Archive for mars, 2009

Emil Sær

Höfðum það loksins af að skrá yngri strákinn en hér þurfa foreldrarnir að skrá börnin sérstaklega á þar til gerðri stofnun til að fá útgefið fæðingarvottorð. Hann heitir Emil Sær og það er endanleg ákvörðun, nú er ekki hægt að breyta því.

Tags:

Appelsínugulur

Hvað skyldi appelsínugulur hafa heitið fyrrum á norrænni tungu áður en menn þekktu appelsínur?

Tags:

Einar Már um Mexíkó

Áhugavert að lesa frásögn helsta rithöfundar Íslands af ferð hans til Mexíkó á síðasta ári. Þetta er því miður allt satt og rétt sem þarna kemur fram.

Tags: ,

Ástþór Magnússon

Ætlar þessi ágæti maður ekki að ná þessu? Stjórnmál eru ekki hans sterka hlið.

Tags: ,

Ímynd hvalveiða í útlandinu

Stundum held ég að Íslendingar skilji ekki alveg hvað hvalveiðar eru mikið alvörumál hér í útlandinu. Hér er litið á hvalveiðar sem helbera villimennsku og ég geri ráð fyrir því að þannig sé það í flestum löndum. Sá mjög gott dæmi um daginn þegar að Ari var að horfa á sjónvarpið og eftirfarandi myndband sem sjá má hér að neðan kom á skjáinn. Þetta var á stöðinni Discovery Kids í vinsælum þætti um dýralíf sem þessi unga stúlka Bindi Irwin sér um. Athugið að þetta er normið hér úti. Ímyndið ykkur svo hvernig það fer í almenning þegar fréttist að Íslendingar séu byrjaðir aftur að veiða hvali.

Var þetta kannski meðvituð tilraun til að sverta enn frekar mannorð Íslendinga í útlandinu?

Sjálfum finnst mér lítið um hvalveiðar í sjálfu sér en vandamálið er hvernig þær hafa áhrif á orðspor Íslands. Það er eiginlega orðið tómt mál að tala um Ísland sem eitthvað vistvænt land þar sem að risavirkjanir, stóriðja og hvalveiðar eru það helsta sem frétta má þaðan. Fyrir utan náttúrulega fjármálasukkið.

Tags:

Mun Bretland hverfa?

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að leifarnar af breska heimsveldinu muni brátt hverfa og enda á ruslahaugum sögunnar. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega, það er eitthvað við breska konungsdæmið sem virkar ákaflega forneskjulegt og stirðnað á mann. Þetta stúss þeirra í kringum kóngafólkið t.d., ég skil ekki afhverju er enn verið að púkka upp á konunga á 21. öldinni í lýðræðisríkjum. Thomas Paine hlýtur að vera á stöðugum snúning í gröfinni.

Ég held að N-Írland hljóti að sameinast Írska lýðveldinu einhvern daginn, að halda sömu þjóðinni aðskildri í tveimur hólfum gengur aldrei upp til lengdar þótt að menn geti þrjóskast við lengi. Skotar eru líka orðnir líklegir til að hugsa sér til hreyfings í sjálfstæðismálum, nú sem aldrei fyrr. Wales gæti jafnvel fylgt í kjölfarið. Tek það fram að þessar hugsanlegu breytingar verða líklega á löngum tíma, nokkrum áratugum.

Breska Samveldið fer þá líklega sömu leið enda hálf súr félagsskapur þar á ferðinni, gamlir kúgarar með gömlu þrælanýlendum sínum.

Eins og ég segi þá hef ég engin sérstök rök fyrir þessum spádómum, þetta er einhver tilfinning sem hefur grafið um sig. Spáð er að Bretland og Japan verði harðast úti í efnahagskreppunni af þróuðu löndunum að undanskildu Íslandi. Slíkt ástand hefur oft í för með sér breytingar til góðs eða ills. Í þessu tilviki held ég að það grafi undan Bretlandi og að það liðist enn meir í sundur. Saga breska heimsveldisins á 20. öld var samfelld saga niðurbrots og sundrungar og ég tel að ferilinn eigi eftir að halda áfram á þeirri 21. Undir lokin verður því ekkert eftir nema gamla England til minningar um forna tíð.

Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,

Nýir flokkar

Sé það á fréttum heima að nýir flokkar hafa skotið upp kollinum nú þegar styttist í kosningar. Lýðskrumið loðir við þessi framboð, fólk sem reynir að fiska út á óánægju kjósenda með ástandið til að krækja sér í vel launaða innivinnu. Ef það væri nokkur alvara í spilunum hjá þessu fólki þá ætti það að stofna stjórnmálaflokk daginn eftir kosningar til að sýna að hugsjónirnar réðu för hjá því. Þá væri fyrst hægt að trúa því að þetta fólk væri ekki að þessu brölti eingöngu sjálfu sér til framdráttar.

Tags:

Tölvan í endurhæfingu/Nýtt nafn?

Eitthvað verður minna um blogg og netráp hjá mér þessa dagana þar sem að tölvan var sett í endurhæfingu. Nú á að formata harða diskinn vegna mikils seinagangs undanfarið. Hef ekki formatað diskinn síðan að ég fékk tölvuna sumarið 2005 þannig að ég má vel við una.

Annars eru helstu tíðindi þau að yngri drengurinn hefur fengið nýtt nafn í þriðja skiptið. Allt er þá þrennt er. Tilkynni nafnið þegar búið er að skrá drenginn formlega því hér í Mexíkó er ekki leyft að skipta um nafn, aldrei. Sama hvaða ónefni foreldrarnir hafa valið þér þá situr þú uppi með það sem eftir er. Því er eins gott að vanda valið.

Tags: ,

Talnaglöggur

Ari hefur lært að telja upp að tíu á spænsku. Mér finnst það nokkuð gott hjá kríli sem nýorðið er tveggja ára.

Tags:

Radiohead settir á ís

Í kreppunni er allur óþarfi skorinn við nögl. Radiohead ætla að halda tónleika hér í borg þann 15. og ég hefði ekkert á móti því að mæta. En það verður líklega að bíða betri tíma.

Mér dettur varla í hug sú grúppa sem ég vildi sjá á sviði frekar en Radiohead. En lífið er tík eins og máltækið segir. Konan ætlaði að splæsa í miða þótt hún sé ekki aðdáandi en ég þvertók fyrir það. Hef verið ótrúlega hagsýnn á þessum síðustu og verstu.

Þeir koma örugglega aftur hingað einhvern daginn. Nú eða við eltum þá uppi hvar sem þeir verða.

Tags: ,