman að sjá norrænar myndir, það vantar ekki.

Mér finnst nú að gera eigi sjónvarpsþætti eftir „Viltu vinna milljarð?“ þar sem það eru svo margar góðar sögur ónýttar úr bókinni. Einnig var plottið þykkra og safaríkara þar sem spyrilinn var líka margflæktur inn í líf munaðarleysingjans. Svo vann hann líka milljarð í bókinni, ekki einhverjar skitnar tuttugu milljónir. Hvað var með það?

Tags: , ,

Sameinuðu Þjóðirnar á móti guðlasti?

Helsti gallinn við Sameinuðu Þjóðirnar er að allir fá að vera með og segja sína skoðun. Þótt að við fyrstu sýn virðist það ekki vera galli heldur kostur þá verður að hafa í huga að mörg lönd á okkar fögru plánetu eru afar aftarlega á merinni í mörgum málaflokkum. Nú hefur það semsagt gerst að 57 lönd múslima hafa myndað blokk innan S.Þ. til að þrýsta á um að ályktun gegn guðlasti nái fram að ganga.

Ef þetta rugl nær einhverri framgöngu innan S.Þ. þá er nú fokið í flest skjól. Þetta gengur þvert á hefðir lýðræðisríkja um málfrelsi og trúfrelsi. Flest þessara landa í múslima-blokkinni eru einræðisríki þar sem orðið lýðræði er eins og hvert annað klámyrði. Að slíkt afturhald fái að grassera í sjálfum S.Þ. er ekkert annað en hneyksli.

Sjá myndbandið hér að neðan þar sem m.a. er rætt við Christopher Hitchens um málið.

Tags: , , ,