Góð hagfræði?

Ég veit skammarlega lítið um hagfræði en einhvern veginn efast ég um þessar miklu aðgerðir sem stjórnvöld víða um heim standa í þessa dagana. Mér skilst að reynt sé að gera öfugt við það sem gert var í heimskreppunni á millistríðsárunum, þ.e. að draga úr fjármagni í umferð vegna aðhaldsaðgerða þess opinbera. Þess í stað á nú svoleiðis að dæla peningum úr ríkiskössunum og seðlabönkunum inn í kerfið og þá á allt að fara á fullt á nýjan leik.

Innspýtingarnar í Bandaríkjunum eru nú samanlagt komnar í upphæðir sem mældar eru í trilljónum dollara og önnur ríki eru einnig að setja umtalsverðar fjárhæðir í alls kyns lífgunartilraunir. Nema kannski Ísland sem á enga peninga í svona tilraunir.

Ég hreinlega veit það ekki, einhvern veginn held ég að þetta eigi ekki eftir að virka þótt ég sé yfirleitt frekar bjartsýnn maður. Bankar um heim allan komu sér sjálfir í þessi vandræði og þetta ætti að vera þeirra vandamál, ekki skattborgara. Illa reknir bankar hefðu frekar átt að fara beina leið á hausinn, vera teknir til gjaldþrotaskipta og leystir upp.

Á vald.org segir í nýlegri grein um aðgerðir ríkisstjórnar Obama:

Tölfræðilega er dæmið alveg út í hött. Ef öll hlutabréf Citigroup, JP Morgan Chase og Bank og America hefðu verið seld núna í byrjun vikunnar þá hefði samanlagt verð þeirra verið $158 milljarðar. Á sama tíma er ríkið að styðja þessa þrjá banka með lánum og skuldbindingum upp á $250 milljarða og sú tala fer upp í $500 milljarða ef staða þeirra versnar. Og nú eru enn meiri peningar á leiðinni!

Það liggur í augum uppi að aðilar sem hafa fjárfest í hlutabréfum þessara banka eru í raunveruleikanum búnir að tapa svo til öllu. Án skattgreiðenda væri fjárfestingin löngu glötuð. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig á frjálsum mörkuðum, menn græða á sumum fjárfestingum og tapa á öðrum. Þegar svona staða kemur upp þá á ríkið að þjóðnýta bankana strax og gera útistandandi hlutabréf verðlaus. Þetta er sænska leiðin. Næsta skerf er svo að taka alla vandræðapappíra út úr þessum bönkum og mjatla þeim út á markaðinn á einhverju verði. Þegar bankarnir eru lausir við allt ruslið þá braggast þeir fljótt aftur og ríkið selur þá á frjálsum markaði.

Þótt þetta sé vissulega dýrt í framkvæmd þá er þessi leið ekki aðeins ódýrara en sú sem nú er í gangi, heldur flýtir hún líka gífurlega fyrir nýjum uppgangstímum í hagkerfinu. Með því að ausa peningum árum saman í hálfdauða banka þá er hins vegar verið að tryggja þráláta efnahagslægð. Japanir gengu þessa píslagöngu eftir 1990 og kalla það týnda áratuginn. #

Þetta hljómar ekki ósennilega fyrir mér. Ég held að það hafi verið nær fyrir ríkisstjórnir að sjá til þess að fólkið geti þraukað kreppuna með t.d. atvinnuleysisbótum og niðurgreiddri félagslegri þjónustu. Að prenta peninga og dæla þeim svo út um allt, eins og úr góðri haugsugu, er örugglega ekki það skynsamlegasta í stöðunni.

Annars er ég belja á hálum ís í svona umræðum og segi ekki meira að sinni.

Tags: , ,

3 andsvör við “Góð hagfræði?”

  1. Gulli

    Þetta er svona „neyðaraðstoðarhagfræði“, senda bara nógu mikið af peningum og þá leysist vandamálið af sjálfu sér. Mikið notað í tengslum við neyðar- og þróunaraðstoð í sérstaklega Afríku og í heilbrigðiskerfum Norðurlanda.

  2. Lalli

    Áhugaverð samlíking. Líkt og neyðaraðstoðin endar oft í lúxuskerrum og höllum fyrir einræðisherra í Afríku þá hefur strax komið í ljós að „bail-out“ pakkarnir fóru að einhverjum hluta í bónusa fyrir toppana í fjármálafyrirtækjum á Wall Street. Bónusa sem þeir fengu fyrir að setja fyrirtækin nánast á hausinn!

  3. Gulli

    Vissulega passar það vel líka en ég var fyrst og fremst að hugsa um að fólk heldur að málin leysist bara með því að moka í þau peningum án þess að fylgjast eitthvað frekar með því hvert peningarnir fara. Þess vegna nefndi ég heilbrigðiskerfin því ekki batnar þjónustan með því að auka peningana en bjúrókratían vex eins og púkinn landskunni.