Mun Bretland hverfa?

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að leifarnar af breska heimsveldinu muni brátt hverfa og enda á ruslahaugum sögunnar. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega, það er eitthvað við breska konungsdæmið sem virkar ákaflega forneskjulegt og stirðnað á mann. Þetta stúss þeirra í kringum kóngafólkið t.d., ég skil ekki afhverju er enn verið að púkka upp á konunga á 21. öldinni í lýðræðisríkjum. Thomas Paine hlýtur að vera á stöðugum snúning í gröfinni.

Ég held að N-Írland hljóti að sameinast Írska lýðveldinu einhvern daginn, að halda sömu þjóðinni aðskildri í tveimur hólfum gengur aldrei upp til lengdar þótt að menn geti þrjóskast við lengi. Skotar eru líka orðnir líklegir til að hugsa sér til hreyfings í sjálfstæðismálum, nú sem aldrei fyrr. Wales gæti jafnvel fylgt í kjölfarið. Tek það fram að þessar hugsanlegu breytingar verða líklega á löngum tíma, nokkrum áratugum.

Breska Samveldið fer þá líklega sömu leið enda hálf súr félagsskapur þar á ferðinni, gamlir kúgarar með gömlu þrælanýlendum sínum.

Eins og ég segi þá hef ég engin sérstök rök fyrir þessum spádómum, þetta er einhver tilfinning sem hefur grafið um sig. Spáð er að Bretland og Japan verði harðast úti í efnahagskreppunni af þróuðu löndunum að undanskildu Íslandi. Slíkt ástand hefur oft í för með sér breytingar til góðs eða ills. Í þessu tilviki held ég að það grafi undan Bretlandi og að það liðist enn meir í sundur. Saga breska heimsveldisins á 20. öld var samfelld saga niðurbrots og sundrungar og ég tel að ferilinn eigi eftir að halda áfram á þeirri 21. Undir lokin verður því ekkert eftir nema gamla England til minningar um forna tíð.

Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,

4 andsvör við “Mun Bretland hverfa?”

 1. Gulli

  Ég held að þessi spá þín sé nú meira lituð af óskhyggju en nokkru öðru (án þess að ég viti þín raunverulega afstöðu). Skotar hafa vissulega rifist lengi um hvort þeir vilja skilja sig frá bresku krúnunni en undanfarið hefur þeim fækkað verulega og er það rakið að stóru leyti til versnandi stöðu á fjármálamörkuðum, þvert ofan í það sem þú gengur út frá. Könnun sem The Scotsman birti núna í mars bendir til að einungis 33% skota myndu samþykkja sjálfstæði. (Wikipedia)

  Skv. nýlegum könnunum styðja 66% Norður Íra áframhaldandi langvarandi samband við bresku krúnuna en einungis 23% vildu sameinast Írlandi.

  Walesverjar hafa byrjað að skoða sjálfstæði en innan við 20% Walesverja styðja þá hugmynd ennþá og hefur ekki aukist að neinu ráði í langan tíma.

  Ein villa sem þú gerir líka, Breska Heimsveldið annars vegar (British Empire) og Breska Samveldið hins vegar (British Commonwealth) eru tveir algjörlega aðskildir hlutir. Breska heimsveldið er í raun lítið annað en Bretland, N. Írland og síðan hin ýmsu svæði um heiminn sem annað hvort vilja ekki sjálfstæði frá Breska heimsveldinu eða hafa ekki bolmagn til þess.

  Breska Samveldið (sem heitir í raun Commonwealth of Nations) eru samtök 53 fullvalda ríkja sem flest en alls ekki öll voru hluti af Breska heimsveldinu. Samveldið er í raun viðskiptalegt, pólitískt og „samfélagslegt“ samband og væri frekar skrýtið ef nýlendurnar gömlu vildu komast út úr því þar sem það opnar þeim viðskiptaleið inn í sérstaklega Evrópu og N. Ameríku.

 2. Lalli

  Ég veit alveg hver er munurinn á Samveldinu og því sem eftir er af breska heimsveldinu. En ef leifarnar af breska heimsveldinu grotna niður þá held ég að allavega verði einhver breyting á því fyrrnefnda, líklega lagt niður.

  Þetta er annars engin óskhyggja af minni hálfu, mér er slétt sama hvernig málum verður skipað þarna í framtíðinni. Ég hef þessa tilfinningu og það er allt og sumt. Bretland minnir mig dálítið á myndina „The last Emperor“, hvernig síðasti keisari Kína var orðinn hlægileg tímaskekkja á 20. öldinni. Kannski spilar inní þetta óþol mitt gagnvart konungsfjölskyldum. Sjáum til hvað gerist þegar drottingin geispar golunni, gæti vel trúað því að þá verði tækifærið notað til breytinga.

  Varðandi Skotland þá hefur Scottish National Party alltaf verið að sækja í sig veðrið í undanförnum kosningum og varð loks stærsti flokkurinn á skoska þinginu 2007. Sjálfstætt Skotland er helsta baráttumál þeirra en ég vissi ekki að stuðningurinn við það mál hafi fallið svona nýlega, líklega er það kreppan sem kemur illa við fólk.

  Veit að Wales er ekki á þessum buxunum eins og stendur en ég held að það ætti eftir að skapa fordæmi þegar að Skotland slítur sig laust.

  Ástandið á N-Írlandi er flókið en ég held að það eigi eftir að síga í þá átt sem ég nefndi fyrr eða síðar. Þó ekki væri nema vegna þess að kaþólikkarnir fjölga sér mun hraðar og verða komnir í meirihluta eftir örfáar kynslóðir.

  Eins og ég segi þá er þetta spádómur sem byggir meira á minni tilfinningu heldur en rökum. Við sjáum hvað setur.

 3. Gulli

  Las aðeins vitlaust og fannst þú vera að rugla heimsveldinu og samveldinu saman – biðst auðvitað afsökunar á því.

  En þó Breska heimsveldið liðaðist í sundur er engin ástæða til að það hefði nein áhrif á samveldið, ekki nema kannski að aðildarlöndum þar myndi líklega bara fjölga um þau lönd sem slitu sig frá heimsveldinu. Þó Skotar og N. Írar myndu verða sjálfstæð get ég ekki séð af hverju samveldið ætti að liðast í sundur – þetta eru fyrst og fremst verslunarsamtök þó þau séu byggð á sögulegum grunni og hvorki Skotland eða N. Írland myndu breyta miklu þar um þó þau hyrfu út úr því. Reyndar er líklegra að Evrópusambandið gæti liðast í sundur við slíkt þar sem Skotar hafa mjög skiptar skoðanir um aðild að því og Englendingar gætu jafnvel nýtt tækifærið til að segja sig úr Evrópusambandinu.

  Kaþólikkarnir eru nú þegar fleiri en mótmælendur á N. Írlandi – þeir skiptast bara í svo marga hópa þegar kemur að sjálfstæðismálinu og af þeim styður ekki nema ca. helmingur sameiningu við Írland.

  Wales yrði líklega í miklum fjárhagsvandræðum fljótlega eftir að það sliti sig út úr Breska heimsveldinu einfaldlega vegna þess að láglaunaiðnaður og landbúnaður eru ennþá helstu tekjulindirnar og flestar verksmiðjurnar eru lítið annað en útibú frá stórfyrirtækjum í öðrum löndum. Það er ein af meginástæðum fyrir því að stuðningur við sjálfstæði Wales er ansi lítill.

  Ég er hins vegar alveg sammála þér um að þessi konungaveldi eru stórfengleg tímaskekkja en þar sem ca. 70% breta styðja konungdæmið er ekki líklegt að neinu verði breytt þar á næstunni. Svipuð staða er hérna í Svíþjóð þó stuðningurinn sé ekki alveg jafn afdráttarlaus. Spurningin er samt hvort sé meiri tilgangur með því að kjósa sér valdalausan „kóng“ á fjögurra ára fresti eins og gert er á Íslandi.

 4. Lalli

  Betra að kjósa kónginn og hafa möguleika á að skipta honum út á fjögurra ára fresti heldur en að bara einhver, vegna þess að hann fæddist í réttri fjölskyldu, fái að vera kóngur. Annars held ég að það væri réttast fyrir Ísland að sameina embætti forseta og forsætisráðherra að því gefnu að réttar breytingar yrðu gerðar á öðrum stöðum.

  Ég held að kaþólikkar séu í minnihluta á N-Írlandi en hef ekkert merkilegra en Wiki fyrir mér í því. Tölurnar eru frá 2001, kannski hefur þetta þegar breyst eitthvað.

  The population of Northern Ireland was estimated as being 1,759,000 on 10 December 2008[1]. In the 2001 census, 45.6% of the population identified as belonging to Protestant denominations (of which 20.7% Presbyterian, 15.3% Church of Ireland), 40.3% identified as Catholic, 0.3% identified with non-Christian religions and 13.9% identified with no religion. #

  Ég held líka að allt þetta ofbeldi frá IRA og fleirum sem styðja sameiningu Írlands hafi öfug áhrif á flesta. Flest siðað fólk fyrirlítur jú ofbeldi og með því að styðja sameininguna þá eru þeir komnir í lið með ofbeldisseggjunum. Í þessari sömu grein á Wiki segir einnig að 40% íbúa þar skilgreina sig hvorki sem sambandssinna (óbreytt samband) eða þjóðernissinna (sameinast Írlandi), kjósa líklega að standa fyrir utan ruglið.

  Kannski er ég að bulla með Samveldið fyrst að það er á þessum nótum. Ég er hlynntur öllum alþjóðasamtökum sem efla samskipti á milli heimshluta.